Misskilningurinn um tjáningarfrelsið og gagnrýni

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

13/08/2013

13. 8. 2013

Tjáningarfrelsið snýst um rétt allra til að láta í ljós skoðanir sínar. Hvorki meira né minna.* Tjáningarfrelsið fjallar ekki um rétt fólks frá því að heyra skoðanir annarra. Tjáningarfrelsið fjallar heldur ekki um að bera virðingu fyrir öllum skoðunum. Síst af öllu verndar tjáningarfrelsið fólk frá því að vera gagnrýnt. Dæmi 1: Þegar Gylfi Ægisson […]

Tjáningarfrelsið snýst um rétt allra til að láta í ljós skoðanir sínar. Hvorki meira né minna.*

Tjáningarfrelsið fjallar ekki um rétt fólks frá því að heyra skoðanir annarra.

Tjáningarfrelsið fjallar heldur ekki um að bera virðingu fyrir öllum skoðunum.

Síst af öllu verndar tjáningarfrelsið fólk frá því að vera gagnrýnt.

Dæmi 1:
Þegar Gylfi Ægisson segir að Gleðigangan skemmi börn og valdi ógleði er það óskoraður réttur hans. Þegar íhaldsvinir hans segja að homma- og lessukossar séu ofbeldi er það einnig réttur þeirra.

Dæmi 2:
Þegar aðrir gagnrýna þessar skoðanir Gylfa og félaga og segja þær fordómafullar, fornaldalegar og kjánalegar er það einnig mikilvægur hluti af tjáningarfrelsinu.

Markmiðið með tjáningarfrelsinu
Eitt helsta markmiðið með tjáningarfrelsinu er að almenningur geti tjáð sig óhikað um menn, stjórnvöld og málefni án þess að vera refsað fyrir það. Í flestum tilfellum verða vondar, fordómafullar og hættulegar skoðanir upprættar með virkri umræðu og gagnrýni almennings.

Það er ekki hlutverk stjórnvalda eða valdastofnanna að koma í veg fyrir „vondar skoðanir“.* Það er fyrst og fremst hlutverk almennings. Til þess þarf annars vegar virkt tjáningarfrelsi og hins vegar nógu mikið af fólki sem er tilbúið að tjá sig og gagnrýna skoðanir annarra.

Því er það mikill misskilningur að tjáningarfrelsið tákni að allir eigi að bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Slík almenn virðing fyrir skoðunum er bæði barnaleg og hættuleg.

 * Stundum kann auðvitað að vera rétt að takmarka tjáningarfrelsið. Til dæmis þegar valdamiklir hópar ráðast með hatri á valdalitla hópa í samfélaginu. Valdalitlir hópar geta átt hættulega erfitt með að verja sig og þá er það hlutverk hins opinbera að vernda þá og halda uppi allsherjarreglu. 

Deildu