Umfjöllun í Lárétt eða lóðrétt á Rás 1
Í dag var flutt viðtal við mig og Óla Gneista í útvarpsþætti Ævars Kjartanssonar Lárétt eða lóðrétt á Rás 1 (Hlusta á upptöku). Umfjöllunarefnið var hugmyndir guðfræðingsins Alister McGrath um trú og guðleysi. Ég kynnti mér nokkuð málflutning McGraths eftir að hann kom hingað til lands í byrjun september. McGrath hefur lagt mikla áherslu á að gagnrýna þá sem hann kallar „nýguðleysingja“ og eru það menn á borð við Richard Dawkins, Sam Harris, Christopher Hitchens o.f.l. Ég var nokkuð spenntur að kynna mér málflutning McGraths og miðað við umfjöllunina sem maðurinn fékk bjóst ég við að hann væri að með gagnlegar athugasemdir um guðleysi og skyldar stefnur. Hann virðist allavega í miklu uppáhaldi hjá mörgum trúmönnum hér á landi. Þannig sagði einn klerkur á netinu McGrath vera „magnaðan trúvarnarmann“.
Ég verð að viðurkenna að eftir að hafa kynnt mér málflutning hans varð ég fyrir töluverðum vonbrigðum. McGrath hefur ekkert nýtt eða sérstakt að segja um trú og trúleysi og satt best að segja finnst mér málflutningur hans stundum barnalegur og villandi. Ég er reyndar ansi hræddur um að ef hann reyndi að nota þau rök sem hann notar í heimspekiritgerð um trú og trúleysi fengi hann falleinkunn hjá flestum kennurum.
Það sem hann segir um málflutning trúleysingja er yfirleitt rangt, eða mjög villandi.
Rök hans fyrir trú á Guð eru síðan með þeim veikari sem ég hef heyrt. Ég, sem trúi ekki á tilvist Guðs, gæti fært mun betri rök fyrir tilvist hans.
Hægt væri að skrifa mjög langa grein til að bregðast við öllum fullyrðingum og skoðunum McGraths en ég læt mér nægja hér að bregðast við því helsta sem hann segir.
Nokkur dæmi um afbökun McGraths á skoðunum guðleysingja:
1. Guðleysingjar líta á Dawkins sem óskeikulan páfa?
Í ræðum og riti heldur McGrath því beint eða óbeint fram að guðleysingjar tilheyri hálfgerðum söfnuði sem líti á Richard Dawkins sem óskeikulan páfa. Þetta er vitaskuld ekki rétt. Þeir guðleysingjar sem ég þekki hafa ólíkar skoðanir á Dawkins og margir gagnrýna hann. Er ég einn þeirra sem hef gagnrýnt Dawkins nokkuð. Þannig hafa margir gert athugasemdir við það hvernig hann ræðir um trú og trúarbrögð. Hann á það til að vera nokkuð hrokafullur í máflutningi sínum og gerir stundum lítið úr trúuðu fólki að óþörfu. Ég gagnrýndi hann t.d. í eigin persónu þegar hann kom hingað til lands í júní 2006. Hann tók vel í þessa gagnrýni og sagðist hafa heyrt hana oft áður.
2. Guðleysingjar telja ekkert jákvætt við trú?
Þetta er fullyrðing sem ég kannast ekki við. Flestir eru sammála því að það er margt jákvætt og fallegt við einstök trúarbrögð. Ótal góðverk hafa átt sér stað vegna trúar einstaklinga á Guð. Hvorki Dawkins né aðrir guðleysingjar hafa dregið það í efa.
Það sem ég hef áhyggjur af er ekki endilega einstök trúarbrögð. Ég óttast hinsvegar þann hugsunarhátt sem felst í blindri trú. Þ.e. þegar menn telja sig höndla sannleikann í gegnum trú. Þá á ég við trú sem þá er ekki byggð á staðreyndum, vísindalegri þekkingu eða gagnrýnni hugsun.
