Fólk er þreytt og pirrað. Ég skil það mjög vel. En ég er aðallega orðinn þreyttur á gagnslausri umræðu um stjórnmál og stjórnmálamenn.
Það er sem dæmi vitagagnslaust að tala um „helvítis fjórflokkinn“ enda er það kjaftæði að allir „gömlu“ stjórnmálaflokkarnir séu eins. Þannig er gríðarlega mikill munur á „vondu vinstristjórninni“ og þeirri „silfurskeiðastjórn“ sem nú stjórnar landinu.
Ef fólk áttar sig ekki á muninum er það ekki að fylgjast með fréttum.
Hávær krafa um „eitthvað annað“ er orðin svolítið þreytandi. Það eru ennþá til öflugar pólitískar hugmyndir sem skipta máli. Það helsta sem þarf að gerast er að jafnaðarmenn allra flokka fari að haga sér eins og jafnaðarmenn og berjist af meiri hörku fyrir jöfnuði og tali skýrar gegn auðmannadekrinu.
Hér á landi eru til bæði nýjir og gamlir flokkar sem berjast fyrir félagslegum gildum. Þessir flokkar þurfa að vinna saman, í sumum tilfellum jafnvel sameinast.
Síðasta vinstristjórn stóð sig ágætlega í mörgum málum þó ýmislegt hafi vissulega ekki gengið upp. Stjórnarskrársmálið endaði í klúðri, Landsdómsmálið fór eins og það fór, ekki náði að redda öllum skuldamálum landsmanna þannig að allir yrðu glaðir og yfirlýsing um „skjaldborg“ um heimilin breytti Íslandi vissulega ekki í paradís á jörð strax eftir hrun (þetta var reyndar áður en búið var að skilgreina orðið „strax“ sem teygjanlegt).
Klúður vinstristjórnarinnar beinlínis fölna þó í samanburði við viljaverk silfurskeiðunga. Þeir sem standa að silfurskeiðastjórninni buðu upp á dýrustu kosningaloforð Íslandssögunar. Þeir lækka viljandi skatta á fólk og fyrirtæki sem þurfa ekki á skattalækkunum að halda og þeir eru staðráðnir í að ganga frá almannaþjónustunni dauðir, eða í það minnsta veikla hana það mikið að öllum verður ljóst hvað opinber rekstur er ömurlegur (=einkavæðing, frábær hugmynd).
Það er skýr munur á þessum hefðbundnu íslenskum stjórnmálaflokkum og því óhæft að segja að þeir séu einhvern veginn allir eins. Enginn þeirra er þó fullkominn. Það er bæði vegna þess að fólkið sem starfar í flokkunum er ekki fullkomið og líka vegna þess að við sem einstaklingar getum aldrei verið sammála öllu sem einhver flokkur gerir. Það er eðlilegt. Í það minnsta ef við erum með einhvern snefil af sjálfstæðri hugsun.
„Fjórflokkurinn“ er ekki vandamálið og „eitthvað annað“ er ekki lausnin. Það eitt tel ég mig vita.