Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að hækkun fjárhagsaðstoðar til atvinnulausra í Reykjavík hafi verið ein allra stærstu mistök núverandi meirihluta í borginni. „Með slíkri aðgerð var í raun óumflýjanlegt að þeir sem eru á lægstu launum sjái lítinn tilgang í því að vinna þegar hægt er að sleppa því og hafa sömu ráðstöfunartekjur“ – segir borgarfulltrúinn.
Við þetta sjónarmið er margt að athuga.
Í fyrsta lagi eru bæturnar ekki háar. Um 150 þúsund krónur eftir skatta getur varla talist mikill peningur. Bótaþegar geta varla stækkað sumarbústaðinn sinn með þessari upphæð. Hvað þá farið til útlanda. Það að bæturnar séu litlu lægri en lágmarkslaun segir okkur meira um launakjör almennings en um bæturnar.
Í öðru lagi er það algeng hægrivilla að halda að fólk sé almennt þannig að það sleppi því að vinna ef það mögulega kemst upp með það. Flestir vilja vinna og taka þátt í samfélaginu með einhverjum hætti. Lífið snýst ekki bara um peninga. Það snýst miklu frekar um þátttöku. Um að fá að gera gagn.
Í þriðja lagi er óþolandi þegar stjórnmálamenn gefa í skyn bótaþegar séu, latir, að reyna að „svindla á kerfinu“ eða að þeir séu einhvers konar baggi á samfélaginu. Meðal bótaþega er fjöldinn allur af fólki sem hefur lítið annað val en að fá fjárhagsaðstoð. Þarf þetta fólk að skammast sín fyrir það? Nei auðvitað ekki. Það eru frekar stjórnmálamenn sem eiga að skammast sín. Stjórnmálamenn sem væla til skiptis yfir því að a) samfélagið hjálpi þeim sem þurfa á aðstoð að halda og b) að stóreignafólk og fyrirtæki þurfi að borga skatta.
Stjórnmálamenn sem vilja gera gagn geta lagt áherslu á eitthvað annað en væla yfir bótum. Til dæmis með því að berjast fyrir bættum launakjörum opinberra starfsmanna. Með því að taka þátt í að byggja upp og efla úrræði sem hjálpa fólki sem hefur misst vinnuna, en getur unnið, að byggja upp sjálfstraust og færni.
Svo er líka mikilvægt að berjast gegn aukinni misskiptingu sem smá saman er að skipta Framtíðarlandinu okkar í samfélag yfirstéttar og lágstéttar þar sem fólk er í engum tengslum við reynsluheim þeirra sem koma úr öðrum aðstæðum en það sjálft.