,,Þú ert með grjónagraut í staðinn fyrir heila“

Logo

Matthías Freyr Matthíasson

Matthías Freyr Matthíasson, oftast nær kallaður Matti Matt, er fæddur 1980 og er uppalinn á Akranesi og starfar hjá Reykjavíkurborg. Faðir stúlku sem er 7 ára gömul. Áhugamaður um baráttu gegn einelti, pólitík, trúmál, mannréttindi. Meðlimur í Bjartri framtíð og formaður ÍTH, Íþrótta og tómstundanefndar í Hafnarfirði Netfang: matti@skodun.is

08/11/2013

8. 11. 2013

Í dag er dagur gegn einelti. Mér finnst afskaplega sorglegt að þessi dagur þurfi að vera til yfirhöfuð. Í hvert sinn er eineltisumræða kemur upp í þjóðfélaginu fæ ég örlítinn sting í hjartað. Ég er einn af þeim sem varð fyrir einelti í grunnskóla og tók það mikið á mig. Ég samt stend sterkur í […]

Einelti

Í dag er dagur gegn einelti. Mér finnst afskaplega sorglegt að þessi dagur þurfi að vera til yfirhöfuð. Í hvert sinn er eineltisumræða kemur upp í þjóðfélaginu fæ ég örlítinn sting í hjartað. Ég er einn af þeim sem varð fyrir einelti í grunnskóla og tók það mikið á mig. Ég samt stend sterkur í dag og er eins fáranlegt og það hljómar, þakklátur fyrir þessa reynslu. Hún mótaði mig og gerði mig að þeirri persónu sem ég er í dag. Margt hefur fennt yfir í áranna rás og upplifun mín er kannski og líklega öðruvísi en þeirra sem þekktu til á þessum árum en engu að síður er hún sterk.

Ég er búinn að velta því lengi fyrir mér hvort að ég ætti að skrifa eineltissöguna mina niður á blað. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki gert það hingað til er sú að ég ber ekki kala til neins frá mínum grunnskólaárum og allt það hatur sem ég bar í brjósti til þeirra sem voru hvað fremstir í flokki er horfið. Sem betur fer er það horfið því að gerði ekkert nema skemma fyrir mér og mínum möguleikum á að vera besta útgáfan af mér.

Sú var tíðin að ég virkilega fékk hnút í magann við það að sjá gamla skólafélaga og þessi ofsafengna reiðin blossaði upp innra með mér, löngun til þess að gera þessum aðilum eitthvað virkilega slæmt. En þetta beindist ekki eingöngu gegn skólafélögum heldur skólastjórnendum sem og kennurum. Það er ofboðslega skrítin tilfinning að vera komin á þrítugsaldur, hitta eða sjá gamlan skólafélaga/kennara og fyllast kvíða og reiði. Alveg hreint ofboðslega skrítin tilfinning.

Það að vera kallaður Matti Skratti á hverjum einasta degi í 10 – 15 ár af jafnöldrum, krökkum sem eru eldri en ég og krökkum sem eru yngri en ég hafði gríðarleg áhrif á mig og enn í dag fæ ég sting í hjartað bara við að skrifa Matti Skratti. Það þótt að reiðin mín og allt sé horfið og ég sé búinn að fyrirgefa öllum.

Ég var fyrirferðarmikill krakki, bullandi ofvirkur og með mikið ímyndunarafl. Talaði án þess að hugsa, framkvæmdi án þess að hugsa, spann upp sögur og var á allan hátt frakkur. Fyrir utan það hversu tilfinningaríkur ég er og var. Það gerði mig vissulega að auðveldu skotmarki. Það samt réttlætir ekki einelti. Það að einhver sé öðruvísi en normið segir til um á ekki að vera þar með skotleyfi á viðkomandi. En ég samt skil afhverju ég varð fyrir barðinu og þetta þykir einhverjum kannski skrítið að lesa.

En stríðnin og andlega (og stundum líkamlega) ofbeldið sem ég varð fyrir að hálfu samnemanda minna er ekki það sem sveið mest á sínum tíma. Heldur aðgerðarleysi kennara og skólayfirvalda. Ekki bara aðgerðarleysi heldur einnig þátttaka kennara. Til að tiltaka dæmi að þá er ég að mig minnir 8 ára gamall, er eins og oft áður erfiður í tíma og á í erfileikum með að skilja stærðfræðina sem kennarinn er að reyna að kenna mér. Hann fær nóg af því að ég skuli ekki skilja hann og byrjar að skamma mig, ég svara eitthvað á móti og þá segir hann hátt og snjallt fyrir framan allann bekkinn ,,þú ert með grjónagraut í staðinn fyrir heila drengur“

Annað dæmi er þegar ég er í unglingadeild. Ég gekk um í kraftgalla yfir vetrartímann (geri stundum enn) og hafði ekkert alltaf fyrir því að fara úr honum (yfirleitt klæddi ég mig bara úr efri helmingnum) og þetta varð tækifæri til þess að hægt var að skjóta á mig fyrir það. Einn kennarinn tók sig til og byrjaði að skrá kraftgallann í kladdann og kalla hann upp. Þetta gerði hann í það minnsta 3 – 4 sinnum.

Ég gæti nefnt fleiri dæmi en það er ekki það sem ég vill ná fram með skrifum mínum um einelti. Vissulega þurfa sögurnar að heyrast en baráttan mín miðast við það að reyna að finna lausnir á þessu meini. Hvaða lausnir það eru veit ég ekki, ég hef ekki svörin á reiðum höndum. En ég hef þó þá skoðun að forvinnan þurfi að eiga sér stað inni á heimilunum.

Deildu