Kemur kirkjunni ekki við

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

31/01/2006

31. 1. 2006

Merkilegt hefur verið að fylgjast með umræðum síðustu daga um hjónavígslur samkynhneigðra. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, hefur hvatt ríkisstjórnina sérstaklega til að samþykkja ekki lög sem heimila trúfélögum almennt að gefa saman samkynhneigð pör. Fjöldi guðfræðinga og presta á vegum Þjóðkirkjunnar hafa tekið undir orð biskups. Þeir hvetja yfirvöld til að “bíða” með réttarbætur til […]

Merkilegt hefur verið að fylgjast með umræðum síðustu daga um hjónavígslur samkynhneigðra. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, hefur hvatt ríkisstjórnina sérstaklega til að samþykkja ekki lög sem heimila trúfélögum almennt að gefa saman samkynhneigð pör. Fjöldi guðfræðinga og presta á vegum Þjóðkirkjunnar hafa tekið undir orð biskups. Þeir hvetja yfirvöld til að “bíða” með réttarbætur til handa samkynhneigðum þar til Þjóðkirkjan er “tilbúin” til þess að taka afstöðu.


Það getur verið að Þjóðkirkjan sé “ekki tilbúin” til þess að gefa samkynhneigða saman og það getur jafnvel verið að það sé gegn kenningum kirkjunnar. En það sem skiptir mestu máli er að það kemur Þjóðkirkjunni alls ekkert við hvort yfirvöld heimili skráðum trúfélögum að gefa saman fólk af sama kyni sem elskar hvort annað.

Í frjálsu landi mega trúfélög hafa sína skoðun á lífinu og tilverunni, réttindum kvenna, réttindum útlendinga, réttindum samkynhneigðra og öðrum réttindum. Þau eiga hins vegar aldrei að hafa vald til neyða trúarlegar skoðanir sínar upp á aðra þegna landsins. Ef lögum verður breytt á þann veg að trúfélög fá almenna heimild til að gefa saman samkynhneigða þá kemur það Þjóðkirkjunni ekkert við. Enginn er að neyða Þjóðkirkjuna til að breyta sínum reglum, enda koma reglur hennar heldur engum öðrum við en Þjóðkirkjunni sjálfri.

Eru ríki og kirkja ekki aðskilin?
Umræða síðustu daga hefur verið einkar áhugaverð því ýmsir talsmenn kirkjunnar hafa gefið í skyn að Þjóðkirkjan hafi einhverja heimtingu á því að hafa áhrif á almenn lög í landinu. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að í þau fjölmörgu skipti sem ég hef rætt um nauðsyn aðskilnaðar ríkis og kirkju við fulltrúa Þjóðkirkjunnar þá hefur mér alltaf verið sagt að ríki og kirkja séu í raun aðskilin. Fullyrt er að ríkið skipti sér ekki af kirkjunni og að kirkjan skipti sér ekki af ríkinu. Mér er alltaf sagt að tengsl ríkis og kirkju séu aðeins til að nafninu til. Ég vildi óska þess að svo væri.

Ef eitthvað er þá sýnir þessi andstaða Þjóðkirkjunnar við almenn réttindi samkynhneigðra hversu nauðsynlegt það er að aðskilja ríki og kirkju sem fyrst.

Tryggjum mannréttindi
Siðmennt, félag siðrænna húmanista, hvetur alþingismenn til að samþykkja lög um breytingar á hjúskaparlögum þannig að skráð trúfélög öðlist rétt til að gefa saman samkynhneigða einstaklinga. Félagið hefur minnt á að það besta við slík lög er að þau myndu auka réttarstöðu samkynhneigðra umtalsvert án þess að skerða rétt trúfélaga til að taka ákvörðun á eigin forsendum. Það er því enginn sem tapar á þessum lögum, nema sá sem vill neyða sínar skoðanir á samkynhneigðum upp á aðra.

Þessi grein var einnig birt í Fréttablaðinu 31. janúar 2006.

Deildu