Hinn pólitíski ómöguleiki

Logo

25/02/2014

25. 2. 2014

Eitt frægasta vélráð mannskepnunnar er að afsaka sig bak við það að eitthvað sé óframkvæmanlegt þegar í raun er ætlunin að þvinga fram vilja sínum.  Að þykjast ekki geta aðhafst. Í meistaraverki Choderlos de Laclos, Dangerous Liaisons segir af manni sem gerði sér leik að því að draga á tálar og hryggbrjóta konur í samkvæmislífi […]

Eitt frægasta vélráð mannskepnunnar er að afsaka sig bak við það að eitthvað sé óframkvæmanlegt þegar í raun er ætlunin að þvinga fram vilja sínum.  Að þykjast ekki geta aðhafst. Í meistaraverki Choderlos de Laclos, Dangerous Liaisons segir af manni sem gerði sér leik að því að draga á tálar og hryggbrjóta konur í samkvæmislífi franskra aðalsmanna. Í sögunni skýldi hinn slægi Vicomte sér bak við orðin „It’s beyond my control“ sem mætti íslenska á þá vegu að „ég fæ ekkert að þessu gert“, þegar í raun var hann sá sem setti atburðarrásina af stað, atburðarrás ásta og ætlaðra svika á „réttum“ tímapunkti, þegar það særði hve mest.  Hann þóttist yfirbugaður af sorg og hann gæti með engu móti komið í veg fyrir sambandsslitin.

Þessi saga dettur mér í hug eftir að hafa fylgst með núverandi ríkisstjórn stíga í vænginn við þjóðina í kosningum, bjóða öllum sanngjarna afgreiðslu á einhverju mikilvægasta sambandsmáli Íslandssögunnar með þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðnanna við ESB, en aðeins til að svíkja það innan við ári síðar.

Bjarni Benediktsson sagði í Kastljósþætti gærdagsins: „Enn er möguleiki á þjóðaratkvæðagreiðslu í þessum tillögum.  Ef að til stendur að sækja um inngöngu í Evrópubandalagið, þá fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla“.  Svo kom rúsínan: „Það er til staðar ákveðinn pólitískur ómöguleiki í þessu máli …“, sem felst víst í því að ríkisstjórn sem vill ekki aðild að ESB sé ekki fært að standa í samningaferli.  Það sé líka „hlegið að því“ að eitthvað geti komið úr samningum sem liggi nú ekki þegar fyrir í reglum ESB.  Með þessu réttlætir Bjarni það að það væri alveg sama þó að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar yrði á þann veg að þjóðin vildi ljúka viðræðum við ESB og fá að sjá samning til að kjósa um, þá gætu stjórnarflokkarnir ekki vegna „pólitísks ómöguleika“ lokið viðræðunum.

"Það er fullkomlega óraunhæft að ríkistjórnin fari í hlutlausa gírinn"

Bjarni Benediktsson um þann möguleika að þjóðin vilji áframhald viðræðna: „Það er fullkomlega óraunhæft að ríkistjórnin fari í hlutlausa gírinn“

Já það er erfitt að vera þjónn þjóðar sinnar þegar bón hennar er manni þvert um geð. Hins vegar er það akkúrat það sem góður þjónn gerir.  Hann leggur á sig erfiðan veg til að sækja eða koma til skila því sem um var beðið.  Dágóður hluti sjálfstæðismanna kaus flokkinn vegna þess að sanngjarnri könnun (atkvæðagreiðslu) á vilja þjóðarinnar var lofað og dágóður hluti fólks urðu nýir kjósendur framsóknar vegna þess að þeir lofuðu skuldaleiðréttingum og ESB málið fengi sanngjarna afgreiðslu.  Ýmsum er slétt sama um ESB en finnst það mikið sanngirnismál að þjóðin fái að ráða því hvort að hún fái samning á borðið frá ESB eða ekki.

Hvort sem að afstaðan er með eða gegn aðild, þá skynja flestir að málið er ekki léttvægt og gæta þarf lýðræðislegra vinnubragða í kringum það.  Nú kann að vera að síðasta ríkisstjórn hefði átt að leggja aðildarviðræður í dóm þjóðarinnar frá byrjun en hún taldi að meinalausu að kanna hver yrði samningurinn.  Þjóðin fékk mun meira en hún gaf vegna þeirrar vinnu sem svo viðræðurnar kostuðu.  Með réttu átti sú ríkisstjórn að spyrja þjóðina á undan.  Nú vísar núverandi ríkisstjórn til þess brests og telur sig í rétti með að stöðva það sem átti ekki að fara af stað.  Er það rétt metið af henni?   Steikin var sett í ofnin og er aðeins hálf bökuð nú þegar það á að taka hana út, óæta.  Ef að hráefnið er jafn gott og lambasteikin hans Guðna Ágústssonar þá er klárlega um mistök og sóun á dýrindis steik að ræða, en ef að steikin er í raun bara ólseigir sinabitar af innfluttu, þá er rétt að bera hana aldrei á borð fyrir landann. Hins vegar er bara málið það snúið að fáir treysta sér með afgerandi hætti að segja til um gæðin fyrr en hún er komin á diskinn, fyrir berum augum okkar.

Af virðingu við þetta flækjustig, stærð málsins og mikilvægi fannst drjúgum hluta kjósenda xD og xB að Bjarni Ben hlyti að meina það og standa við það þegar hann sagði fyrir kosningar að stefnt yrði að þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort að vildum sjá framreidda steikina eða ekki.  Þetta var eðlileg ákvörðun og góð leið til sáttar milli andstæðra póla í málinu innan flokksins.  Bjarni Ben gaf sig út fyrir að vera sameiningarafl.  Allt annað kom á daginn.  Að því er virðist og ófyrirséð segir Bjarni sig og flokkinn vera kominn í pólitískan ómöguleika.  Það sé ómögulegt að láta reyna á vilja þjóðarinnar til þessa máls miðað við vilja ríkisstjórnarinnar til ESB málsins.

Með þessu er Bjarni að segja að mögulegur vilji þjóðarinnar skipti minna máli en vilji hans og ESB-andstæðinga innan ríkisstjórnarinnar.  Ef að hann og Sigmundur Davíð myndu ekki treysta sér í þann ómöguleika að halda áfram starfi samningarnefndar við ESB þrátt fyrir mögulegan vilja þjóðarinnar til þess þá hlýtur að vera brostinn grunnurinn fyrir því að þeir þjóni fyrir þjóðina. Ef að þeir þora ekki að standa keikir á bak við helsta baráttumál sitt og falla með því ef þeir tapa, þá eru þeir á röngum stað í lífinu.  Þeir gætu hins vegar tekið vel í úrslit þess efnis að viðræður eigi að halda áfram, haft þannig gott eftirlit með því ferli og sagt með sanni að líki þeim ekki við gæði steikarinnar (samningsins) þrátt fyrir að ESB hafi fengið að matreiða hana eftir bestu getu, hafi þeir gert sitt ítrasta til að kjósendur landsins hafi fengið að velja eða hafna málinu á réttum forsendum.  Það er erfitt en alls ekki ómögulegt.  Það er eins og vinna vísindamannsins sem þarf að leggja á sig leiðinlega söfnun gagna og erfiða úrvinnslu á þeim áður en hann fær að vita hvort að tilgáta hans gengur upp eða ekki.  Það þarf ósérhlífni.

