Ólafur F. Magnússon tjáir sig ekki í fjölmiðlum án þess að segja að meirihlutinn í Reykjavík sé grundvallaður á málefnum en ekki völdum. Ég man ekki eftir einu einasta viðtali við borgarstjórann þar sem hann sleppir því að minnast á þetta. Það skýtur því skökku við að hann virðist vera ósammála sjálfstæðismönnum í nánast öllum meginmálum.
1. Flugvöllurinn
Ólafur krefst þess að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Kosningabarátta hans gekk út á að tryggja að flugvöllurinn færi ekki neitt.
Gísli Marteinn og fleiri innan Sjálfstæðisflokksins hafa margítrekað að þeir vilji flugvöllinn burt. Ljóst er að sjálfstæðismenn stefna að því flytja flugvöllinn strax eftir næstu kosningar.
2. Verndun húsa við Laugarveginn
Ólafur er mikill húsafriðunarsinni og fékk í gegn að Reykjavíkurborg keypti nokkra kofa á mörg hundruð milljónir. Þetta var eitt af skilyrðum hans fyrir samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.
Sjálfstæðismenn eru almennt á móti slíkum kaupum. Morgunljóst er að samþykki sjálfstæðismanna fyrir kaupunum var leikur þeirra í valdabaráttu um borgina. Sjálfstæðismenn samþykktu ekki kaupin af hugsjón.
3. Orkuveitan í eigu almennings – eða ekki
Kjartan Magnússon og fleiri sjálfstæðismenn vilja selja einkaaðilum REI, dótturfélag Orkuveitunnar. Þetta er skýr vilji mjög margra sjálfstæðismanna.
Borgarstjórinn segir að ekki komi til greina að selja einkaaðilum hlut í REI. Það kemur ekki til greina!
Maður hlýtur að velta því fyrir sér á hvaða málefnaforsendum Ólafur F. getur starfað með Sjálfstæðisflokknum. Samstarfið er augljóslega byggt á völdum en ekki málefnum. Þetta veit Ólafur F. og ég efast ekki um að honum líði illa með það. Ég held að honum sé raunverulega annt um borgina og þau mál sem hann berst fyrir. Hann var einfaldlega gabbaður til samstarfs af sjálfstæðismönnum.