Í nýrri skýrslu Barnaheilla kemur fram að 16% barna á Íslandi búi við hættu á fátækt. Áætlað er að það séu um 12.000 börn. Hvað þýðir það? Hvernig er fyrir barn að alast upp við fátækt á Íslandi?
Að alast upp við fátækt getur haft í för með sér félagsleg einangrun. Hún felst til dæmis í því að barn hefur ekki tækifæri á að taka þátt í frístundar- og tómstundarstarfi. Getur ef til vill ekki sótt þjónustu frístundarheimila sem einmitt hafa það að markmið að auka félagslega virkni barna. Hefur ekki möguleika á að iðka íþróttir með félögunum eða stunda t.d. í tónlistarnám. Þá skortir barn sem býr við fátækt einnig tækifæri til að taka þátt í óskipulögðu frístundarstarfi, svo sem að fara í bíó, leikhús eða tónleika með vinum. Börn sem búa við fátækt upplifa sig oft utangarðs í samfélaginu. Þau geta ef til vill ekki gengið um í fatnaði sem er samþykktur af jafningjahópnum. Eiga ekki leikföng eða þau raftæki sem þykja til hæfi. Barn sem býr við fátækt gæti jafnvel búið á heimili þar sem ekki er netsamband og þar með takmarkað aðgengi að félagahópnum.
Að alast upp við fátækt getur falið í sér óstöðugleika. Óstöðugleikinn felst fyrst og fremst í tíðum búferlaflutningum. Foreldrar sem búa við fátækt hafa oft a tíðum ekki sömu tök og aðrir á að kaupa sér fasteign og neyðast því til að sigla á ólgusjó leigumarkaðarins. Sumir eiga ef til vill rétt á félagslegu leiguhúsnæði en bið eftir slíkri íbúð getur verið löng. Óstöðuleiki gæti einnig falist í löngum vinnudögum foreldra eða óhentugum vinnutíma þar sem börnin þurfa þá að vera í umsjá annarra en foreldra langt fram eftir kvöldi og um helgar.
En það sem gleymist oft að minnast á eru neikvæð áhrif fjárhagserfiðleika á foreldrahæfni. Rannsóknir sýna að mælanlegt samband er á milli foreldra í fjárhagserfiðleikum og geðheilsuvankvæða, þá sérstaklega þunglyndis og kvíða. Vanlíðan foreldra í kjölfar fjárhagserfiðleika kemur niður á samskipti foreldra við börn sín. Börn sem alast upp við slíkar aðstæður sýna oftar merki um kvíða og vanlíðan. Börn sem alast upp i fátækt hafa eru líklegri en aðrir til að verða fátæk á fullorðinsárum.
Hvað getum við gert fyrir börnin okkar? Fyrst og fremst verðum við að tryggja grunnþjónustu barna svo að börn sem búa við hættu á fátækt fái fría grunnþjónustu svo sem skólamáltíðir, leikskóla, frístundarstarf og samgöngur. Þá þarf að tekjutengja frístundarkort til að tryggja aðgengi allra barna að íþrótta-, lista- og tómstundarstarfi. Auka þarf stöðuleika barna í tilverunni með því fjölga félagslegum íbúðum. Setjum okkur það markmið að hækka lægstu laun sem og grunnframfærslu. Aukum barnalýðræði svo börnum sé betur kleyft að láta rödd sína og skoðanir heyrast. Stöndum vörð um stoðirnar og verndandi þætti í lífi fjölskyldna. Forgangsröðum rétt, byggjum betra samfélag.