Ofstækið afhjúpað

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

01/12/2014

1. 12. 2014

Í íslenskum veruleika er ýmislegt að óttast. Það sem við þurfum að óttast hvað mest þessa stundina er uppgangur fasískra öfgaafla sama í hvaða hópum þau öfl leynast. Ég tel það í raun hættulegt hversu algengt það er að fólk með öfgahægri skoðanir tjáir sig mikið af lítisvirðingu og hatri um aðra þjófélagshópa. Sumum finnst meira að segja í lagi að leggja til að ákveðin trúarbrögð verði bönnuð og það í nafni frelsisins.

Á laugardaginn hélt Siðmennt málþing með yfirskriftinni: Þurfum við að óttast íslam? Markmiðið með málþinginu var að hvetja til málefnalegrar og gagnrýnnar umræðu um íslam á Íslandi.

Ég var frummælandi ásamt Ibrahim Sverri Agnarssyni, formanni félags múslima á Íslandi, Guðrúnu Margréti Guðmundsdóttur doktorsnema í mannfræði og Helga Hrafni Gunnarssyni  þingmanni. Við töluðum í um klukkutíma en síðan var annar klukkutími nýttur í pallborðsumræður og spurningar úr sal.

Það er óhætt að segja að viðbrögðin við þessum fundi hafi verið mikil. Það er leiðinlegt að segja frá því að undirrituðum hafa borist margar ógeðfelldar athugasemdir sem sumar má auðveldlega túlka sem ofbeldis- og jafnvel morðhótanir. Á fundinum sagði ég ítrekað frá þeirri niðurstöðu minni að ég óttaðist íslamska bókstafstrú, sem ég jafnframt taldi galna hugmyndafræði. Það eru þó ekki múslimar sem hafa verið með hótanir og dónaskap. Nei, dónaskapurinn kemur frá íslenskum einstaklingum sem virðast sárþjáðir af íslamafóbíu, ótta og hatri.

Á fundinum sjálfum steig fram afskaplega reitt fólk sem gat ekki stillt sig um að grípa fram í og hrópa. Á einum tímapunkti stóð mér ekki á sama og íhugaði hringja á lögregluna. Æsingurinn var slíkur. Um leið fann ég til með mörgum. Þessu fólki hlýtur að líða illa.

Sjaldan hef ég upplifað eins mikið af niðrandi og ofstækisfullum ummælum eins og í kjölfarið á þessum fundi. Mörg ummæli hafa verið sett fram á opnum vettvangi en svo hefur mér einnig verið sagt frá ummælum fólks í lokuðum hópum.  Sum ummælin eru þess eðlis að ég velti því fyrir mér hvort beri að kæra þau. Önnur sýna fram á hversu mikilvægt það er að leyfa ekki hræddu fólki að stjórna umræðum um flókin mál.

Lýðræðissinnað fólk sem styður borgaraleg réttindi, trúfrelsi, tjáningarfrelsið og mannvirðingu verður að vera duglegt að tjá sig.

Í íslenskum veruleika er ýmislegt að óttast. Það sem við þurfum að óttast hvað mest þessa stundina er uppgangur fasískra öfgaafla sama í hvaða hópum þau öfl leynast. Ég tel það í raun hættulegt hversu algengt það er að fólk með öfgahægri skoðanir tjáir sig mikið af lítisvirðingu og hatri um aðra þjóðfélagshópa. Sumum finnst meira að segja í lagi að leggja til að ákveðin trúarbrögð verði bönnuð og það í nafni frelsisins.

Nokkur dæmi um umræðuna

Valdimar Jóhannesson skrifaði pistil eftir fundinn þar sem hann segir m.a.: „Niðurstaða fundarins var: Nei við þurfum ekki að óttast íslam.“

Fullyrðing hans er röng. Lygi. Fyrir það fyrsta var engin ályktun samþykkt á fundinum og í öðru lagi sagði ég mjög skýrt og oft að ég óttaðist íslamska bókstafstrú. Helgi Hrafn tók í sama streng og sama má segja um Guðrúnu. Reyndar sagðist Sverrir einnig óttast öfga og sama má segja um alla gesti sem tjáðu sig. Það sem augljóslega fer í taugarnar á sumu fólki er að við gagnrýndum öll öfl sem hvetja til ofstækis. Að auki var almennur stuðningur við trúfrelsi meðal frummælenda.

