Siðmennt handbendi íslam?

Logo

Kristinn Theodórsson

Kristinn Theodórsson er fæddur árið 1977 í Reykjavík. Hann er verslunarmaður og vel kvæntur þriggja barna faðir. Kristinn er varamaður í stjórn Siðmenntar – félags siðrænna húmanista á ÍslandiNetfang: kiddithe@skodun.is

02/12/2014

2. 12. 2014

Það er mikið skrafað þessa stundina um að Siðmennt hafi á nýafstöðu málþingi félagsins, um hvort óttast eigi íslam, sýnt of mikla linkind gagnvart múslímum. Því hefur verið haldið fram í framhaldi, að Siðmennt halli sér að íslam og jafnvel sjaría lögum. Að félagið sé andsnúnara kristni en það sé íslam og við í Siðmennt […]

Málþing SiðmenntarÞað er mikið skrafað þessa stundina um að Siðmennt hafi á nýafstöðu málþingi félagsins, um hvort óttast eigi íslam, sýnt of mikla linkind gagnvart múslímum. Því hefur verið haldið fram í framhaldi, að Siðmennt halli sér að íslam og jafnvel sjaría lögum. Að félagið sé andsnúnara kristni en það sé íslam og við í Siðmennt því hálfgert landráðafólk.

Á þessum hugmyndum smjattar helst fólk sem er fremur þungt haldið af íslamófóbíu. En einnig hófsamara fólk sem var ekki á fundinum en tekur orð annarra trúanlega um hvað gekk þar á. Nokkrar endursagnir hafa síðan birst sem eru mjög litaðar af vilja til að fundurinn færi dálítið öðruvísi fram en Siðmennt valdi að láta hann gera.

Sé það eitt að reyna að ræða við múslíma á rólegum og yfirveguðun nótum svik við málstað kristinna á Íslandi, er ljóst að við í Siðmennt erum sek. Þannig fór fundurinn vissulega fram og það kann að trufla einhverja. En ef við getum verið sammála um að það þurfi töluvert meira til, þá er ljóst að Siðmennt var ekki að smjaðra fyrir neinum, heldur einfaldlega að halda fund í anda félagsins; siðrænan og húmanískan.

Trúfrelsi fyrir fleiri en kristna

Siðmennt talar fyrir veraldlegu samfélagi þar sem trúfélög og lífsskoðunarfélög fá öll að starfa á sömu forsendum. Félagið berst fyrir mannréttindum; trúar og skoðanafrelsi og aðskilnaði ríkis og kirkju (nú eða ríkis og annarra trúarstofnanna). Þannig teljum við að frelsi okkar allra til að trúa eða trúa ekki sé tryggast. En það er ekki þar með sagt að við teljum öll trúarbrögð eins; að við séum afstæðishyggjufólk sem geti ekki gert greinarmun á trúarhugmyndum, eins og haldið hefur verið fram í uræðunni eftir málþingið.

Trúarhugmyndir sem boða kúgun á minnihlutahópum eru sem dæmi klárlega vondar hugmyndir. Að því marki sem trúarbrögð boða slíkt eru þau vond. En það eru jafnan áhöld um hvort og hvernig hin ýmsu trúarbrögð geri það og það getur því verið erfitt að meta að hversu miklu leyti slíkt tilheyrir menningarheiminum eða trúarbrögðunum sjálfum.

Það kom margsinnis fram á fundinum að við værum öll hrædd við öfgar af ýmsu tagi, þar með talið kúgun og trúarofbeldi. Að við teljum bókstarfstrú af öllu tagi galna hugmyndafræði og að hin ýmsu átök í heiminum tengist vissulega að hluta til trúarbrögðum, þótt því sé oft haldið fram að slík átök hafi ekkert með trú að gera. Það er einfaldlega stundum eðlilegt að óttast bókstafstrú og öfgar. Þess vegna þurfum við að tala saman og reyna að draga úr tortryggni og fordómum sem e.t.v. stuðla hreinlega að öfgum og fundamentalisma.

Hvað ber að óttast?

Það eru 1,6 milljarðar múslíma í heiminum. Í hlutfalli við þann fjölda eru ofbeldisverk og önnur vandamál í nafni íslam allt að því fátíð og því e.t.v. orðum aukið að sérstaklega þurfi að óttast íslam. Helgi Hrafn þingmaður kom inn á það á fundinum að í valdakerfinu í Evrópu sé uppgangur fasisma miklu meira áberandi heldur en að múslímar séu að koma á sjaría lögum eða á annan hátt að troða hugmyndum upp á fjöldann. Það sé því gott dæmi um nokkuð sem við ættum mögulega að óttast meira en íslam þessa stundina.

Málþingið var m.ö.o. á inklúsívum nótum. Reynt var að finna sameiginlegan grunn og fjalla meðal annars um þær mörgu ranghugmyndir sem fólk hefur um íslam eftir fjölmiðlar í vestrinu hafa áratugum saman fjallað um múslíma með fókus á hryðjuverk og öfgafólk. Það hefur verið alið á andúð í garð íslam og því má segja að það hafi þurft að byrja fundinn á að greiða örlítið úr þeirri flækju. Annars hefði hann allur farið í að hlusta á fólk bera af sér sakir, og fór tíminn þó að drjúgum hluta í akkúrat það.

Ekki gafst tími til að taka á öllum hugsanlegum hliðum

Fundurinn var afar áhugaverður fyrir okkur sem viljum ræða stöðu múslíma við þá eins og þeir sjálfir sjá hana. En fyrir þá sem vildu sjá tekist á um hvort þessar eða hinar ljótu tilskipanirnar séu að finna í kóraninum og öðrum ritum múslíma var þetta ekki eins spennandi fundur – þótt reyndar hafi verið farið aðeins inn það svið og talað um samhengi versanna sem oft eruð notuð gegn múslímum. Allur tíminn hefði geta farið í það og þannig fundur væri sjálfsagt mjög áhugaverður. Þessi fundur fór hinsvegar ekki allur fram á þeim nótum og þó fannst okkur tíminn vel nýttur. Það er því etv. einfaldlega þörf á fleiri fundum til að komast yfir meira efni.

Hvort hin ýmsu vandamál sem gjarnan eru tengd við múslímska innflytjendur í nágrannalöndum okkar muni koma upp hér á landi er líka ágætt dæmi um umræðu sem hefði mátt taka. Og sjálfsagt hafa gagnrýnendur Siðmenntar margar aðrar spurningar sem þeir hefðu viljað sjá bornar upp á fundinum.

Málþingið var á vegum Siðmenntar og fór því fram í anda Siðmenntar, eins og áður segir. Markmiðið var ekki að sýna fram á að múslímar eigi ekki heima á Íslandi, eins og ætla mætti að sumir hafi haldið og viljað, heldur að ræða hinar ýmsu hliðar á óttanum við íslam. Og það tókst að mörgu leyti vel. Þannig að þótt ekki hafi verið boðið upp á flugeldasýningu þar sem kristnir íhaldsmenn takast á við talsmenn íslam á Íslandi, verður ekki sagt að Siðmennt hafi dregið taum íslam frekar en annarra trúarbragða. Þannig er það einfaldlega ekki.

Deildu