Um mótmæli og ógeðslega orðræðu

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

01/10/2011

1. 10. 2011

Nú hef ég nokkrum sinnum tekið þátt í mótmælum og ég hef margoft tjáð mig opinberlega um þjóðfélagsmál. Ég hef þó aldrei öskrað, kastað eggjum eða öðru lauslegu og aldrei heimtað „bara eitthvað annað“. Það er að mínu viti lágmarkskrafa að fólk, sem vill láta taka sig alvarlega, rökstyðji skoðanir sínar og hlusti á málflutning […]

Nú hef ég nokkrum sinnum tekið þátt í mótmælum og ég hef margoft tjáð mig opinberlega um þjóðfélagsmál. Ég hef þó aldrei öskrað, kastað eggjum eða öðru lauslegu og aldrei heimtað „bara eitthvað annað“. Það er að mínu viti lágmarkskrafa að fólk, sem vill láta taka sig alvarlega, rökstyðji skoðanir sínar og hlusti á málflutning annarra en hegði sér ekki eins og heimtufrekir og óþekkir krakkar.

Hverju er verið að mótmæla?
Ríkisstjórninni? Er hrun bankakerfisins, krónan, atvinnuleysið, verðbólgan, spillingin og skuldir heimilanna núverandi ríkisstjórn að kenna? Hvernig? Nú má ekki lengur minnast á það að Jóhanna og Steingrímur tóku við landinu í rúst eftir efnahagshrun sem seint verður hægt að klína á vinstrimenn. „Það eru mörg ár síðan“ segja sumir mótmælendur og krefjast þess að allt verði lagað þegar í stað. Hægrimenn í atvinnulífinu krefjast þess að ríkisstjórnin reddi málunum strax og vinstrisinnaðir mótmælendur líka.

Margir gera sér þó grein fyrir að ástandið er ekki núverandi ríkisstjórn að kenna en gagnrýna þó að uppbyggingin gangi ekki nógu hratt. Það kann vel að vera og þar sem að ég er fullviss um að fólkið sem situr á Alþingi er ekki fullkomnara en annað fólk þá veit ég að mistök hafa verið gerð. Því er mikilvægt að benda á þau mistök og sýna yfirvöldum aðhald með málefnalegri gagnrýni og aðhaldi. Mér finnst ekki nóg að hrópa „þið eruð ekki að standa ykkur nógu vel, fíflin ykkar“ og „ég vil eitthvað annað“. Bara „EITTHVAГ annað.

„Ég vil kosningar!“ – Hvað á að kjósa og hvers vegna? Hvers vegna er stjórnarandstaðan betri? Og hvers vegna í ósköpunum er „eitthvað annað“ betra?

Ógeðsleg orðræða
Netið getur verið frábær vettvangur fyrir gagnlegar umræður og gagnrýni en gubbið sem frussast út úr fólki á hinum ýmsu netmiðlum er vægast sagt ógeðfellt. Skoðum nokkrar athugasemdir á vefmiðlum sem settar hafa verið á vefinn í dag (ég nenni ekki að taka saman allar Facebook athugasemdir þar sem menn eru kallaðir „fífl“, „hálfvitar“, „aumingjar“, „þjóðernissvikarar“ o.s.frv.):

„…um Orðhengil og Heimaskítsmátsdrottningu íslenska“ lýðveldisins“?“

„Óttalegur vesalingur ertu maður, en svona eru nú einu sinni vinstri grænir, ótrúlegir aumingar og vesalingar upp til hópa. eitthvað sem maður mundi kalla mannleg úrhrök,“

„Þvílíkur aumingi, þessum vesalingum þarna er best líst með því að geta ekki staðið af sér eitt andskotans hænuegg!“

„Smafylkingar liðið fer í fýlu ef það er púað á þetta prumpu lið“

„Sódóníska raðlygarann Jóhrannar erkisauð.“

„Fullt egg hitti tómann haus. (hátt bylur í tómri tunnu)“

„efast um að það sé hægt að skemma nokkuð í þessum haus eða öðrum í kollegum hans…“

Minni reiði og meira knús
Þessi ókurteisi, ofsafengna reiði og ósanngjörnu kröfur gera ekkert gagn. Við munum aldrei komast upp úr þessari kreppu nema með gagnrýnu hugarfari, málefnalegri umræðu og yfirveguðum aðgerðum.  Má ég leggja til minni reiði og meira knús?

Deildu