Siðmennt er EKKI á móti litlu jólum eða kristinfræðslu

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

30/11/2007

30. 11. 2007

Kæru fjölmiðlamenn. Vinsamlegast komið þessu á framfæri: Nánast alltaf þegar umræðan um trúfrelsi fer af stað birtast yfirlýsingar um Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi – sem eiga ekki við rök að styðjast. Því miður eru þessi ósannindi stundum endurtekin af fjölmiðlamönnum gagnrýnislaust. Að gefnu tilefni vill ég sem stjórnarmaður í Siðmennt koma eftirfarandi […]

Kæru fjölmiðlamenn. Vinsamlegast komið þessu á framfæri:

Nánast alltaf þegar umræðan um trúfrelsi fer af stað birtast yfirlýsingar um Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi – sem eiga ekki við rök að styðjast. Því miður eru þessi ósannindi stundum endurtekin af fjölmiðlamönnum gagnrýnislaust. Að gefnu tilefni vill ég sem stjórnarmaður í Siðmennt koma eftirfarandi á framfæri:


Á móti trúboði en með fræðslu
Siðmennt er á móti trúboði og trúaráróðri á vegum hins opinbera eða í opinberum stofnunum. Félagið telur að hið opinbera eigi að vernda rétt allra til lífsskoðana en eigi ekki hygla einum lífsskoðunum umfram önnur. Afstaða félagsins er í samræmi við afstöðu Mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna og Mannréttindadómstóls Evrópu.

Eins og hefur komið fram margoft í málflutningi Siðmenntar er félagið alls ekki á móti fræðslu um trúarbrögð. Siðmennt telur enn fremur eðlilegt að sértök áhersla sé lögð á fræðslu um kristin trúarbrögð vegna sögulegrar tengsla við íslenska þjóð. Þar að auki hefur félagið ekkert á móti því að haldið sé upp á jól eða aðrar hátíðir í skólum svo lengi sem slíkar hátíðir eru lausar við trúboð (fullyrðingar um annað í fjölmiðlum eru rangar). Það er vitaskuld ekkert að því að skreyta jólatré, gefa gjafir, teikna jólasveina og borða kökur. Við teljum þó óviðeigandi að börn séu látin fara með bænir eða trúarjátningar í opinberum stofnunum. Foreldrar eru fullfærir um að innræta börnum trúarskoðanir kjósi þeir það.

Undarleg ummæli biskups og menntamálaráðherra
Ég er satt að segja hneykslaður á ummælum Karls Sigurbjörnssonar, biskups, í 24 stundum í dag. Í blaðinu segir biskupinn að Siðmennt sé „hatrömm samtök.“ Slík ummæli hljóta að skjóta skökku við þegar Siðmennt hefur lagt áherslu á mannréttindamál og jafnrétti allra, þ.m.t. samkynhneigðra. Á sama tíma hefur Þjóðkirkjan og/eða einstaka fulltrúar hennar stundum barist gegn þessum almennu jafnrétti og mannréttindum. Að auki hefur Siðmennt lagt metnað í að fjalla um öll mál á yfirvegaðan og gagnrýnin máta. Þrátt fyrir að Þjóðkirkjan hafi staðið gegn ýmsum mannréttindamálum hefur fulltrúi Siðmenntar aldrei kallað Þjóðkirkjuna „hatrömm samtök“.

Að sama skapi er ég undrandi á orðum Þorgerðar Katrínar, menntamálaráðherra, sem einnig eru að finna í 24 stundum. Hún heldur því blákalt fram að Siðmennt vilji leggja af litlu jólin og banna jóla- og páskafrí. Þessar fullyrðingar ráðherrans eru ekki í neinu samræmi við stefnu og málflutning Siðmenntar. Siðmennt hefur barist gegn trúboði og trúarinnrætingu í opinberum skólum. Flóknara er það ekki. Ég hefði haldið að talsmenn einstaklingsfrelsis og andstæðingar mikilla ríkisafskipta á þingi væru sammála þessu.

Sjá nánar:
Frétttatilkynning Siðmenntar vegna frumvarps menntamálaráðherra

Með vinsemd og virðingu
Sigurður Hólm Gunnarsson
Stjórnarmaður í Siðmennt

Deildu