Einstaklingsframboð? Já, ef í stórum flokki

Logo

25/03/2013

25. 3. 2013

Fólk hefur lengi gælt við þá hugmynd að einstaklingar mættu bjóða sig fram til Alþingis þannig að viðjar flokksklafanna séu ekki hindranir fyrir þeim sjálfsagða lýðræðisrétti að bjóða fram krafta sína á löggjafarþing þjóðarinnar. Innan vel flestra flokka hafa verið talsverðar umræður um þetta og komust þær í hámæli á þeim tíma sem þjóðfundirnir (eftir […]

Iceland_ÞingvellirFólk hefur lengi gælt við þá hugmynd að einstaklingar mættu bjóða sig fram til Alþingis þannig að viðjar flokksklafanna séu ekki hindranir fyrir þeim sjálfsagða lýðræðisrétti að bjóða fram krafta sína á löggjafarþing þjóðarinnar. Innan vel flestra flokka hafa verið talsverðar umræður um þetta og komust þær í hámæli á þeim tíma sem þjóðfundirnir (eftir efnahagshrunið) voru haldnir.

En hvað hefur áunnist í þessum efnum? Ekkert svo ég viti til. Þrátt fyrir áhuga þvert á flokkslínur og utan flokka hafa stjórnvöld ekki breytt neinu um kosningalögin í þessa átt.

Er von á breytingu með nýrri stjórnarskrá byggðri á tillögu Stjórnlagaráðs?

Í frumvarpi um nyja stjórnarskrá frá meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis er sagt í 5. og 6. málsgreinum 39. greinar um Alþingiskosningar:

„Stjórnmálasamtökum skal heimilt að bjóða fram kjördæmislista og landslista. Frambjóðandi má vera á landslista og kjördæmislista sömu samtaka.

Kjósandi skal geta valið frambjóðendur af listum í sínu kjördæmi og af landslistum. Kjósi hann heldur lista hefur hann valið alla frambjóðendur listans jafnt. Heimilt er í lögum að einskorða valið við lista sömu samtaka.“

Þetta er heldur óljóst fyrir mér.  Má kjósandinn velja frambjóðendur af mörgum listum og hversu marga þá? Ákveður hann sjálfur röðina á þeim eða er farið eftir öðru?

Í útskýringum með þessari 39. grein segir meðal annars:

Setja verður ákvæði um fyrirkomulag röðunar í kosningalög. Kjósandi getur leitt hjá sér að raða með því að merkja við lista einan sér og eftirlætur þá öðrum röðunina. Spyrja má hví ekki sé leyft að bjóða fram forraðaðan lista þar sem merking við listann einan hafi eitthvert vægi í röðun. Slíkt kom vissulega til álita en reynslan, bæði hérlendis og erlendis, sýnir að þá er persónukjörið næsta marklaust. Í reynd mun röðunin á hinum forröðuðu listum ráða ferðinni. Slíkt fyrirkomulag myndi ekki falla undir þá skilgreiningu á persónukjöri sem reifuð var að framan.
Ákvæði frumvarpsins um persónukjör, sem hér eru lögð til, kveða á um að kjósendum sé heimilað að velja frambjóðendur af landslistum svo og listum innan síns kjördæmis. Eins og fram kemur síðar verða í reynd væntanlega flestir frambjóðendur á landslistum þótt þeir séu líka á kjördæmalistum. Það persónukjör sem hér er lagt til gengur því mun lengra, hvort sem leyft er val þvert á samtök eða ekki, en stjórnarfrumvarpið um persónukjör frá árinu 2009 þar sem kjósendur gátu aðeins valið af einum lista og það aðeins helming nafna á honum. Um rök með og á móti þessu valfrelsi er rætt í almennum athugasemdum með þessum kafla frumvarpsins.
Persónukjör merkir ekki að flokkar komi ekki við sögu í sambandi við framboð. Samtökum um framboð, flokkum eða öðrum slíkum samtökum, er eftir sem áður ætlað að velja með einhverjum hætti þá frambjóðendur sem standa kjósendum til boða. Þeim er jafnframt heimilað að birta frambjóðendur í leiðbeinandi röð. Kjósendum er einnig heimilt að velja lista í heilu lagi. Að lokum er það mikilvægt atriði að mælt er fyrir um hlutfallskosningu þar sem samtökin, flokkarnir, hljóta þingsæti í sem fyllstu samræmi við heildarfylgi þeirra. Þetta útilokar t.d. meirihlutakosningu þar sem fylgismestu samtökin fá öll sæti.“ [breiðletrun mín]

Þessi tillaga um persónukjör er því í raun ekki tillaga um það sem ég myndi kalla einstaklingskjör.  Velja má persónur af listum (persónukjör) en einstaklingar utan flokka mega ekki bjóða sig fram!

Hvað ef litið er á núverandi kosningalög?  Hvar stendur einstaklingsframbjóðandinn?

Einhverra hluta vegna er sú hindrun einstaklinga að fara í gegnum val flokka og svo byrði flokkanna að finna tvöfalt fleiri frambjóðendur á framboðslista en heildartala þingmanna kjördæmisins segir til um og fá 300-320 undirskriftir til stuðnings listanum enn látin í friði. Þessi ákvæði eru í kosningalögunum en ekki stjórnarskránni.  Þessu til viðbótar þarf listinn að ná að lágmarki 5% atkvæða alls landsins til þess að eiga möguleika á því að koma einum manni inn (108. grein Kosningarlaganna frá 2000).  Það neyðir framboðin til að fara fram í öllum kjördæmum og það er ljóst að þessi lög heimila aðeins flokkum sem hafa náð talsverðri stærð og uppbyggingu um allt land að komast að.  Lögin ganga út á flokka en ekki einstaklinga.  Yfirstrikanir á kjördag eru leyfilegar en hafa sjaldnast mikið að segja. Með 63 þingmenn í heild eru 1.58% atkvæða á bakvið hvern þeirra.  Þannig þurfa framboð að ná í þingstyrk upp á rúmlega 3 þingmenn (4.76%) til að komast að.

Það hefði mátt breyta lögunum í átt til meiri frelsis fyrir einstaklinga sem vilja bjóða sig fram, en þess í stað er veðjað á stjórnarskrártillöguna sem í reynd er enn tillaga fyrir flokka þó að innan þeirra megi kjósa fjölbreytilegar. Frelsisaukningin er fyrir kjósandann en ekki frambjóðandann.

Hvort að kostir svona flokkræðiskerfis séu veigameiri en gallar þess og hætturnar við einstaklingsframboð séu meiri en kostir þeirra er erfitt að segja til um og það þyrfti að kryfja það vandlega í sérstakri grein.  Mér finnst einfaldlega mikilvægt að við leiðum hugann að þessu þegar við erum að huga að breytingum á grundvallarþáttum lýðræðisfyrirkomulagsins.

Deildu