Trúleysingjar fresti eigin dauðdaga

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

14/10/2015

14. 10. 2015

Næstu tvo mánuði verður Fossvogskirkja lokuð vegna viðgerða. Þar með hafa trúleysingjar og aðrir sem ekki játa kristna trú í raun ekki í nein opinber hús að venda ef þeir taka upp á því að hrökkva upp af. Ekki má halda veraldlegar útfarir í kirkjum Þjóðkirkjunnar (1) Fossvogskirkja er eina opinbera rýmið sem trúleysingjar, og aðrir […]

Næstu tvo mánuði verður Fossvogskirkja lokuð vegna viðgerða. Þar með hafa trúleysingjar og aðrir sem ekki játa kristna trú í raun ekki í nein opinber hús að venda ef þeir taka upp á því að hrökkva upp af. Ekki má halda veraldlegar útfarir í kirkjum Þjóðkirkjunnar (1)

Fossvogskirkja er eina opinbera rýmið sem trúleysingjar, og aðrir sem vilja halda veraldlega útför, hafa getað nýtt sér. Fossvogskirkja er eina opinbera kirkjan sem leyfir athafnir óháð trú- eða lífsskoðunum, enda er Fossvogskirkja á vegum Kirkjugarða Reykjavíkur ekki Þjóðkirkjunnar.

Nú skal það tekið fram í upphafi að það er ekkert sérstakt baráttumál húmanista og trúleysingja að komast að í kirkjum. Vandinn er að ekki er til viðeigandi húsnæði á vegum hins opinbera til að halda veraldlegar athafnir. Þar sem ekkert slíkt húsnæði er til leita margir aðstandendur eðlilega til Þjóðkirkjunnar um húsaskjól en er vísað frá.

Þetta kann að koma mörgum á óvart þar sem því er reglulega haldið fram að Þjóðkirkja Íslands þjóni öllum. Vitna ég hér beint í orð biskups:

„Ef einhver biður um þjónustu kirkjunnar þá spyrja starfsmenn hennar ekki “Bíddu, ert þú í þjóðkirkjunni? Ert þú kristin manneskja” Við þjónum bara fólki alveg sama í hvaða trúfélagi það er.“ (Leturbreytingar SHG) Féttablaðið 30. mars 2013 (2)

Þetta er því miður, eins og margoft hefur verið bent á, rangt.

Ólíkt „samviskufrelsi“ Þjóðkirkjunnar, sem gefur prestum leyfi til biðjast undan því að gefa saman samkynja pör, þá er beinlínis bannað samkvæmt samþykktum Þjóðkirkjunnar að halda veraldlegar útfarir í þjóðkirkjum landsins. Nema í Fossvogskirkju sem er ekki í beinni eigu Þjóðkirkjunnar og er, eins og áður segir, nú lokuð vegna viðgerða.

„Ekki skal nota kirkju til annarra athafna en þeirra sem teljast samrýmast tilgangi hennar og stöðu sem vígðs helgidóms þjóðkirkjunnar, svo sem borgaralegra athafna eða athafna á vegum annarra trúfélaga en kristinna.“  (Leturbreytingar SHG) Samþykktir um innri málefni þjóðkirkjunnar (3)

Reyndar eru reglulega haldnir veraldlegir tónleikar og borgarafundir í þjóðkirkjum landsins, en ekki veraldlegar giftingar, nafngjafir og ekki útfarir. Það er beinlínis bannað.

Nú veit ég að ýmsir prestar Þjóðkirkjunnar hafa gjarnan viljað aðstoða samborgara sína og bjóða sína kirkju undir veraldlegar athafnir en samkvæmt reglum mega þeir það ekki.

Þegar ég hugsa um framkomu Þjóðkirkjunnar gagnvart samborgurum sínum verð ég sár og jafnvel reiður. Talsmenn Þjóðkirkjunnar tönnlast sífellt á því að kirkjan þjóni öllum og réttlæta þeir þannig stöðu kirkjunnar sem „þjóð“kirkju. Vandinn er sá Þjóðkirkjan þjónar ekki öllum. Hún þjónar ekki samkynhneigðum ef einstaka prestar vilja ekki þjóna þeim og hún þjónar alls ekki dauðum trúleysingjum og aðstandendum þeirra. Musteri „kristilegs siðgæði“ á Íslandi er byggt á sandi.

Skal hér tekið fram að ólíkt Þjóðkirkjunni þá hefur Fríkirkjan í Reykjavík alltaf tekið trúleysingjum opnum örmum og boðið þeim að halda athafnir í sínu húsnæði. Hefur forstöðumaður Fríkirkjunnar verið gagnrýndur fyrir góðvildina af kollegum sínum úr ríkiskirkjunni. Misjafnt er kristilegt siðgæðið. (4)

Um árabil hef ég tekið virkan þátt í Siðmennt, félagi siðrænna húmanista á Íslandi, og hef því fylgst ágætlega með þróun veraldlegra athafna hér á landi. Veraldlegum athöfnum fjölgar á hverju ári og algengt er að aðstandendur óski eftir að fá að nota Fossvogskirkju undir útfarir. Er það skiljanlegt, þar sem ekkert annað opinbert rými er í boði sem er aðgengilegt, hlutlaust, án trúarlegra tákna og viðeigandi undir veraldlegar útfarir.

Siðmennt hefur sent þingmönnum erindi árlega þar sem óskað er eftir úrbótum til að tryggja betur jafnrétti og trúfrelsi á Íslandi. Í bréfi sem félagið sendi í september 2015 var bent á að ekki er til viðeigandi húsnæði undir veraldlegar athafnir:

“Við athafnir Siðmenntar, þó sérstaklega við útfarir, eiga aðstandendur erfitt með að fá tilhlýðilegt rými sem hentar öðrum lífsskoðunum en kristnum. Í dag er aðeins hægt að notast við Fossvogskirkju, sem skilgreind er fyrir öll trúar- og lífsskoðunarfélög. Þar trónir risastór kross fyrir altari sem lýsir ekki virðingu fyrir öðrum lífsskoðunum. Því er óskað eftir því við Alþingi að séð verði til þess að hér á landi sé til húsnæði sem henti athöfnum fólks með aðra lífsskoðun.“ Erindi til þingmanna um trúfrelsi og jafnrétti (5)

Nú þegar Fossvogskirkja er lokuð vegna viðgerða sést vel hversu áríðandi það er að til sé húsnæði sem hentar vel undir veraldlegar athafnir og þá sérstaklega útfarir. Mikilvægt er að stjórnvöld bregðist sem fyrst við beiðni Siðmenntar. Eins og staðan er núna getur reynst erfitt að finna viðeigandi húsnæði undir veraldlegar útfarir og þá er lítið annað að gera en hvetja trúleysingja til að fresta eigin dauðdaga.

Sjá einnig:

Hvar á að jarða trúleysingja?

(1)
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/10/09/utforum_sidmenntar_uthyst_2/
http://www.visir.is/veraldlegar-utfarir-i-uppnami-vegna-vidgerda-i-fossvogskirkju/article/2015151019981
(2)
https://skodun.is/2013/03/30/biskupinn-bullar-i-frettabladinu/
(3)
http://kirkjuthing.is/log-og-reglur/adrar-heimildir/samthykktir-um-innri-malefni-thjodkirkjunnar/
(4)
http://www.visir.is/frikirkjan-opin-ollum-tru–og-lifsskodanafelogum/article/2015151019682
(5)
http://sidmennt.is/2015/09/21/erindi-til-thingmanna-um-trufrelsi-og-jafnretti/
Deildu