Vottar Jehóva bjarga fjölskyldulífinu

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

19/07/2007

19. 7. 2007

Bankað var uppá hjá mér í vinnunni um daginn, en ég vinn á áfangaheimili. Þegar ég opnaði hurðina voru fyrir utan hjón (geri ráð fyrir því) og lítið barn (ca. fjögra ára). Fullorðna fólkið kynnti sig sem Votta Jehóva og bauð mér og íbúum heimilisins velkomið á landsmót Votta Jehóva í ágúst. Létu þau mig […]

Bankað var uppá hjá mér í vinnunni um daginn, en ég vinn á áfangaheimili. Þegar ég opnaði hurðina voru fyrir utan hjón (geri ráð fyrir því) og lítið barn (ca. fjögra ára). Fullorðna fólkið kynnti sig sem Votta Jehóva og bauð mér og íbúum heimilisins velkomið á landsmót Votta Jehóva í ágúst. Létu þau mig fá auglýsingableðil og báðu mig að dreifa honum til íbúanna. Samkvæmt auglýsingableðlinum verður margt hægt að læra á landsmótinu. Þar á meðal hvernig Kristur getur hjálpað þér að:

1) bæta fjölskyldulífið?
2) takast á við flókin vandamál?
3) styrkja sambandið við Guð?
4) standast gegn djöflinum?

og síðast en ekki síst:

5) hljóta eilíft líf?

Undirgefnar konur sem kalla eiginmann sinn „herra“
Það er ekki ætlun mín að fjalla um sambandið við Guð, djöfulinn, eilíft líf og önnur flókin vandamál. Mig langar þó aðeins að benda á hvernig Vottarnir ætla að bæta fjölskyldulífið.

Í auglýsingunni góðu kemur fram að ræða fyrir „[e]iginmenn, eiginkonur, foreldra [og] börn“ verður flutt á umræddu landsmóti sem byggð er á Fyrra Pétursbréfi 2:21 en þar segir:

„Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“

Hvernig hægt verður að búa til heila ræðu um þessar tvær stuttu og innihaldsrýru setningar veit ég ekki. Það er þó eflaust hægt að halda dágóðan pistil um fjölskyldulífið útfrá setningunum sem koma á eftir, því fimm setningum síðar í Fyrra Pétursbréf 3:1-7 segir:

„Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna, þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun. Skart yðar sé ekki ytra skart, hárgreiðslur, gullskraut og viðhafnarbúningur, heldur sé það hinn huldi maður hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrrláts anda. Það er dýrmætt í augum Guðs. Þannig skreyttu sig einnig forðum hinar helgu konur, er settu von sína til Guðs. Þær voru eiginmönnum sínum undirgefnar, eins og Sara hlýddi Abraham og kallaði hann herra. Og börn hennar eruð þér orðnar, er þér hegðið yður vel og látið ekkert skelfa yður.

Og þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina og lífið. Þá hindrast bænir yðar ekki.“

Er ekki dásamlegt að fjallað sé um fjölskyldulíf á þessum nótum árið 2007? Hvað ætli séu annars margir femínistar í Vottum Jehóva?

Deildu