Merkilegt hvað lögreglan fer varlega að mótmælendum úr hópi trukkabílstjóra. Nú er vitað að trukkabílstjórar eru almennt viðkvæmir menn og er það kannski ástæðan fyrir því hvaða prinsessumeðferð þeir fá. Þeir stöðva helstu umferðaæðar Reykjavíkur og stefna þar með öryggi samborgara sinna í hættu. Lögreglan mætir á svæðið, spjallar við mómælendur og býður þeim í nefið (ekkert hvítt þó).
Þetta eru önnur viðbrögð en atvinnumótmælendur sem ekki eru með meirapróf eiga að venjast. Skemmst er að minnast aðgerða lögreglu gagnvart atvinnuhippunum sem mótmæltu Kárahnjúkavirkjun. Þeim var ekki boðið neitt neftóbak. Þeir voru hundeltir um landið, stöðvaðir, yfirheyrðir og handteknir.
Mér er það einnig minnisstætt þegar ég tók þátt í mótmælum vegna komu kínverska einræðisherrans Jiang Zemins. Fjöldi meðlima Falun Gong var settur í stofufangelsi út á landi fyrir það eitt að vera á móti alræðisvaldinu í Kína og klæðast gulum búningum. Þó meðlimir Falun Gong séu upp til hópa trúarofstækismenn sem afneita þróunarkenningunni (ekki ósvipað íslenskum hægrimönnum sem telja kenninguna um hlýnun Jarðar vera alheimssamsæri) þá taldi ég ólýðræðislegt að hneppa þá í varðhald.
Ég tók þátt í friðsamlegum mótmælum við Perluna þar sem ráðamenn Íslands buðu Jiang Zemin í mat og karokee (Zemin söng fyrir gesti). Lögreglan bauð mér hvorki í nefið né vinalegt spjall. Hún var of upptekin við að leggja lögreglubílum og rútum fyrir framan mótmælendur til að tryggja að alræðisherrann frá Kína þyrfti ekki að horfa á mótmælin.
Þannig hélt ég á skilti sem á stóð ,,Aðgát skal höfð í nærveru sálar” og fyrir neðan var mynd af Tiananmen manninum. Þetta þótti lögreglunni greinilega mjög hættulegt og ógna almannafriði því allan tímann sem ég var þarna elti lögreglumaður mig á bíl þeim tilgangi einum að skyggja á skiltið. Hann keyrði áfram og bakkaði til skiptis eftir því í hvaða átt ég gekk. Lögreglumaðurinn var svo upptekinn við að koma í veg fyrir þessi mótmæli mín að hann keyrði á annan mótmælanda í öllum æsingnum. Nánari lýsing á þessum atburðum er að finna hér.
Semsagt, af viðbrögðum lögreglu að dæma telur hún skilti með slagorðum hættulegra en stöðvun helstu umferðaæða í Reykjavík. Merkilegt.