Hugvekja um hugsanaskekkjur

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

02/10/2011

2. 10. 2011

Hulda Þórisdóttir, Ph.D. í sálfræði, flutti afar áhugaverða hugvekju á vegum Siðmenntar fyrir alþingismenn í gær. Ég hvet alla til að lesa hugvekjuna í heild á vefsíðu Siðmenntar. Hulda fjallar um hugsanaskekkjur sem geta auðveldlega haft áhrif á okkur öll.Hulda segir meðal annars: „Þekkingarfræði húmanista tekur mið af því að áreiðanleg þekking um okkur sjálf […]

Hulda Þórisdóttir, Ph.D. í sálfræði, flutti afar áhugaverða hugvekju á vegum Siðmenntar fyrir alþingismenn í gær. Ég hvet alla til að lesa hugvekjuna í heild á vefsíðu Siðmenntar. Hulda fjallar um hugsanaskekkjur sem geta auðveldlega haft áhrif á okkur öll.Hulda segir meðal annars:

„Þekkingarfræði húmanista tekur mið af því að áreiðanleg þekking um okkur sjálf og heiminn verði til við stöðugt ferli athugunar, rannsóknar og endurskoðunar. Í þessu felst að húmanistar leggja sérstaka áherslu á mikilvægi þess að við vöndum okkur við hugsun og ákvarðanir. Að við forðumst í lengstu lög að fella sleggjudóma, draga rangar ályktanir eða fljóta sofandi að feigðarósi þegar við hefðum betur staldrað við og hugsað málið. Og þið, ágætu þingmenn, þurfið að taka fleiri og afdrifaríkari ákvarðanir en við flest hin.“

Um staðfestingaskekkju:

„Algengasta skekkjan og sú sem hrjáir stjórnmálin líklega mest er staðfestingarskekkjan. Staðfestingarskekkjan leiðir af þeirri þumalfingursreglu að almennt er mun skilvirkara að staðfesta það sem við teljum okkur sjá og vita, heldur en að draga það í efa. Ef mér virðist ég sjá vin minn tilsýndar er mun skilvirkari leið til að ákveða hvort þetta sé raunverulega hann að bera saman skynjun mína við þá mynd sem ég hef af honum í minninu heldur en að bera skynjunina saman við alla aðra einstaklinga í minni mínu. Þessi afar skilvirka þumalfingursregla getur þó leitt til skekkju. Þegar fólk vill komast að ákveðinni niðurstöðu, hvort sem það er meðvitað um þann vilja sinn eða ekki, þá meðtekur það upplýsingar og vinnur úr þeim í takt við þessa æskilegu niðurstöðu. Einnig eru upplýsingar sem ganga gegn hinni æskilegu niðurstöðu endurtúlkaðar, hunsaðar eða dæmdar ógildar. Þetta er sérstaklega líklegt til að gerast þegar um er að ræða margbrotin mál þar sem tína má til margskonar staðreyndir.“

Hvernig hagsmunasamtök nýta sér hugsanaskekkjur:

Hagsmunasamtök nýta sér reglurnar um tiltæki og tilfinningar þegar þau reyna að hafa áhrif á stjórnmálamenn. Takist þeim að láta málefni sitt snúast um tilfinningar og halda því stöðugt á lofti, er nær öruggt að bæði fjölmiðlar og stjórnmálamenn munu veita því athygli og setja á dagskrá. Í Bandaríkjunum er frægt hvernig repúblikanar börðust með mjög áhrifaríkum hætti gegn erfðaskatti á stóreignafólk með því að endurnefna hann dauðaskatt og mála þar með ógeðfellda og tilfinningahlaðna mynd sem auðvelt er fyrir fólk að kalla fram. Hver gæti mögulega verið hlynntur því að leggja skatt á dauðann? Einnig má sjá hér á landi að tilfinningahlaðin málefni með öfluga talsmenn fá oft meira vægi í samfélagsumræðunni en ætla mætti af mikilvægi þeirra. Ég hugsa að staðgöngumæðrun gæti fallið þarna undir.

Að lokum segir Hulda:

Ágætu þingmenn, ég vona þessi lestur um galla mannlegrar hugsunar sendi ykkur ekki niðurlúta út í slagviðrið. Það er í anda húmanisma að horfast í augu við galla mannsins en gefast ekki upp fyrir þeim heldur reyna að bæta okkur sjálf – og þar með mannkynið. Eins og segir í stefnuyfirlýsingu húmanista:  Við veljum bjartsýni en ekki svartsýni, von en ekki örvæntingu, lærdóm en ekki kreddur, sannleika en ekki fáfræði, gleði en ekki sekt eða synd, umburðarlyndi en ekki ótta og skynsemi en ekki blinda trú eða afneitun rökréttrar hugsunar.

Sjá hugvekju Huldu í heild sinni á vef Siðmenntar

Deildu