Fyrir þessar kosningar hef ég tekið eftir því að fjölmiðlar taka lýðræðishlutverk sitt misalvarlega. Sem dæmi hefur Fréttablaðið ítrekað „sleppt“ því að ræða við fulltrúa Dögunar í umfjöllun sinni um komandi borgarstjórnarkosningar í Reykjavík. Ég veit reyndar fyrir víst að Dögun hefur gert ítrekaðar tilraunir til að fá að taka þátt í umfjöllun Fréttablaðsins en ekki átt erindi sem erfiði.
Hvernig stendur á þessum vinnubrögðum? Ekki er hægt að fela sig á bak við það að Dögun mælist svo lágt í skoðanakönnunum. Dögun mælist með örlítið minna fylgi en Framsókn og flugvallarvinir sem þó fær alltaf að vera með í allri umfjöllun.
Ég get að einhverju leyti skilið að umfjöllun um kosningar þar sem mjög margir eru í framboði sé leiðinlegri í einhverjum skilningi. En hvað með það? Kosningar eru ekki eitthvað skemmtiefni heldur lýðræðið sjálft.
Ef einkareknir fjölmiðlar geta ómögulega fjallað um stefnu allra framboða eru þeir um leið að staðfesta að ríkisfjölmiðill, sem er skyldugur til að fjalla um alla, er nauðsynlegur.
Talsmenn einkarekinna fjölmiðla sem halda eldræður „í beinni“ gegn RÚV ættu að hafa sig hægan þar til ljóst er að þeirra eigin fjölmiðlar eru færir um að valda hlutverki sínu.