Að vernda börn gegn níðingum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

07/01/2013

7. 1. 2013

Það tók virkilega á að horfa á umfjöllun Kastljóssins í kvöld um barnaníðinginn Karl Vigni Þorsteinsson sem að hefur ítrekað framið kynferðisbrot gagnvart börnum og unglingum. Ég dáist að fórnarlömbum mannsins sem í kvöld sögðu frá erfiðri reynslu sinni. Án opinnar umræðu breytist ekki neitt. Mikilvægt er að við lærum af þessari umfjöllun. Kynferðisafbrot gegn […]

Það tók virkilega á að horfa á umfjöllun Kastljóssins í kvöld um barnaníðinginn Karl Vigni Þorsteinsson sem að hefur ítrekað framið kynferðisbrot gagnvart börnum og unglingum. Ég dáist að fórnarlömbum mannsins sem í kvöld sögðu frá erfiðri reynslu sinni. Án opinnar umræðu breytist ekki neitt. Mikilvægt er að við lærum af þessari umfjöllun. Kynferðisafbrot gegn börnum er ekki bara eitthvað sem gerðist í gamla daga. Saga fortíðarinnar er saga nútímans því mannskepnan hefur ekkert breyst.

Hin kalda staðreynd er því miður sú að barnaníðingar eru til og það mun ekki breytast með aukinni umfjöllun. Það er ekki hægt að fordæma níðingana út úr samfélaginu og rannsóknir benda til þess að  oft er ekki hægt að hjálpa barnaníðingum jafnvel þó að þeir náist og þiggi viðeigandi meðferð.

Ég vinn með börnum
Í umfjöllun Kastljóssins kom fram að umræddur barnaníðingur hefur nálgast börn meðal annars í gegnum störf hjá líknarfélögum, kirkjum og á vistheimili. Þetta gera barnaníðingar. Þeir leitast við að vera nálægt börnum. Þessi staðreynd snertir mig djúpt því ég starfa sjálfur með börnum.

Ég er forstöðumaður á vistheimili fyrir unglinga og hef síðan ég tók við því starfi velt því mikið fyrir mér hvernig hægt sé að tryggja öryggi barna í minni umsjá. Öryggi gagnvart öðrum íbúum og öryggi gagnvart starfsfólki (þar með mér sjálfum eða þeim forstöðumanni sem kynni að taka við af mér). Á fyrstu starfsdögum mínum útbjó ég verklagsreglur fyrir starfsfólk um hvernig ætti að umgangast börn og hvernig ætti að bregðast við ef grunur lægi á því að börn væru beitt ofbeldi af einhverju tagi. Í kjölfarið hafa verklagsreglur verið ræddar á starfsmannafundum. Ég held að flestu mínu samstarfsfólki hafi þótt umræðan um þessi mál svolítið erfið. Mér fannst það í það minnsta. Einhverjir bentu á að verklagsreglur sem þessar gæfu í skyn að á meðal starfsfólksins gæti leynst einhver ofbeldismaður. Niðurstaðan var sú að það gæti einmitt verið þannig (sjálfur forstöðumaðurinn gæti verið níðingur, annað eins hefur gerst).* Ef ofbeldismenn hafa komist í að vinna með börnum í gegnum kirkjur, líknarfélög, skóla og vistheimili í gær þá gætu þeir auðvitað sóst um að gera það í dag. Mannskepnan hefur ekki breyst þó við vonum öll að samfélagið sé eitthvað betra í dag en í gær. Flest fólk er gott og góðviljað en inn á milli leynast svartir sauðir og sjúkir einstaklingar. Þannig er það og þannig mun það líklegast alltaf vera.  Allir voru því sammála um að umræðan væri mikilvæg þó hún væri erfið og verklagsreglurnar gagnleg tæki til að vernda bæði börn og starfsmenn.

Lærdómur af umræðu um kynferðisbrot gegn börnum
Helsta markmiðið með umræðu um kynferðisbrot gegn börnum á og hlýtur að vera það að draga úr líkum á því að börn verði fyrir ofbeldi í framtíðinni. Og hvað getum við lært af umfjöllun Kastljóssins? að minnsta kosti eftirfarandi:

  1. Þöggun er stórhættuleg. Á meðan enginn þorir að tilkynna, kæra og ræða um ofbeldi breytist ekkert. Ofbeldismenn halda ótrauðir áfram þar til einhver segir stopp. Það þarf að hvetja fólk til að ræða opinskátt um kynferðisofbeldi gagnvart börnum.
  2. Allsstaðar þar sem unnið er með börnum:
    1. eiga að vera til skýrar verklagsreglur um hvernig eigi að bregðast við grun um ofbeldi. Ég er ekki viss um að slíkar reglur séu alls staðar til.
    2. á að vera eftirlit með starfseminni þar sem fagfólk tryggir að fyllsta öryggis sé gætt hvað varðar val á starfsfólki og starfsumhverfi. Ég er efins um eftirlit sé í öllum tilfellum fullnægjandi.
    3. á að mínu mati að tryggja að fullorðnir geti/þurfi ekki að vera einir með börnum án eftirlits. Þetta veit ég að á ekki við um marga vinnustaði, þar á meðal minn, þar sem það telst of kostnaðarsamt.
    4. þarf eftirlit og viðeigandi meðferð fyrir kynferðisafbrotamenn að vera til staðar. Sem betur fer hefur lögum verið breytt þannig að kynferðisbrot gagnvart börnum fyrnast ekki. Það er jákvætt. Enn vantar þó töluvert upp á það, svo best sem ég veit, að fylgst sé almennilega með þekktum kynferðisafbrotamönnum. Menn með barnagirnd á háu stigi virðast geta hafnað meðferð af einhverjum ástæðum (hugsanlega málefnalegum) auk þess sem engin ein örugg meðferð er til við barnagirnd. Það er hægt og það á að efla meðferðarúrræði fyrir menn með barnagirnd og efla eftirlit með þeim.

Við getum verndað börn betur
Ýmislegt er vel hægt að gera til að vernda börn betur (og auðvitað meira en það sem ég nefni hér) en það vantar viljann og líklegast aðallega peninga. Við, mörg hver, kvörtum endalaust yfir því að borga of háa skatta og ráðamenn krefjast sparnaðar á nánast öllum sviðum. Það kostar að reka samfélag og það kostar að vernda börn. Ég fyrir mitt leyti vil að hið opinbera verji mun meiri peningum í barnaverndarmál og er tilbúinn að borga fyrir það með sköttum. Hvað með þig?

*Svo það sé alveg á hreinu þá hefur mig aldrei grunað samstarfsmann um að beita ofbeldi að neinu tagi. Set þetta hér svo þessi setning misskiljist ekki.
Deildu