Siðmennt, gullna reglan og trúfrelsi

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

04/11/2006

4. 11. 2006

Nokkuð hefur borið á því að lesendur Morgunblaðsins misskilji andstöðu Siðmenntar, félags siðrænna húmanisma, við Vinaleið Þjóðkirkjunnar í opinberum skólum. Sem dæmi ritaði G. Heiðar Guðnason grein í Morgunblaðið sunnudaginn 29. október og gagnrýndi stefnu Siðmenntar harðlega. G. Heiðar segir m.a.: “Eigum við e.t.v. að banna Gullnu regluna í skólunum vegna þess að hún á […]

Nokkuð hefur borið á því að lesendur Morgunblaðsins misskilji andstöðu Siðmenntar, félags siðrænna húmanisma, við Vinaleið Þjóðkirkjunnar í opinberum skólum. Sem dæmi ritaði G. Heiðar Guðnason grein í Morgunblaðið sunnudaginn 29. október og gagnrýndi stefnu Siðmenntar harðlega.

G. Heiðar segir m.a.: “Eigum við e.t.v. að banna Gullnu regluna í skólunum vegna þess að hún á rætur sínar í Biblíunni?”.


Að minnsta kosti tvennt er athugavert við þessa spurningu G. Heiðars. Fyrst ber að nefna að það er rangt hjá honum að Siðmennt sé á móti kennslu um siðfræði í skólum, eins og hann gefur í skyn. Siðmennt hefur árum saman hvatt skólayfirvöld til þess að efla námsefni í siðfræði og gagnrýnni hugsun. Ekkert er athugavert við að kenna börnum gullnu regluna eða annan siðferðisboðskap, enda hafa siðareglur gildi óháð uppruna sínum. Þannig skiptir ekki máli hver á að hafa boðað gullnu regluna fyrst. Gullna reglan væri ágæt hvort sem það var Jesús eða Tóti trúður sem fann upp á henni fyrst. Þá komum við að seinna atriðinu sem ég vil gagnrýna við ofangreinda spurningu G. Heiðars. Gullna reglan á einmitt ekki rætur í Biblíunni. Gullna reglan er byggð á ævafornum boðskap og var boðuð löngu fyrir meintan tíma Jesú hér á Jörð. Sem dæmi má nefna að Konfúsíus boðaði gullnu regluna mörg hundruð árum fyrir meinta fæðingu Jesú. Dregur það eitthvað úr gildi gullnu reglunar að Konfúsíus boðaði hana á undan Jesú? Nei auðvitað ekki.

Siðmennt er ekki á móti siðferðiskennslu í skólum og Siðmennt er alls ekki á móti því að börn hafi aðgang að fagaðilum. Siðmennt mótmælir einungis því að trúboð fari fram í opinberum skólum sem eiga að vera fyrir alla.

Sigurður Hólm Gunnarsson
Varaformaður Siðmenntar

Þessi grein birtist einnig í Morgunblaðinu 4. nóvember 2006.

Deildu