„Vegferð sem endaði illa og varð þjóðinni dýrkeypt“

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

02/07/2013

2. 7. 2013

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð, sem kom út í dag, virðist vera áfellisdómur yfir stofnuninni og ekki síst yfir þeim sem stjórnuðu henni og lögðu hinar pólitísku línur. „Mistök“ voru gerð sem kostað hafa þjóðina „milljarða króna og raunar er ekki séð fyrir endann á þeim kostnaði“. Annar kafli skýrslunnar er mjög áhugaverður. Þar kemur […]

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð, sem kom út í dag, virðist vera áfellisdómur yfir stofnuninni og ekki síst yfir þeim sem stjórnuðu henni og lögðu hinar pólitísku línur. „Mistök“ voru gerð sem kostað hafa þjóðina „milljarða króna og raunar er ekki séð fyrir endann á þeim kostnaði“.

Annar kafli skýrslunnar er mjög áhugaverður. Þar kemur skýrt fram að vanda Íbúðarlánasjóðs má meðal annars rekja til hækkun íbúðarlána úr 65% í 90%. Þá breytingu má svo rekja til kosningaloforða Framsóknarflokksins fyrir alþingiskosningar 2003 og síðar til stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sama ár. „Þessi vegferð endaði illa og varð þjóðinni dýrkeypt“* segir í skýrslunni.

Hljómar þetta ekki einum of kunnuglega? Tíu árum síðar býður Framsóknarflokkurinn upp á annað glórulaust kosningaloforð um flata niðurfellingu skulda. Skulda sem Framsóknarflokkurinn sjálfur ber mikla ábyrgð á að urðu til. Nýr stjórnarsáttmáli milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins lítur dagsins ljós. Sjálfstæðismenn kvitta undir skuldaleiðréttingaleið Framsóknarflokksins sem þeir gagnrýndu svo mikið fyrir kosningar en fá í staðinn að lækka skatta (helst flatt), lækka veiðigjöld og skera niður í opinbera geiranum.

Ætli rannsóknarnefnd á vegum Alþingis muni birta skýrslu árið 2023 um afleiðingar stjórnarsáttmálans 2013: „Þessi vegferð endaði illa og varð þjóðinni dýrkeypt“?

Ekki ólíklegt. En örvæntið ekki. Ef það gerist verður örugglega einhver vond vinstri ríkisstjórn nýbúin að taka til og blekið ekki þornað á nýjum stjórnarsáttmála Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Hvaða loforð munu leynast í þeim sáttmála hef ég þó ekki hugmyndaflug til að giska á.

* Úr skýrslu rannsóknanefndar Alþingis. – 2. Ágrip um helstu niðurstöður

Deildu