Burt með kreppuklámið

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

15/12/2010

15. 12. 2010

Ég er orðinn svolítið þreyttur á endalausum dómsdagsfréttum af matarbiðröðum hjá hjálparsamtökum. Ekki vegna þess að ég vil ekki vita að til er fólk í sárri neyð á Íslandi. Ég veit mætavel að margir hafa það skítt fjárhagslega og þurfa aðstoð. Það sem fer í mig er hvernig brugðist er við vandanum. Ég er einfaldlega […]

Ég er orðinn svolítið þreyttur á endalausum dómsdagsfréttum af matarbiðröðum hjá hjálparsamtökum. Ekki vegna þess að ég vil ekki vita að til er fólk í sárri neyð á Íslandi. Ég veit mætavel að margir hafa það skítt fjárhagslega og þurfa aðstoð. Það sem fer í mig er hvernig brugðist er við vandanum. Ég er einfaldlega á móti því að „einkarekin“ hjálparsamtök, sjálfeignastofnanir og  aðrir einkaaðilar sjái um að veita fjárhagsaðstoð og félagsþjónustu. Það á að vera hlutverk velferðarkerfisins.

Neyðarklám
Þegar einkaaðilar taka að sér að veita sjálfsagða velferðarþjónustu er voðinn vís. Þeir sem veita slíka þjónustu eru alltaf háðir styrkjum til að starfsemin gangi upp. Styrkirnir eru svo fengnir frá einstaklingum, fyrirtækjum og jafnvel hinu opinbera.  Þegar harðnar á dalnum verður eðlilega erfiðara að afla styrkja. Þá þarf einhvern veginn að auglýsa starfsemina og benda á mikilvægi hennar. Niðurstaðan verður alltaf nokkurskonar neyðarklám. Öll tækifæri eru nýtt til að auglýsa hversu margir hafa það ömurlegt með tilheyrandi niðurlægingu gagnvart þeim sem á aðstoðinni þurfa að halda. Þetta á við nú þegar í hverri viku eru sagðar fréttir af fátæku fólki í biðröðum, úti í kuldanum, að bíða eftir mat. Ég kalla slíkar fréttir kreppuklám.

Hlutverk velferðarkerfisins
Þó ég hafi sjálfur stutt bæði Fjölskylduhjálp Íslands og Mæðrastyrksnefnd er ég á móti því að hið opinbera styðji slík samtök skilyrðislaust. Hlutverk velferðarkerfisins er að greina raunverulegan vanda fólks og bregðast við honum með viðeigandi hætti.  Hratt og örugglega. Til þess að það sé hægt þarf að tala við þá sem leita eftir mataraðstoð og fá upplýsingar um aðstæður þeirra.  Þeir sem þurfa aðstoð eiga að fá hana.

Ég veit að mörgum finnst erfitt og jafnvel niðurlægjandi að leita til félagsþjónustunnar eftir aðstoð. En er það eitthvað erfiðara en að standa úti í biðröð eftir mat? Jafnvel með sjónvarpsmyndavélar í andlitinu? Ég held ekki.

Verkefni stjórnvalda
Stjórnvöld eiga að taka sig saman í andlitinu og gera hjálparsamtök sem útdeila mat óþörf hið snarasta. Þetta á reyndar að vera sameiginlegt markmið stjórnvalda og hjálparsamtaka.

Stjórnvöld og hjálparsamtök þurfa að vinna saman að því að kortleggja vandann og svo á hið opinbera að tryggja að allir sem á því þurfa að halda fái viðeigandi aðstoð. Til dæmis með aukinni fjárhagsaðstoð eða útgáfu matarkorta. Hjálparsamtök geta síðan aðstoðað þá áfram sem ekki eru í brýnni neyð.

Félagsmálayfirvöld þurfa líka að vera duglegri við að benda fólki á hvar og hvernig það getur leitað sér aðstoðar. Miðað við hvernig ástandið virðist vera í dag væri kannski ekki vitlaust að senda fulltrúa frá félagsþjónustunni til fólksins sem stendur í biðröðum með upplýsingar.

Deildu