Á Facebook hefur maður svo rekist á nokkur opinber ummæli (en fleiri leynast í lokuðum hópum eða hjá fólki sem ekki er á vinalistanum mínum). Hér eru dæmi úr tveim opnum spjallþráðum. Set athugasemdir mínar í sviga:

„Siðmennt er tól sósíalista, múslima og fjölmenningarsinna til að gagna frá kristni á Íslandi.“
( (a) Geisp… )

„ég var á fundinum og varpaði þar kjarnorkusprengju framan í þessa andkristnu menn svona í blálokin“

( (a) Umrædd „kjarnorkusprengja“ var ÖSKUR þar sem frummælendum var lofað helvítisvist. Allt í nafni Jesú. Ég bað fundargesti um að hafa það í huga að þessi fundargestur væri ekki lýsandi dæmi um kristið fólk almennt.)

„Siðmennt er siðlaus félagsskapur!“

( (a) Geisp… )

„Sigurður formaður Siðmenntar var með snildar pólitíska ræðu fyrst talaði hann um að hann væri smeikur við íslam svo talaði hann um að hann styddi íslam því hann vildi ekki mismuna trúfélögum og seinast talaði hann um að hann væri trúlaus og byði uppá besta kostin að að allir gengu til liðs við hann hann er semsagt slingur ormur að ota sínum tota eins og það kallast því hann nennir ekki að vinna eins og maður heldur vil hann vera á launum við blaður og bull“.

( (a) Ég bað ekki nokkurn mann um að ganga til liðs við Siðmennt.  (b) Ég sagðist aldrei „styðja íslam“ en ég sagðist styðja trúfrelsi og almenn mannréttindi. Allir eiga rétt á því að iðka sína trú eða lífsskoðun í friði fyrir hótunum og ofbeldi en að sama skapi er það hlutverk okkar að gagnrýna allar hugmyndir málefnalega. Líka hugmyndir sem koma frá trúarbrögðum. (c) p.s. ég er ekki og hef aldrei verið formaður Siðmenntar.)

„Sigurður Hólm er stórundarlegur- hann má ekki heyra orðið kristni þá espast hann upp eins og rauðri dulu væri veifað framan í naut og hann skrifar eins og óður maður til að tala niður kristnina, kirkjuna, aðskilnað ríkis og kirkju – styður innleiðingu á íslam, sem þó kúgar konur og samkynhneigða, reynir að telja svo fólki trú um að það sé gert í nafni trúfrelsis en er eins og hver annar sölumaður að selja félagsskapinn Siðmennt!“

( (a) Ég espast bara ekki neitt þegar ég heyri orðið kristni. Ég hef þó verið duglegur við að berjast fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju og trúfrelsi til handa öllum. Hef gert það í samtarfi við margt kristið fólk. (b) Hvergi hef ég sagst „styðja innleiðingu íslam“. Þvílíkt kjaftæði. Ég styð trúfrelsið rétt eins og tjáningarfrelsið. Ef ég styð það að Framsóknarflokkurinn fái að starfa þýðir það þá að ég styðji „innleiðingu Framsóknarflokksins“? Það er ekki heil brú í þessum málflutningi.  (c) Hef alltaf barist gegn þeim sem kúga konur og samkynhneigða. Hef gagnrýnt íslam sérstaklega en einnig gagnrýnt talsmenn kristinnar trúar sem hafa verið duglegir í fordæmingunni.  Margir virðast reiðir yfir því að ég gagnrýni fordóma óháð því úr hvaða átt fordómarnir koma. )

„siðlaus því hann gerir lítið annað en að tala niður kristna kirkju og trúarbrögð – en tekur kristna siði og gerir að sínum! Hagar sér eins og sölumaður sem er að selja vöru með því að gera lítið úr vörum keppinautsins. Ekki hagar kristin kirkja sér á sama hátt!“

