Um tjáningarfrelsið og ofbeldi

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

27/04/2015

27. 4. 2015

Það er auðvelt að taka einfalda og svarthvíta afstöðu til flókinna mála. Ágætt dæmi er afstaða sumra til tjáningarfrelsisins. Annað hvort er algjört tjáningarfrelsi eða ekkert segja þeir. Samtökin 78 hafa kært nokkra einstaklinga fyrir hatursorðræðu og margir bregðast illa við. Jónas Kristjánsson ritstjóri (sem hefur sakað mig um hvatvísi) talar um „skoðanafasisma“ og „þöggunarkröfu“. […]

Það er auðvelt að taka einfalda og svarthvíta afstöðu til flókinna mála. Ágætt dæmi er afstaða sumra til tjáningarfrelsisins. Annað hvort er algjört tjáningarfrelsi eða ekkert segja þeir. Samtökin 78 hafa kært nokkra einstaklinga fyrir hatursorðræðu og margir bregðast illa við. Jónas Kristjánsson ritstjóri (sem hefur sakað mig um hvatvísi) talar um „skoðanafasisma“ og „þöggunarkröfu“.

Ég er almennt þeirrar skoðunar að það eigi að fara varlega í að setja lög um skoðanir, því frjáls skoðanaskipti eru mikilvæg forsend þess að hægt sé að ræða mál og kryfja þau til mergjar. Helsta ógn fordómanna er upplýst umræða.  Ég tek þó ekki einfalda afstöðu í þessu máli.

Orð eru stundum ofbeldistæki, rétt eins og hendur. Maður bannar ekki hendur þó sumir noti þær til að berja á náunganum. Ofbeldi er þó bannað, og það skiljanlega. Sama á auðvitað við um ofbeldi með orðum. Það er eðlilegt að veita fólki sem verður fyrir ítrekuðu munnlegu eða skriflegu ofbeldi einhvers konar réttarvernd.

Því tel ég ekki verið sé að skerða tjáningarfrelsið sérstaklega þegar andlegt ofbeldi er kært. Ekki frekar en það sé verið að skerða ferðafrelsið þegar einhver er kærður fyrir líkamlegt ofbeldi.

Ég styð því Samtökin 78 í því að kæra hatursáróður og ógnandi ummæli. Samt er ég fylgjandi tjáningarfrelsinu og vil helst að sem flestir nýti sér frelsi sitt til berja niður fordóma og hatur með upplýstri umræðu.

Sem miðaldra, hvítur karlmaður á Íslandi (og meira að segja rétthentur líka) get ég illa gert mér grein fyrir því hvernig er að búa í samfélagi þar sem hatursorðræða gagnvart minnihlutahóp viðgengst án nokkurar refsinga. En þar sem ég hef þolað bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi veit ég að hið fyrrnefnda skilur oftar en ekki eftir dýpri ör á sálinni. Andlegt ofbeldi getur drepið.

Deildu