Lélegur frambjóðandi hugsar upphátt

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

19/11/2010

19. 11. 2010

Ástæðurnar fyrir því að ég er í framboði til stjórnlagaþings eru nokkrar. Ég tel að stjórnarskráin komi öllum við og að almenningur eigi að taka þátt í að endurskoða hana. Ég leyfi mér að líta á það sem ákveðna þegnskyldu að bjóða sig fram til stjórnlagaþings. Svo hef ég auðvitað ákveðnar hugmyndir um stjórnarskránna og […]

Ástæðurnar fyrir því að ég er í framboði til stjórnlagaþings eru nokkrar. Ég tel að stjórnarskráin komi öllum við og að almenningur eigi að taka þátt í að endurskoða hana. Ég leyfi mér að líta á það sem ákveðna þegnskyldu að bjóða sig fram til stjórnlagaþings. Svo hef ég auðvitað ákveðnar hugmyndir um stjórnarskránna og stjórnlagaþingið sjálft sem lesa má um á öðrum stað.

Ef ég á að vera alveg heiðarlegur þá þykir mér afskaplega undarlegt að vera í framboði. Ég kann illa við að auglýsa sjálfan mig og mér þykir beinlínis óþægilegt að hvetja fólk að kjósa mig umfram einhverja aðra. Mér finnst eitthvað rangt við að fjalla um eigið ágæti.

Engar auglýsingar
Ég kaupi ekki auglýsingar í fjölmiðlum og eru fyrst og fremst tvær ástæður fyrir því.

1) Mér þykir auglýsingamennska í kosningum,  í þessu árferði og sérstaklega fyrir stjórnlagaþing eitthvað ósmekkleg. Markmiðið er að búa til nýja stjórnarskrá sem þjóðin getur verið stolt af, ekki að auglýsa eða upphefja einstaka frambjóðendur.

2) Mér þætti ótrúlega vandræðalegt að sjá mynd af mér í einhverju blaði ásamt slagorðinu „Kjósum Sigurð Hólm í 1. sæti!“. Fæ reyndar nettan hroll við að skrifa þetta. Hver getur fjallað um sjálfan sig í þriðju persónu án þess að verða óglatt?

Auglýsingar og áróður um eigið ágæti er líklegast eitthvað sem fylgir flestum kosningum og eflaust er barnalegt af mér vilja öðruvísi kosningabaráttu. Ætli ég sé einfaldlega ekki lélegur frambjóðandi í þessum skilningi?

Sannleikurinn er líka sá að ég er ekki með „stjórnlagaþingmanninn í maganum“ þó mér þyki mjög spennandi að taka þátt í stjórnlagaþingi og móta nýja stjórnarskrá. Ég treysti ég mér vel í það verkefni því ég hef sterkar skoðanir en á um leið auðvelt með að hlusta á sjónarmið annarra og hef í raun gaman að því að vinna með fólki sem hefur ólíkar og sterkar skoðanir.

Enga vinsældarkosningu
Ef fólk treystir mér í þetta verkefni og heldur að ég hafi eitthvað fram að færa þá hvet ég það eindregið til að kjósa mig og setja mig eins ofarlega á lista það getur. Um leið bið ég fólk að kjósa mig ekki bara af því það þekkir mig eða er skylt mér. Hef engan áhuga á slíkri vinsældarkosningu. En eins og áður segir þá vil ég endilega fá atkvæði þeirra sem treysta mér til verksins, því mig langar mikið til að taka þátt í að búa til nýja og betri stjórnarskrá.

Tenglar:
1) Framboðsyfirlýsing
2) Framboðið á Facebook
3) Framboðið á Skoðun.is

Vinsamlegast smellið á „Like“ til að styðja framboð mitt:

Deildu