Það hlýtur að vera að erfitt að vera íhaldsmaður. Það er svo margt að óttast ef marka má skrif þeirra og málflutning í fjölmiðlum. Íhaldsmenn allra flokka virðast sofa illa á nóttinni.
Þeir óttast moskur af því þeir eru hræddir við vonda múslíma.
Þeir óttast Evrópusambandið af því þeir eru hræddir við yfirþjóðlegt vald.
Þeir óttast útlendinga af því þeir eru ekki Íslendingar.
Þeir óttast gagnrýni á Þjóðkirkjuna því þeir hafa áhyggjur af menningu landsins.
Þeir óttast hryðjuverkamenn svo mikið að þeim finnst í lagi að fangelsa uppljóstrara og skerða frelsi almennings.
Þeir óttast klámvæðinguna því þeir eru hræddir við hnignandi siðferði þjóðarinnar.
Þeir óttast samkynhneigða því þeir telja að ást þeirra sé ofbeldi.
Þeir óttast Ríkisútvarpið og aðra fjölmiðla sem þeir hafa ekki fullkomlega stjórn á.
Þeir óttast.
Sagan kennir okkur að hrætt fólk styður frekar andlýðræðislegar stjórnvaldsaðgerðir og einangrunarstefnu. Hrætt fólk einangrar sig og á auðveldara með að skipta fólki í hópa. „Annað hvort ertu með okkur eða á móti okkur!“
Ég óttast fyrst og fremst hrætt fólk.
Jöfnuður, frelsi og kærleikur
Fjandskapur milli ólíkra hópa er mestur í samfélögum þar sem misskipting er mikil og frelsi af skornum skammti. Þar sem ójöfnuður er mikill er minna umburðarlyndi gagnvart ólíkum hugmyndum og lífsskoðunum. Þar sem atvinnuleysi grasserar eykst hatur á útlendingum. Þar sem fátækt er landlæg blómstar andúð gagnvart öllum þeim sem tilheyra öðrum hópum. Í misskiptingarsamfélögum verður fjölskyldan minni. Ættbálkurinn hugsar um sig og sína, ekki aðra.
Í frjálsum samfélögum þar sem áhersla er lögð á jöfn tækifæri og á að draga úr misskiptingu er yfirleitt minna um glæpi, hamingja fólks er meiri og umburðarlyndi meira. Kærleikurinn blómstar þar sem fólk vinnur saman að sameiginlegum kjörum. Í samfélagi jöfnuðar stækkar fjölskyldan. Fólk skynjar betur sameiginlega hagsmuni með þjóð sinni. Jafnvel með heiminum öllum.
Vandinn við íhaldsmenn allra flokka er að þeir vinna að því hörðum höndum að skapa samfélag byggt á ótta. Sömu íhaldsmenn og telja að ójöfnuður sé ekki sérstakt vandamál ala á ótta sem er óþarfur nema í þeim samfélögum þar sem ójöfnuður er mikill og frelsi lítið. Í nafni ótta styðja þeir svo andlýðræðislegar aðgerðir eins og eftirlit hins opinbera með venjulegu fólki, hernaðarbrölt og refsingar gegn uppljóstrurum.
Ef við viljum draga úr ótta þurfum við að búa til samfélag jöfnuðar, réttlætis og frelsis. Höfuðmarkmið okkar er að stækka fjölskylduna, ekki kökuna.