Vondu íslamistarnir byggja mosku í Reykjavík

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

09/07/2013

9. 7. 2013

Ég bíð spenntur eftir öllum aðsendu greinunum, bloggfærslunum og fésbókarofstækinu vegna fyrirhugaðrar byggingar mosku í Reykjavík.  Umræðan er reyndar aðeins farin af stað. Annars sómakært fólk hefur þegar lýst því yfir að það megi ALDREI gerast að moska fái að rísa á Íslandi og í dag spyr Reykjavík síðdegis „Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ertu því […]

Ég bíð spenntur eftir öllum aðsendu greinunum, bloggfærslunum og fésbókarofstækinu vegna fyrirhugaðrar byggingar mosku í Reykjavík.  Umræðan er reyndar aðeins farin af stað. Annars sómakært fólk hefur þegar lýst því yfir að það megi ALDREI gerast að moska fái að rísa á Íslandi og í dag spyr Reykjavík síðdegis „Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ertu því að félag múslima á Íslandi fái að byggja mosku í Reykjavík?“ Væntanlega vegna þess að múslímar eru eitthvað óæskilegri en aðrir íslenskir þegnar. Það verður áhugavert að sjá niðurstöðuna úr þessari vondu skoðanakönnun því íslamafóbían hefur verið ansi sterk hér á landi.

Nú skil ég svosem vel áhyggjur fólks af því að bókstafstrú fari vaxandi hér á landi með tilheyrandi, heimsku, karlrembu, mannfyrirlitningu, hatursáróðri og ofbeldi. En ef þetta er það sem fólk óttast í fari múslíma þá skil ég ekki af hverju sama fólk vill ekki banna kaþólskar kirkjur og samkomuhús hvítasunnusafnaða svo eitthvað sé nefnt. Er grasserandi barnaníð, forheimska og hatur í lagi svo lengi sem það er borið fram í ljósi Krists?

Svarið við þessari spurningu er tvíþætt. Í fyrsta lagi er fólk almennt ekki á móti trúarbrögðum heldur er það hrætt við mögulegar afleiðingar þeirra. Í annan stað vita allir innst inni að það sem á við um suma innan einstakra trúarhópa á ekki við um alla. Það eru auðvitað ekki allir kaþólikkar hlynntir barnaníð, alls ekki allir hvítasunnumenn hata samkynhneigða og einstæðar mæður og það er langt frá því að allir múslímar séu ofstækismenn. Langflest trúað fólk er gott og velviljað fólk sem bætir samfélagið að svo mörgu leyti. Þetta á líka við um múslíma.

Fordómar gagnvart múslímum eru fyrst og fremst tilkomnir vegna einhliða umræðu um þá í fjölmiðlum. Þeir eru alltaf að gera eitthvað af sér samkvæmt fréttum og svo eru þeir alltaf vondu kallarnir í bíómyndum. Ofan á bætist að fáir Íslendingar þekkja nokkurn múslíma persónulega og þannig birtist þeim mjög einhliða mynd af þessum trúarhóp. Þetta er leiðinlegt því saga og menning múslíma er reyndar mjög merkileg eins og ég fjallaði meðal annars um í greininni Trúarbrögð og siðmenning.

Baráttan fyrir mannréttindum, trúfrelsi og veraldlegu samfélagi
Eins og áður segir þá eru áhyggjur fólks af uppgangi bókstafstrúar þó skiljanlegar. En lausnin felst alls ekki í því að banna múslímum að reisa mosku á Íslandi. Lausnin er heldur ekki að banna önnur trúarbrögð sem geta leitt til ofstækis. Lausnin felst þvert á móti í því að virða tjáningarfrelsið og nýta það til uppbyggilegrar samfélagsumræðu. Trúfrelsi er gífurlega mikilvægt enda er frelsi til trúar angi af tjáningarfrelsinu.

Þar að auki verða mannréttindi best tryggð ef við temjum okkur strax að búa í veraldlegu samfélagi (sjá grein um muninn á veraldlegu samfélagi og trúfrelsi). Um leið og trúfrelsi allra er tryggt er nauðsynlegt að blanda ekki saman trúarhugmyndum og hlutverki hins opinbera. Trúfrelsi táknar að allir hafa jafnan rétt til iðka trú sína eða standa utan trúarbragða. Trúfrelsi táknar ekki að trúarhugmyndir eigi að móta lög eða hafa áhrif á starfsemi hins opinbera. Umburðarlyndi í trúmálum þýðir ekki að það eigi að vera bannað eða varhugavert að gagnrýna trúarhugmyndir eða trúarleiðtoga. Í opinberri umræðu á að fjalla um trúarbrögð að jafn miklum krafti og við fjöllum um stjórnmál. Gunnarar í Krossinum, Snorrrar í Betel, biskupar eða múslímskir leiðtogar eiga ekki að fá neinn afslátt af gagnrýni, hvað þá af lögum.

Ef við temjum okkur strax að virða trúfrelsið og tjáningarfrelsið en um leið að lifa eftir leikreglum veraldlegs samfélags er ekkert óhollt eða hættulegt við það að ólík trúarbrögð festi hér rætur.

Fjölbreytni skoðana er góð, jafnvel nauðsynleg. En aðeins ef engin skoðun telst heilög eða of góð fyrir almenna og gagnrýna umfjöllun.

Ég hef á tilfinningunni að meirihluti þeirra sem er á móti byggingu mosku á Íslandi sé fólk sem telur sig vera kristið. Stór hluti telur að sama skapi að trú eigi með einhverjum hætti að móta starfsemi hins opinbera. Til dæmis með trúarinnrætingu í opinberum skólum. Slík afstaða er hættuleg því í nafni trúfrelsis eiga allar trúarhugmyndir að hafa sama rétt þegar kemur að hinu opinbera. Þegar trú og hið opinbera ruglar saman reitum verður meiri hætta á árekstrum í samfélaginu þar sem ólíkir hópar vilja móta þjónustu hins opinbera út frá sínum trúarhugmyndum.

Lausnin er því sem áður trúfrelsi og veraldlegt samfélag.

Tengdar greinar:

Deildu