Gagnrýnin óskoðun

Logo

Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir er fædd 1986 á Akranesi, á þrjá syni, tvo ketti en bara einn mann. Hún starfar sem félagsráðgjafi og hefur áhuga á samskiptum, samfélögum, manneskjum, pólitík og öðrum lífsins gæðum.

19/03/2013

19. 3. 2013

Nýyrði: Óskoðun. Að hafa meðvitað ekki skoðun á málefnum. Hérna áður fyrr var ég svolítið ligeglad, tók ómeðvitaða ákvörðun um að taka ekki ákvarðanir eða mynda mér skoðanir. Ég var eiginlega eins og laufblað í vindi og sveiflaðist á milli skoðanapóla eftir því hvaða rök voru meira sannfærandi. Eða þá að ég nennti einfaldlega ekki að spá […]

Nýyrði: Óskoðun. Að hafa meðvitað ekki skoðun á málefnum.

Hérna áður fyrr var ég svolítið ligeglad, tók ómeðvitaða ákvörðun um að taka ekki ákvarðanir eða mynda mér skoðanir. Ég var eiginlega eins og laufblað í vindi og sveiflaðist á milli skoðanapóla eftir því hvaða rök voru meira sannfærandi. Eða þá að ég nennti einfaldlega ekki að spá í neinu eða mynda mér skoðanir, lokaði augum og eyrum og hugsaði bara um eitthvað skemmtilegt, t.d. um lömb í haga. Ég taldi að ég væri bara mjög líbó týpa og allar skoðanir væru virðingarinnar virði og ekki mitt að dæma þær. Ég kaus Sjálfstæðisflokkinn jafns við Vinstri græna, Samfylkinguna eða bara hvað sem var. Yppti öxlum ef einhver óskaði eftir mótrökum um merkileg málefni.

Svo gerðist svolítið. Ég fór í háskóla og vinsamlegast beðin um að lesa bók. Sú bók hefur verið mín uppáhaldsbók síðan og ber heitið Pælingar eftir Pál Skúlason (fjallaði um hana í pistlinum um gildi peninga). Kafli í umræddri bók fjallaði um gagnrýna hugsun eða hvort hægt sé að kenna gagnrýna hugsun. Páll leitast við að svara þeirri spurningu og leitar raka hjá merkum mönnum. Samkvæmt Páli er gagnrýn hugsun að halda að ekkert sé satt, efast um allt og rannsaka málin til hlítar áður en mynduð er skoðun á einhverju.

Reyndar efast Páll  um hvort hægt sé yfir höfuð að hugsa gagnrýnið því tilfinningar og skynsemi sé af sama toga. Því sé ekki hægt að hugsa aðeins gagnrýnið og sjálfstætt án þess að tilfinningar hafi þar áhrif.

Þá vill Páll meina að við getum kannski leitast að nota gagnrýna hugsun á einhverju sviði en á öðrum sviðum þar sem við vitum minna um eigum við í raun ekki rétt á því að vera dómbær. Því eigum við að leita hlutleysis sem  getur reynst erfitt því ómeðvitað myndum við okkur alltaf skoðun á hlutunum. Við eigum því einfaldlega að velta því betur fyrir okkur hvaðan þessar skoðanir koma og hvers vegna við myndum okkur þær.images

Við þennan lestur varð hugljómun. Maður þarf að setja sig inn í málin og mynda sér skoðanir. Þá á ég við alvöru skoðanir, byggðar á fræðum og rökum en ekki einhverju sem frændi manns sagði í jólaboði einhvern tíman. Maður á að hugsa og velta hlutunum fyrir sér, taka afstöðu og standa við hana. Það er þó ekki svo að menn þurfi að hafa skoðanir á öllu, þó vissulega séu til svoleiðis menn (og líka við konur). Maður getur nefnilega tekið gagnrýna ákvörðun um að móta sér ekki skoðun á málefnum. Það er ekki það sama og loka augunum heldur að viðurkenna það að maður veit ekki allt. Til er nefnilega fólk sem veit meira en maður sjálfur um málin og er þá líklega færara í að taka ákvarðanir varðandi þau. Sem dæmi nefni ég inngöngu Íslands í ESB. Ég hreinlega hef ekki nennt að setja mig inn í þau mál, tel mig ekki hafa næga þekkingu til að leggja mat og mynda mér skoðun og er því ekki að gala út skoðanir sem eru ekki á rökum reistar. Við þurfum að gæta þess að vanhugsaðar skoðanir stýri ekki okkar ákvörðum og athöfnum. Það er í lagi að hafa óskoðun.

Deildu