Gistináttaskatturinn ógurlegi

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

10/06/2013

10. 6. 2013

Rétt fyrir kosningar var allt brjálað vegna þess að heimsveldi vondra vinstrimanna á Íslandi ætlaði að hækka virðisaukaskatt á útleigu hótel- og gistiherbergja úr 7% í 14%, rétt eins og skatturinn var á tímabilinu 1994 til mars 2007. Lækkunin 2007 virðist ekki hafa skilað sér í aukningu gistinátta umfram þá þróun sem þegar hafði átt […]

Ský 1Rétt fyrir kosningar var allt brjálað vegna þess að heimsveldi vondra vinstrimanna á Íslandi ætlaði að hækka virðisaukaskatt á útleigu hótel- og gistiherbergja úr 7% í 14%, rétt eins og skatturinn var á tímabilinu 1994 til mars 2007.

Lækkunin 2007 virðist ekki hafa skilað sér í aukningu gistinátta umfram þá þróun sem þegar hafði átt sér stað. Mestur vöxtur er meðal erlendra ferðmanna og virðist skipta þá litlu máli hvort skatturinn er 7%, sem er algjört undanþáguskattþrep (sem er t.d. lagt á bleiur og smokka) , eða 14% sem er hið hefðbundna lægra virðisaukaskattþrep (hærra skattþrepið er 25,5%).

Engin sérstök málefnaleg rök virðast vera fyrir því að rukka lægri virðisaukaskatt í þessari grein en í öðrum greinum. Einu rökin virðast vera andstaða Samtaka um ferðaþjónustu. Hótelherbergi eru full langt fram í tímann og kvartað er yfir því að ekki séu nægjanlega mörg hótel í miðborginni.

Eitt mun aldrei breytast. Hagsmunaaðilar eru á alltaf á móti hækkun skatta og gjalda. Það vill enginn borga meira þó allir þiggi þjónustu hins opinbera.

Sjávarútvegurinn vill ekki borga veiðileyfagjald, stóriðjan getur ómögulega borgað sanngjarnt orkuverð (eða skatta ef út í það er farið) og hótelbransinn mun auðvitað ekki lifa það af ef virðisaukaskattur á útleigu hótel- og gistiherbergja verður mun lægri en hann er í Danmörku (25%) eða í álíka og hann er í Svíþjóð (12%).

Staðreyndin er sú að fjöldi ferðamanna eykst hér verulega ár frá ári. Það mun ekkert breytast því fólk sem hefur á annað borð efni á því að ferðast til Íslands getur vel staðið undir eðlilegum virðisaukaskatti. Ef hætt verður við að hækka skattinn aftur upp í 14% verður hið opinbera líklega af um einum og hálfum milljarði og eins og staðan er þarf ríkið á þessum peningum að halda.

Menn geta verið hugmyndafræðilega ósammála um hversu háir skattar eigi almennt að vera en það er óréttlátt að ein atvinnugrein borgi sérstaklega lægri skatta en aðrir.

Deildu