Undanfarna daga hafa rúmlega 30 þúsund Íslendingar skrifað undir áskorun til forseta Íslands. Forsetinn er vinsamlegast beðinn um að neita að skrifa undir væntanleg lög um lækkun veiðigjalds. Vandinn er að það skiptir engu máli hversu margir senda forsetanum áskorun.
Forsetinn tekur sínar ákvarðanir út frá eigin hugarástandi ekki fjölda undirskrifta. Þetta er auðvitað fáránleg staða.
Málskot til þjóðarinnar
Í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrá er skýrt kveðið á um að tíu prósent atkvæðisbærra manna, færri en þegar hafa skrifað undir áskorun til forsetans, geti krafist þjóðaratkvæðis um einstaka mál:
„Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Kröfuna ber að leggja fram innan þriggja mánaða frá samþykkt laganna. Lögin falla úr gildi, ef kjósendur hafna þeim, en annars halda þau gildi sínu. Alþingi getur þó ákveðið að fella lögin úr gildi áður en til þjóðaratkvæðis kemur.“
Því miður voru þeir flokkar sem nú ráða á móti því að samþykkja nýja stjórnarskrá og því er staðan eins og hún er. Forseti ræður því alfarið sjálfur hvort hann taki mark undirskriftum eða ekki. Hann þarf ekki einu sinni að rökstyðja skoðun sína sérstaklega.
Auðlindir í eigu þjóðarinnar
Í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár er einnig tekið skýrt fram að auðlindir sem ekki eru í einkaeigu séu ævarandi eign þjóðarinnar og að taka eigi fullt gjald fyrir notkun þeirra:
„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.“
„Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“
Það er ekki að ástæðulausu að valdaflokkarnir gömlu vilja ekki sjá nýja stjórnarskrá. Ný stjórnarskrá þjónar einfaldlega ekki hagsmunum auðvaldsins og sérhagsmunahópa.
Þó fjöldi undirskrifta skipti engu lagalegu máli segir hann þó eitthvað um vilja fólksins. Því er auðvitað mikilvægt að sem flestir skrifi undir. Að sama skapi er nauðsynlegt að gleyma ekki baráttunni fyrir nýrri stjórnarskrá.
Ekki láta hagsmunaaðila plata ykkur og skrifið undir hér:
http://www.petitions24.com/obreytt_veidigjald