Páll Skúlason (1987) heimspekingur gerir í bók sinni Pælingar góða grein fyrir gildi og mikilvægi peninga í samtímanum. Þar rýnir hann meðal annars í spurninguna „hvað er fátækt?“ Er fátækt skortur á hlutlægu fjármagni sem tengist þannig skort á nauðsynjum svo sem fæði og húsnæði eða hafa peningar frekara gildi fyrir fólk?
Páll Skúlason skilgreinir fátækt á eftirfarandi hátt: „Fátæktin er skortur á verðmætum. Undir verðmæti fellur allt það sem skipti mannfólk máli, gefur lífi þess gildi“ (Páll Skúlason, 1987, bls. 376). Þetta er einföld skilgreining á flókinni jöfnu. En hvað má þá skilgreina sem verðmæti? Hvað er það sem gefur lífinu gildi og skiptir mannfólk svo miklu máli? Páll dregur upp ítarlega mynd af verðmætum og skiptir þeim í þrjá flokka: Efnisleg verðmæti, Menningarverðmæti og Siðferðisleg verðmæti.
Efnislegum verðmætum er skipt í tvo flokka. Fyrst ber að nefna Raungæði en það eru þau efnislegu gæði sem fólk þarf til að mæta grunnþörfum sínum svo sem fæði, vatn, húsaskjól og fatnaður. Sýndargæði eru hins vegar þau gæði sem ekki telst vera lífsnauðsynleg heldur eru til þess fallin að auðvelda mönnum lífið. Oft eru skilin á milli raungæða og sýndargæða óljós. Það sem telst til raungæða hér á landi gæti talist til sýndargæða í annarsstaðar. Það er misjafnt milli manna, þjóðfélagshópa og aðstæðna hvað telst vera nauðsynlegt og hvað ekki.
Menningarverðmæti teljast þau gæði sem uppfylla kröfur fólks um skemmtun og létta þeim tilveruna. Þau efla tilgang lífsins og vekja löngunina að vera til. Þau stuðla einnig að þekkingu fólks og skilningi. Fólk þarf ekki einungis að komast af í lífsbaráttunni heldur einnig að fá fyllingu í lífið og njóta þess að vera til. Samkvæmt velferðarhugtakinu skiptir það einmitt máli að mæta þeim þörfum sem snúa að lífsfyllingu fólks.
Siðferðisleg verðmæti byggja á samskiptum og samböndum fólks. Til þeirra teljast til dæmis vinátta, nánd, frelsi, trú og réttlæti.
Páll telur að ein og sér skipti efnisleg verðmæti engu máli ef þau eru ekki í samhengi við önnur verðmæti. Sá sem ekki fær notið menningar- eða siðferðislegra verðmæta fær heldur ekki notið efnahagslegra verðmæta. Út frá umfjöllun Páls um verðmæti og fátækt skipta lífskjör ein og sér ekki öllu máli. Einstaklingur þarf einnig að hafa tækifæri til þátttöku í samfélaginu og þeim að aðgang að verðmætum sem ekki endilega falla undir efnisleg gæði (Sjá nánar hér)