Hraunahrottar skulu frá hverfa

Logo

24/09/2013

24. 9. 2013

Ég fór og heimsótti það hugsjónafólk sem stendur nú vörð um þau einstöku náttúruverðmæti sem ósnert Gálgahraun er. Pólitíkusar í bæjarskipulagsleik ætla að leggja hraðbraut mitt í gegnum Gálgahraun til þess að hægt sé að byggja meira við núverandi aðalveg út á Álftanes og hægja á umferð þar.  Hraðbraut í gegnum hraunið yrði fagurfræðilegur banabiti þess […]

Ég fór og heimsótti það hugsjónafólk sem stendur nú vörð um þau einstöku náttúruverðmæti sem ósnert Gálgahraun er. Pólitíkusar í bæjarskipulagsleik ætla að leggja hraðbraut mitt í gegnum Gálgahraun til þess að hægt sé að byggja meira við núverandi aðalveg út á Álftanes og hægja á umferð þar.  Hraðbraut í gegnum hraunið yrði fagurfræðilegur banabiti þess og upphafið af síðari eyðileggingu þess og not sem byggingarland.  Það fólk sem skipulagði þennan veg hefur ekki skilning á því að það er einstakt að hafa svona fallegt apalhraun inní höfuðborgarsvæðinu.  Í því felast verðmæti sem hafa miklu meiri þýðingu til framtíðar en nokkrar húsablokkir og hentug hraðbraut. Það má vel laga gamla veginn.

Gálgahraun og Garðahraun. Fyrirhugaðar framkvæmdir.

Gálgahraun og Garðahraun.
Fyrirhugaðar framkvæmdir.

Það er kaldhæðið að sú byggð sem nú þegar er farin að teygja sig inn í suðaustur horn hraunsins (sem kallast Garðahraun) hefur nokkrar götur sem bera heiti sem enda á -prýði.  Þar á meðal er „Hraunprýði“ og það verður að teljast alveg ótrúleg smekkleysa að ryðja þannig úr vegi fallegu hrauni og kalla svo malbikið „Hraunprýði“.  Það er augljóst að skipuleggjendum byggðarinnar finnst hraunið fallegt en ekki þess virði samt að vernda.  Fái þessir hraunahrottar sínu framgengt og byggð smám saman leggist yfir hraunið væri það tilvalið fyrir þá að kalla nýja hverfið einhverju smekklegu eins og Hraunadraumur eða Hraunadýrð.  Svona til minningar um einstaklega fallegt hraun og strá salti í sár þeirra sem vildu vernda það.

Mér skilst að Vegagerðin borgi brúsann af gerð vegarins og því er þessi gerræðisvegur góður kostur fyrir sveitarfélag sem hagaði sér eins og á ofskammti af Rítalíni hin svokölluðu góðærisár og setti Álftanes á hausinn.  Þetta snýst um peninga og landabrask.  Náttúran þó einstök sé, er ekki meira virði en hlandið sem þessir menn gefa frá sér í þeirra huga. Ég vildi að ég væri að ýkja en verkin tala fyrir þeirra munn.

Þó að málið væri fyrir dómstólum gáfu þessir náttúruhrottar verktaka leyfi til að byrja framkvæmdir og áður en landverndarfólk áttaði sig og kom upp mótmælastöðu höfðu þeir gert stórt sár í vestari hraunbrúnina (merkt með x-i á kortinu og sést hér á myndinni fyrir neðan þar sem grafan stendur) Rétt hjá stendur skemmtilegur hraun-tröllkarl og á líklega von á dauða sínum.  (sjá mynd).  Skemmdir á hrauninu eru óafturkræfar en þessu skipulagsliði er nákvæmlega sama um það.  Það segist vera að gera löglegan hlut og það er það eins sem því finnst það þurfa að gæta að.

galgahraun-adj-art-600

Nú þarf virkilega að láta yfirvöld borga og bæja þessa lands vita að náttúruspjöll eru ekki liðin lengur og fólk mun ekki líða svona misbeitingu skipulagsvalds og skeytingarleysi um það sem er einstakt hér á þessu landi.  Við jaðra Gálgahrauns á tveimur stöðum eru sérstök fræðsluskilti um þau náttúrulegu og menningarlegu verðmæti sem hraunið býr yfir.  Það er fyrir löngu búið að marka þennan stað sem sérstakan.  Reyndu að selja brúður að það sé ekkert mál að skilja eftir olíutjargað hjólfar eftir miðjum endilöngum brúðarkjól hennar en hraðbraut í gegnum fagurt hraun er jafn fjarstæðukennd tillaga (þó að það sé búið að gera það víða um land).

Sýnum hraunavinum stuðning á einhvern máta.  Bloggum um málið, mætum á staðinn, þrýstum á yfirvöld og látum þennan yfirvofandi hraunhrottaskap ekki viðgangast.  Það er til fullt af ómerkilegum þúfuholtum til að byggja á og leggja vegi.  Leyfum nátturunni að sigra í þetta sinn og látum náttúruminjar í friði!

Deildu