Staðreynd 1: Það er meirihluti fyrir því að samþykkja drög að nýrri stjórnarskrá á þingi.
Staðreynd 2: Mikill meirihluti þeirra sem kusu um drögin í þjóðaratkvæðagreiðslu vilja að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
Staðreynd 3: Fulltrúar núverandi stjórnarflokka hafa ítrekað sagst ætla að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Sama má segja um fulltrúa Hreyfingarinnar og flesta þeirra sem standa utan flokka á þingi.
Staðreynd 4: Talsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa margoft talað gegn vinnu stjórnlagaráðs og lýst því yfir að þeir séu á móti nýrri stjórnarskrá.
Staðreynd 5: Miklar líkur eru á því að Sjálfstæðisflokkurinn nái aftur völdum eftir kosningar.
Staðreynd 6: Nái Sjálfstæðisflokkurinn aftur völdum er nánast öruggt að ekki verður farið eftir tillögum stjórnlagaráðs. Þvert á vilja þeirra sem kusu í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Niðurstaða: Tilraun Árna Páls, nýkjörins formanns Samfylkingarinnar, til að semja um málið fram yfir kosningar í nafni málamiðlunar er vonlaus og tilgangslaus. Það er ekki hægt að semja við fólk sem er í grundvallaratriðum á móti því sem verið er að semja um. Auk þess er ekki hægt að binda hendur næsta þings. Komi Árni Páll í veg fyrir að kosið verði um stjórnarskránna á yfirstandandi þingi veit ég að margir sem hugsanlega hefðu kosið Samfylkinguna í næstu kosningum munu ekki gera það. Þar á meðal sá sem þetta skrifar.
Með þessu er ég ekki að gera lítið úr athugasemdum þeirra sem segja að drögin að nýrri stjórnarskrá séu ófullkomin. Þau eru það vafalaust. Ný stjórnarskrá mun aldrei verða þannig að allir séu sáttir. Ég er ekki sáttur við allt í nýju stjórnarskránni. Það eina sem skiptir máli er að þjóðin er búin að segja álit sitt. Stjórnarflokkarnir lofuðu því að klára málið og það er næsta víst að ekkert verður af breytingum á stjórnarskránni verði málið geymt fram yfir kosningar.
Árni Páll. Hættu að sleikja upp Sjálfstæðisflokkinn. Sá ágæti flokkur hefur verið við völd nógu lengi og er að líkindum á leið til valda aftur. Það er óþarfi að leyfa Flokknum að ráða líka á meðan hann er í stjórnarandstöðu.