Það verður að segjast að dagurinn í dag gerði að öllum líkindum mikið fyrir Framsóknarflokkinn og fylgi hans.
Fullt af fólki fékk fullt af peningum í þeirra boði – nánar tiltekið deildu ca. 28% þjóðarinnar um 100 milljörðum króna (80 milljarða framlagi og 20 milljarða skatta-afslætti frá ríkinu) á milli sín, og fengu víst flest í kringum eina milljón fyrir sinn snúð (afsakið, pítsu).
Kjósendur hata ekki gefins peninga
Þar að auki skapar þetta fyrir mörgum ímynd flokks sem getur sett fram ævintýraleg kosningaloforð og fylgt þeim eftir upp að vissu marki. Ég og aðrir bendum reglulega á að Framsókn hafi gefið mun hærri upphæðum undir fótinn og það sem mikilvægara er – að við myndum greiða fyrir öll ósköpin með mörg hundruð milljarða króna hagnaði úr samningum við kröfuhafa, sem ekkert bólar á.
Það hefur hins vegar líklega lítið að segja þegar skuldarar horfa upp á milljónina sína á vefsíðu ríkisskattstjóra; þá líður þeim væntanlega flestum eins og Sigmundur hafi einfaldlega gefið þeim peningana sem hann lofaði þeim. Tal um 20% leiðréttingu er meira að segja aftur farið að fljúga, þó það byggi á vafasömum forsendum.
Takk, Simmi. Hérna færðu atkvæði fyrir ómakið.
Krafan frá „þjóðinni“
Það er athyglisvert að það hlutfall þjóðarinnar sem fær niðurfærslu er ekki mjög langt frá því hlutfalli kjósenda sem kusu Framsókn vorið 2013 – auðvitað nokkru hærra, en gróflega mætti segja að hvoru tveggja væri í kringum þriðjung þjóðarinnar.
Nú er talað um að ríkisstjórnin hafi verið kosin til þessara aðgerða. Mætti ég þá minna á að Sjálfstæðisflokkurinn mælti beinlínis gegn beinni niðurfærslu (skatta-afslátturinn er röklega ótengd aðgerð og auðvitað elska Sjallar svoleiðis) og að Framsókn fékk ekki meirihluta greiddra atkvæða í kosningunum 2013, þó oft sé af því látið. Kosningaloforð hans höfðu því stuðning um 24% kjósenda + ca. 5% sem fóru til Dögunar og annarra framboða sem töluðu á svipaða vegu.
Þriðjungur er ekki þjóðin, frekar en Háskólabíó.
Þessi loforð og atkvæði duguðu Simma hins vegar fyrir nægum þingstyrk, stjórnarmyndunarumboði og sterkri samningsstöðu gagnvart Sjálfstæðisflokknum, sem enduðu með aðgerðum dagsins í dag.
Hvað gerðist eiginlega?
Í grófum dráttum mætti segja að Framsókn hafi með þessu hengt sig í hagsmunabandalag við hluta millistéttarinnar, eins og verkalýðsflokkar gerðu með lágstéttum forðum. En í stað þess að krefjast almennra verkalýðsréttinda eða velferðarkerfis var höfðað til sértækra fjárhagslegra hagsmuna hinna efnameiri á kostnað annarra.
Með öðrum orðum:
Tæpur þriðjungur þjóðarinnar kaus flokk sem lofaði að gefa ca. sama þriðjungi pening ef þau næðu völdum. Í gegnum þann kosningasigur, óeðlilegan þingstyrk, meðvirkni forseta og samstarfsflokks hefur það nú gengið eftir. Minnihluti þjóðarinnar náði völdum til að gefa sjálfum sér 100 milljarða úr ríkissjóði sem öll þjóðin borgar fyrir. Á meðan flýja læknar land, velferðarkerfið sveltur og skuldasúpa ríkissjóðs byrjar að malla. Allt réttlætt með frámunalegu heimskulegu bulli um ímyndaðan forsendubrest.
Þetta má víst – og af þessu hreykja þau sér.
Til hamingju, Ísland.