Framboðsyfirlýsing

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

23/08/2016

23. 8. 2016

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í 2. – 3. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Ég er iðjuþjálfi að mennt en starfa sem forstöðumaður hjá Barnavernd Reykjavíkur.  Ég bý í Grafarvoginum og á tvö börn, tvo ketti og er lofaður yndislegri konu. Ég er mikill áhugamaður um samfélagsmál, heimspeki, vísindi, góðar bækur, tónlist, kvikmyndir […]

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í 2. – 3. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Ég er iðjuþjálfi að mennt en starfa sem forstöðumaður hjá Barnavernd Reykjavíkur.  Ég bý í Grafarvoginum og á tvö börn, tvo ketti og er lofaður yndislegri konu. Ég er mikill áhugamaður um samfélagsmál, heimspeki, vísindi, góðar bækur, tónlist, kvikmyndir og ekki síst vísindaskáldskap.

Hvers vegna býð ég mig fram?

Sigurður HólmÉg býð mig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar því ég vil stuðla að því að jafnaðarmannaflokkur Íslands tali af festu og heilum hug fyrir jafnaðarstefnunni. Mér finnst mikilvægt að við sem samfélag tökum ákvörðun um hvort við ætlum að skapa samfélag fyrir alla eða fyrir fáa útvalda.

Talsmenn jafnaðarmanna þurfa að veita kjósendum innblástur. Sýna fram á hvers vegna jafnaðarstefnan skiptir almenning máli. Jafnaðarmenn verða að tala skýrt um jöfnuð og berjast af fullum krafti gegn ójöfnuði bæði hér á landi sem og í heiminum öllum.

Hugmyndafræðin er ekki dauð og því leiðist mér allt tal um að hugtökin vinstri og hægri séu úrelt. Jafnaðarmannaflokkur Íslands er, eða á að vera, frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem skilgreinir sig til vinstri og leitast við að vinna með öðrum umbótaröflum. Vaxandi misskipting er siðferðilega röng. Hún leiðir til sóunar, umhverfisspjallla, átaka og eymdar.

Ég vil stuðla að því að Samfylkingin berjist af fullum krafti gegn uppgangi fordóma og hatursorðræðu.

Ég tel að jafnaðarmenn eigi fyrst og fremst að berjast fyrir hagsmunum venjulegs fólks og ekki síst þeirra sem eiga undir högg að sækja.

Eins og þorri jafnaðarmanna styð ég heilshugar nýja stjórnarskrá og að kosið verði um aðild að Evrópusambandinu eftir vandlega umfjöllun um kosti þess og galla. Þetta eru þó tæknileg mál sem mega ekki yfirskyggja meginstef jafnaðarmennskunnar:

Allir eiga að búa við jöfn tækifæri, hafa aðgang að gjaldfrjálsri menntun, heilbrigðisþjónustu og öryggisneti. Jafnaðarstefnan á að ganga út á að verja almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni.

Nánar:

Sigurður Hólm Gunnarsson í 2. til 3. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík

https://www.facebook.com/sigurdur.holm.gunnarsson/

Deildu