Ein helsta hetja fordómafullra íhaldsmanna í Bandaríkjunum í dag er Kim Davis, sýsluritari í Kentucky. Davis varð fræg fyrir að neita að gefa út giftingarleyfi fyrir samkynja pör vegna þess að giftingar samkynhneigðra stangast á við trúarskoðun hennar. Á Íslandi myndi biskup Íslands (og staðgengill hans) kalla afstöðu Davis „samviskufrelsi“.
Vandinn er að þar sem Kim Davis er opinber starfsmaður er henni óheimilt að mismuna fólki, jafnvel þó að trúarskoðun hennar boði slíka mismunun. Því var Davis sendi í fangelsi í fimm daga fyrir að brjóta á samborgurum sínum.
Þjóðkirkjan á Íslandi er opinber stofnun. Prestar og biskupar eru á launaskrá ríkisins, starfsemi kirkjunnar er mikið til fjármögnuð af hinu opinbera auk þess sem Þjóðkirkjan nýtur sérstakrar verndar í sjálfri stjórnarskrá Íslands.
Að auki hafa prestar Þjóðkirkjunnar, rétt eins og vígslumenn hjá öðrum skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum, lagalegt vald til að gefa saman fólk. Hjónavígslur trú- og lífsskoðunarfélaga er veraldlegur löggjörningur sem hefur raunveruleg áhrif á borgaraleg réttindi og skyldur.
Á meðan Þjóðkirkjan er fjármögnuð af hinu opinbera, vernduð í stjórnarskrá og hefur vald til að hafa áhrif á borgaraleg réttindi fólks á að sjálfsögðu að banna starfsmönnum hennar að mismuna fólki vegna kynhneigðar. Þetta ætti öllum að vera ljóst.
Öllum nema biskupi Íslands og staðgengli hans. Okkar Kim Davis.