Nei, þess í stað standa ríkisstjórnarflokkarnir uppi með það hafa svikið kjósendur og segjast ekki geta annað.  Það sé þeim ómögulegt að fara á svig við eigin vilja í málinu.  Sáttargjörðin var því í raun ómöguleg vegna þeirra eigin ómöguleika.  Það var samt mögulegt að bjóða hana fram til sefjunar fyrir kosningar.  Það var svo „beyond their control“ að svo fór sem fór.  Við getum ekki boðið þeim upp á að leggja það á sig pólitískt að standa við sáttargjörð sína. Hvílík firra hljóta þeir að hugsa núna.  Þess utan er það bara fyrir tapara að gefa færi á þjóðaratkvæðagreiðslu sem gæti endað „illa“.  Það væri ekki hægt að afbera frekari opinberar ferðir til Brussels.  Það væri meiri pólitísk skömm en að standa við illa ígrundað kosningaloforð. Til fjandans með evrópuvæng xD sem er hvort eð er á refilstigum.  Það þarf ekki samning til að sjá það.  Atkvæði þeirra var gott en nú eru þeir búnir að vera og ESB-aðild er hvort eð er út af borðinu.[*]

Bjarni Ben vill þó vera „sanngjarn“ og sagði nokkurn veginn orðrétt að  „enn er möguleiki á þjóðaratkvæðagreiðslu í þessum tillögum [ríkisstjórnarinnar].  Ef að til stendur að sækja um inngöngu í Evrópubandalagið, þá fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla“.  Sem sagt ef að sækja eigi um aðild í ófyrirsjáanlegri framtíð án þess að sjá samning, geti þjóðin kosið um aðildarviðræður þó að hún sé búin að ákveða að ganga í ESB.

Það yrði mikið samræmi í þeirri leið og ekki „aðhlátursefni“ eins og nú þegar barnalegir ESB-könnuðir vilja fá að sjá hvað sambandið býður upp eftir lok viðræðna.  Það er nefnilega sérlega skaðlegt fyrir eyþjóð með besta kindakjöt í heimi að verða alþjóðahyggjunni að bráð og láta glepjast af fagurgölum stórþjóða sem hafa samþykkt flest það sem stórveldið Finnland hefur borið á borð þeirra í því skyni að þykjast vera lýðræðislegir.  Smáþjóð má ekki missa tækifæri sín til að rísa eða hrynja á eigin forsendum.  Útlönd eru fyrir útlendinga og einstaka sinnum fyrir okkur í sólarlandaferðum. Borðum Íslenskt og tökum á offitunni með íslenska kúrnum.  Útlensku ofríki höldum við frá okkur með tollum. Það eru bara svikafyrirtæki / skúffuryrirtæki sem gera upp í evrum.  Þorskurinn og nú makríllinn er okkar að veiða og selja á okkar forsendum.  Litla Ísland á svo að fá hervernd stórþjóðanna í kringum okkur.  Þeir hafa gaman af því að fljúga og taka æfingar hér.  Litla Ísland á skilið sérstöðu og það besta úr ESB með EES samningi til þess að unga fólkið okkar geti sótt menntun til evrópulanda og unnið þar um tíma.  Svo á að skuldbinda það til að koma heim og greiða niður námslánin.  Vanþakklæti á ekki að líðast og menntafólk má þakka fyrir að hafa fæðst á Íslandi. Við lifum manna lengst og eigum eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi.  Ég hef ekki búið í útlöndum og langar ekki til þess. Sjáið bara ófriðinn og glæpina í þessum löndum!

Þetta var mitt „alter-ego“* að tala.  Það lætur svona stundum í stjórnlausri aðdáun af landi og þjóð.  Það gat þreytt útlendinga sem ég vann með í New York með löngum lofræðum um Ísland.  Ég gat sjaldnast stoppað það af.  Það var stjórnlaust. Þegar ég rankaði við mér og gat hamið það, sá ég að sólarlagið var jafn fallegt í öðrum löndum og það var svo margt sem ég gat gert og lært í útlöndum sem Ísland gat ekki boðið upp á, alveg sama hversu ég óskaði mér að svo væri ekki.  Mitt „alter-ego“ varð að leita jafnvægis við mig.  Það var ekki annað í boði.  Það varð að gera fleira en því þótti gott og sama gilti um mig.

Deildu