3. Guðleysingjar segja trú vera af hinu illa en telja að trúleysi geti bjargað heiminum
Þetta er mikil einföldun. Til að byrja með er trúleysi eða guðleysi ekki lífssýn. Sá sem segist vera guðlaus hefur ekki sagt neitt um sjálfan sig annað en það að hann trúir ekki á tilvist guðs eða guða. Guðleysi eitt og sér hefur ekkert að gera með siðferðisvitund, réttlætiskennd eða lífsskoðun að öðru leyti. Þess vegna kalla ég sjálfan mig sjaldnast guðleysingja. Ég er siðrænn húmanisti.
Ég tel alla blinda trú slæma. Líka pólitísk trú. Þ.e. sú sannfæring um að hafa höndlað sannleikann og aðrir hljóti að hafa rangt fyrir sér. Trú í þessum skilningi samrýmist illa hugmyndum um gagnrýna hugsun og vísindaleg vinnubrögð.
4. Vísindin geta ekki sannað eða afsannað guðstrú
Þetta er rétt, en vísindi geta heldur ekki sannað eða afsannað tilvist neinna annarra guða. Hvort sem þessir guðir eru grískir, rómverskir eða babílónískir. Sama má segja um tilvista geimvera, álfa og huldufólks. Vísindin segja í raun að það eru engar sannanir sem sýna fram á tilvist guðs og því ekki skynsamlegt að trúa á tilvist hans.
5. McGrath segir að Dawkins og „nýguðleysingjar“ gagnrýni helst gamla testamentið en gleymi að horfa á kristna trú í „ljósi Krists“.
Þessu er auðvelt að svara með því að benda á að kristin trú hefur verið til í um 2000 ár. Engu að síður er frekar nýbúið að afnema þrælahald, viðurkenna jafnan rétt kvenna og fordæma kynþáttamisrétti. Er það þá vegna þess að „kristnir menn“ eru bara nýbúnir að átta sig á því hvernig á að lesa Biblíuna og trúa rétt? „Ljós Krists“ er forsenda sem trúað fólk gefur sér. Forsenda byggð á trú. McGrath getur ekki sýnt fram á eða sannað að hann einn skilji kristna trú rétt á meðan aðrir hljóti að misskilja hana.
Trúarvörn McGraths er veik
Almennt má segja að málflutningur McGraths sé afar veikur. Hann fer mikið til rangt með skoðanir trúleysingja og hann á erfitt með að styðja afstöðu sína í trúmálum með rökum. Þannig segist hann trúa af því það er „röð og regla í heiminum“ og af því að menn hafa orðið fyrir „trúarlegri reynslu“. Þessi atriði er hægt að nota til að styðja allt eða ekkert.
Að auki er McGrath ekki aðeins almennt trúaður á tilvist Guð heldur segist hann sannfærður um tilvist hins „kristna Guðs“. Jesús er sannleikurinn segir McGrath. Rök hans eru aftur veik. Þau eru m.a. þau að honum „finnst kristni passa“. Hann segist „finna“ að kristni sé rétt trú. Sömu tilfinningarök notar hann til að réttlæta sannfæringu sína fyrir „upprisu Jesú“ og „meyfæðingunni“.
Sannfæring McGraths um að hann og kristnir menn hafi rétt fyrir sér en aðrir rangt (t.d. þeir sem aðhyllast Islam eða Búdda) hljómar því ansi hrokafull.
Annars hvet ég alla sem hafa áhuga til að horfa á eftirfarandi samtöl og rökræður McGrath við Richard Dawkins. Takið vel eftir því hvað McGrath er duglegur við að víkja sér undan því að svara einföldum spurningum og snúa út úr.
Rúmlega klukkutíma óklippt samtal milli Dawkins og McGrath sem var tekið upp í tengslum við framleiðslu þáttarins Root of all Evil?:
Hljóðupptaka af rökræðum milli Dawkins og McGrath um trúmál: