Svar: Ansi margt.
- Heilbrigðiskerfið eflt: Allir þessir flokkar tala fyrir því að efla heilbrigðiskerfið. Þeir gætu í það minnsta sameinast um að bæta töluverðu fjármagni í heilbrigðismál og draga úr kostnaði sjúklinga.
- Nýting náttúruauðlinda: Að þjóðin fái aukna hlutdeild af þeim arði til verður vegna nýtingu náttúruauðlinda. Flokkarnir þurfa ekki að vera algerlega sammála um hvernig þetta er gert. Þegar kemur að fisknum í sjónum er hægt að sætta sig við margar leiðir og blanda þeim saman eftir þörfum. Uppboð að öllu leyti, uppboð að hluta, auðlindagjald, sérákvæði sem tryggja stöðu sjávarplássa. Allir flokkarnir vilja að þjóðin fái meira fyrir auðlindirnar. Það er nóg. Annað er útfærsluatriði.
- Ný stjórnarskrá: Allir þessir flokkar vilja nýja stjórnarskrá sem tekur mið af tillögum Stjórnlagaráðs. Áherslur flokkanna eru ekki eins en nógu líkar til að hægt sé að ná ásættanlegri niðurstöðu.
- Aðbúnaður aldraðra og öryrkja: Allir flokkar vilja bæta hag aldraðra og öryrkja a.m.k. í orði. Hér er varla mikinn ágreining að finna.
- Umhverfismál: Hér er áherslumunur. Allir segjast styðja umhverfisvernd. Flokkarnir hafa vitaskuld mismundandi stefnur í umhverfismálum en þær eru ekki það ólíkar að ekki sé hægt að semja um niðurstöðu sem allir geta sætt sig við.
- Evrópusambandið: Þessir flokkar eru allir opnir fyrir því að kjósa um áframhaldandi viðræður um ESB. Það er nóg. Flokkarnir, eða einstaklingar innan þessara flokka, þurfa ekki að vera sammála um það hvort það sé vænlegt að Ísland gangi inn í sambandið. Það eina sem skiptir máli er að þeir séu sammála um að ítarleg og gagnleg umræða fari af stað sem endi svo með þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið.
- Móttaka hælisleitenda: Samhljómur er hjá öllum þessum flokkum hvað varðar móttöku hælisleitenda. Einhver áherslumunur en eitthvað sem ætti að vera auðvelt að semja um.
- Almannahagsmunir umfram sérhagsmuni: Talsmenn allra þessa flokka hafa svo talað um almannahagsmuni umfram sérhagsmuni.
Fyrir mér er alveg ljóst að þessir mið-hægri-, miðju- og vinstriflokkar geta vel sameinast um að vinna saman að mikilvægum umbótum á íslensku samfélagi. Það er mikinn samhljóm að finna í rituðum stefnum þessara flokka í mörgum málum og lítið sem bendir til þess að þeir geti ómögulega unnið saman.
Augljós kostur við slíka stjórn er líka sá að þessir flokkar eru ekki tengdir Panamaskjölunum eða annari spillingu sem einkenndi síðasta kjörtímabil.
Mjög áhugavert væri því að sjá þessa flokka vinna saman. Hvort sem það væri í minnihlutastjórn eða meirihlutastjórn.