Tími ungs fólks: aðsend grein

Logo

10/04/2014

10. 4. 2014

Þuríður Davíðsdóttir, Stefán Gunnar Sigurðsson og Sunna Rut Garðarsdóttir nemar úr tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands fjalla hér í aðsendri grein um tíma ungs fólks. Við höfum öll 24 klukkustundir í okkar sólahring, jafnt ungir sem aldnir. Grunnskólabörn eru í skólanum í fimm til sex tíma á dag og þar eftir tekur við í […]

TímiÞuríður Davíðsdóttir, Stefán Gunnar Sigurðsson og Sunna Rut Garðarsdóttir nemar úr tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands fjalla hér í aðsendri grein um tíma ungs fólks.

Við höfum öll 24 klukkustundir í okkar sólahring, jafnt ungir sem aldnir. Grunnskólabörn eru í skólanum í fimm til sex tíma á dag og þar eftir tekur við í mörgum tilfellum frístundarheimili eða skólagæsla til að brúa bilið þar sem margir foreldrar losna ekki úr vinnu fyrr en klukkan fjögur eða fimm. Eftir átta eða níu tíma vinnudag (og tala nú ekki um ef börnin eru í skipulögðum tómstundum ofan á þessa átta eða níu tíma) tekur við kvöldmatur og heimalærdómur. Þetta þýðir að vinnudagur barna fer að nálgast 12 tíma. Hvar er hægt að skera niður dagskránni?

Til að byrja mætti leggja niður heimalærdóminn. Sigurður Hólm Gunnarsson vill meina í grein sinni sem hann skrifaði inn á skodun.is og má finna hér að neðan að heimalærdómur sé gagnlaus og jafnvel skaðlegur. Hann talar meðal annars um  um að það sé engin tilgangur í að börn beri þungar skólatöskur til og frá skóla og bendir jafnframt á þann brenglaða hugsunarhátt að þaulreyndir iðjuþjálfarar og aðrir sérfræðingar hanna, og ráðleggja fólki hvernig töskur séu best að kaupa svo þær eyðileggi ekki litlu líkamana. Einnig gagnrýnir hann það að með heimalærdómnum er í raun verið að setja nám barnana í hendur forráðamanna sem eru ólíkir eins og þeir eru margir. Ungt fólk er ekki aðeins að sinna sínum skóla, það hefur í nógu að snúast og þarf einnig að huga að hvað skal gera í frítímanum.

Þegar við hugsum tilbaka til þess tíma þegar við vorum lítil og það er í raun ekki svo langt síðan þá kemur upp í huga frjáls leikur. Við eyddum mörgum klukkutímum úti í leikjum eftir skóla og oft á tíðum fékk maður skammirnar fyrir að vera of lengi úti, það er að segja að koma ekki heim á réttum tíma. Í dag virðist tíminn hjá ungu fólki vera öðruvísi. Eins og við tókum fram áður eru mörg börn í skipulögðum tómstundum. Flestir foreldrar eða forráðamenn virðast vera of upptekin af því að skrá börn sín í skipulagðar tómstundir og oftar en ekki eru þær fleiri en tvær skipulagðar tómstundir. Það gefur auga leið að frjáls leikur sé í raun lítill sem enginn þar sem að börnin eru skyldug að sinna heimanámi sínu og stunda skipulagðar tómstundir sem foreldrar þeirra hafa skráð þau í.

Það væri frábært ef það væru fleiri klukkustundir í sólahring en því miður er svo ekki. Við verðum að fara að endurskoða hvernig við nýtum tímann okkar og muna hvað skiptir virkilega máli. Að sjálfsögðu er mennt máttur og til þess að halda samfélaginu og okkur gangandi verðum við að vinna fyrir okkur. Það má samt ekki gleyma frítímanum, að njóta þess að slaka á og taka einn dag í einu. En fyrst og fremst megum við ekki gleyma börnum okkar. Það er jú alltaf talað um að börn okkar séu framtíðin og markmið uppeldis er að barnið verði ánægt.

Við skulum því muna eftir mikilvægi þess hvernig börnin okkar eyða tímanum sínum. Við tölum svo oft um hvað börn eiga að vera frjáls og hafa tíma til þess að sinna sjálfum sér og njóta sín, leyfum þeim að hafa sína rödd og segja hvað þau vilja. Hlustum á unga fólkið okkar.

Hér má finna greinina hans Sigurðar Hólm:
https://skodun.is/2013/08/16/heimalaerdomur-barna-er-gagnslaus-og-jafnvel-skadlegur/

Þuríður Davíðsdóttir, Stefán Gunnar Sigurðsson og Sunna Rut Garðarsdóttir
Nemar úr tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands

Deildu