( (a) Geisp… )

„Siðmennt, Vantrú, anarkistar og aðrir umburðarlyndissinnaðir vinstrimenn í boxi finna kristnum gildum og Þjóðkirkjunni flest allt til foráttu. Það myndi lækka í þeim rostinn ef þeir mundu sækja um að boða fagnaðarerindis sitt á heilagri grundu Sádanna, þar fengju þeir að finna hvað hin íslömsku grunngildi byggjast á, akkúrat öllu því sem kristin gildi byggjast EKKI á ! Við sem erum ekki samþykk uppbyggingu íslamstrúar hér á landi erum með þennan margumtalaða og útvatnaða racistastimpil, allflest okkar látum skoðun og áhyggjur okkar í ljós og komum með málefnalegar athugasemdir og vörpum fram spurningum, sumir kannski orða tilfinningar sínar hressilega en það er nú bara það mannlega í debatt hversdagsins þar sem okkur er ekki eignlegt að tala í gegnum rétttrúnaðarsíu þar sem hvert orð þarf bókstaflegað að vera þægilegt og ekki að valda óþægindum. Þetta hefur verið kallað hatursræða ! En hvernig er með hina ræðuna, sem kemur frá Ísland-Palestínu og fleiri góðvinum og velunnurum, þeirra orðræða má vera hvöss og illskeytt og merkilegt nokk, það er bara allt í lagi, því það flokkast undir skilning og umburðarlyndi.“

( (a) Ofstækið í Saudi-Arabíu er galið. Um það voru allir á fundinum sammála. Líka formaður félags múslima á Íslandi vel að merkja! (b) Annað er raus sem á ekkert skylt við málefnalega umræðu. )

„þú er bara lúmskur íslamisti þegar upp er staðið kallinn, þú kallar mig ekkert fyrir extremista án þess að mæta því, þú ert á mála hjá Íslamíu Quislingurinn, það verður mikið um Grísa skræki þegar uppgjörið verður og ég ætla ekki að missa af því
 Ps. þú sorterar ekkert í íslam frekar en aðrir og þú túlkar ekki fyrir aðra um íslam, nema að vera á mála hjá þeim, það er dauðasök, þú veist að Landráð eru Dauðasök ? Ekki satt og sanngjarnt ? Mér fynnst það“

( (a) Hér er dæmi óbeina morðhótun, í það minnsta. Þessi maður vitnar á öðrum stað í grein Valdimars Jóhannessonar um málþingið. Greinilega aðdáandi hans. (b) Ótrúlega margir sem virðast vissir um að ég sé „á mála hjá íslamistum“. Sumir hafa haldið fram í lokuðum hóp að ég og aðrir fáum greitt fyrir að „innleiða íslam“. Ofsóknaræðið er algjört.)

Ljóst er að mikilvægt er að ræða um íslam á yfirvegað og málefnalega. Leyfum ekki ofstækisfólki að stjórna umræðunni.

Ég fékk að heyra það frá einum múslíma að hann gengi um með piparúða af því hann fengi svo margar hótanir.

Finnst ykkur í lagi að búa í slíku samfélagi ótta og haturs? Ekki mér!

Ómálefnalegt og niðrandi raus um minnihlutahópa bætir ekki samfélagið. Það hefur þveröfug áhrif. Ef fólk upplifir ótta og kúgun er það líklegra til að einangra sig og jafnvel finna öryggi í sínum eigin öfgahópum. Besta leiðin til að búa til öfgafólk er að einangra minnihlutahópa og gera sífellt lítið úr þeim.

Eina raunhæfa svarið gegn öfgum er opið og veraldlegt samfélag.

Nánar

Viðtal við Sigurð Hólm í kjölfar málþingsins um Íslam í Harmageddon:

Viðtal við Sigurð Hólm og Sverrir Agnarsson vegna málþings um Íslam í Harmageddon:

Tenglar á Facebook umræðu

Deildu