Opinberun Brynjars Níelssonar

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

28/06/2013

28. 6. 2013

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður Lögmannafélags Íslands, telur að það sé „enginn eðlismunur“ á því að yfirvöld skoði í leyni tölvupósta hjá saklausu fólki og að hið opinbera á Íslandi birti álagningaseðla samkvæmt lögum. Reyndar finnst honum „verra“ að álagningarseðlar séu gerðir opinberir meðal annars af því að í hans tilviki „reynast meiri […]

Brynjar og friðhelgi einkalífsinsBrynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður Lögmannafélags Íslands, telur að það sé „enginn eðlismunur“ á því að yfirvöld skoði í leyni tölvupósta hjá saklausu fólki og að hið opinbera á Íslandi birti álagningaseðla samkvæmt lögum. Reyndar finnst honum „verra“ að álagningarseðlar séu gerðir opinberir meðal annars af því að í hans tilviki „reynast meiri persónulegar upplýsingar í skattframtalinu en í tölvupóstum.“

Þessi merkilega opinberun kom fram í vægast sagt áhugaverðum rökræðum sem Brynjar tók virkan þátt í um spurningu sem ég varpaði fram á Facebook í gær:

„Af hverju eru margir hægrimenn (líka íslenskir) á því að Snowden sé föðurlandssvikari og að hann eigi að fangelsa? Hefur hægrið ekki reynt að eigna sér frelsið og lítil ríkisafskipti? Ég á mjög erfitt með að skilja af hverju sovéskt eftirlit með almenningi fær svona mikinn stuðning frá hægrimönnum.

Getur einhver hjálpað mér að skilja þetta?“

Að mörgu leyti er ánægjulegt að stjórnarþingmaður taki þátt í umræðu á netinu og svari þannig almennum borgurum eins og mér. Ekki er eins ánægjulegt að verða vitni að ómálefnalegum tilsvörum, hálfgerðum persónuárásum (fyrsta innlegg Brynjars hefst svona: „Þú ert alveg á rangri leið, Sigurður, og það ekki í fyrsta skipti.“) og útúrsnúningi. Ég hef sem dæmi ekki tölu á því hversu oft Brynjar reyndi að eigna mér skoðanir sem ég hef alls ekki.

Fyrir utan að hafa siðferðislega vafasama afstöðu til persónunjósna yfirvalda sætir undrun að þingmaður og lögfræðingur geti ekki rökstutt mál sitt betur og það án þess að snúa út úr og reyna sífellt að gera lítið úr andstæðingum sínum.

Er þetta það besta sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur upp á að bjóða þessa dagana?

Brynjar reyndi að útskýra rökleysi sitt með þeim rökum að erfitt væri að eiga langar rökræður á Facebook. Þetta sagði hann eftir að hafa rökrætt stanslaust í um tvo klukkutíma.

Það verður æsispennandi að fylgjast með stuttum svörum Brynjars á komandi þingi. Varla fær hann mikið betra ráðrúm til að vanda svör sín á þeim vettvangi.

Umræðuna í held má lesa með því að smella hér.

Deildu