Vegna rangfærslna um Siðmennt

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

16/03/2005

16. 3. 2005

Opið bréf til Mörtu Guðjónsdóttur vegna greinarinnar “Hugum að menningararfleifð þjóðarinnar” á www.betriborg.is. Sæl Marta og takk fyrir umræðu þína um trúboð í grunnskólum og afstöðu Siðmenntar á www.betriborg.is. Um leið og ég fagna allri umræðu um þessi mál hlýt ég að krefjast þess að farið sé með rétt mál. Af einhverjum ástæðum ferð þú […]

Opið bréf til Mörtu Guðjónsdóttur vegna greinarinnar “Hugum að menningararfleifð þjóðarinnar” á www.betriborg.is.

Sæl Marta og takk fyrir umræðu þína um trúboð í grunnskólum og afstöðu Siðmenntar á www.betriborg.is. Um leið og ég fagna allri umræðu um þessi mál hlýt ég að krefjast þess að farið sé með rétt mál. Af einhverjum ástæðum ferð þú rangt með stefnu Siðmenntar ansi oft í umræddri grein. Ég vil því fá að svara þér lið fyrir lið til að koma í veg fyrir misskilning um stefnu félagsins í framtíðinni.


Um óljósar upphrópanir og yfirvegaðan málflutning
“Nú fyrir skömmu upphófst umræða um kristinfræðikennslu í grunnskólum með óljósum upphrópunum úr röðum Siðmenntar um að í einhverjum grunnskólum væri kristinfræði haldið að börnum sem boðun fremur en fræðslu.”

Það hafa engar upphrópanir komið frá Siðmenntar, hvað þá óljósar. Allur málflutningur okkar hefur einkennst af yfirvegaðri umræðu um trúfrelsi á Íslandi. Við höfum stutt mál okkar með tilvísun til laga, námskrár, mannréttinda og ótal óvefengjanlegra dæma. Ég vil vinsamlegast biðja þig um að benda mér á hvar málflutningur Siðmenntar hefur einkennst af upphrópunum annars vegar, og óljósum málflutningi hins vegar.

Siðmennt hefur alls ekki “átt í erfiðleikum með” að rökstyðja mál sitt
“Málsvarar Siðmenntar hafa átt í erfiðleikum með að benda á dæmi máli sínu til stuðnings…”

Þetta er alrangt, eins og þú ættir að vita. Eins og fyrr segir eru dæmin mörg og augljós. Hefur þú lesið trúfrelsisstefnu Siðmenntar (sjá: www.sidmennt.is/trufrelsi) og umræðu félagsins um óviðeigandi tengsl trúar og skóla (sjá: www.sidmennt.is/trufrelsi/skoli.php)? Ef þú hefur kynnt þér málflutning Siðmenntar er erfitt að átta sig á því hvers vegna þú heldur þessu fram!

“…á sama tíma og málsvarar Þjóðkirkjunnar og Félags kennara í kristnum fræðum hafa lagt áherslu á að kristinfræði í grunnskólum sé, – og eigi að vera, – fræðsla en ekki boðun.”

Þetta er einmitt eitt af því sem Siðmennt hefur bent á. Í opinberri umræðu eru flestir, en ekki allir, sammála því að skólinn eigi að vera fræðslustofnun en ekki vettvangur trúboðs. Flestir virðast sammála stefnu Siðmenntar þegar þeir tala í fjölmiðlum. Siðmennt hefur hins vegar bent á fjöldamörg skýr dæmi þar sem námsskrá, lög, námsefni og kennsluhættir fara gegn þessari stefnu, sem flestir virðast vera sammála.

Siðmennt er ekki á móti kennslu um kristna trú
“Undanfarna daga hafa svo ýmsir haldið því fram að réttast væri að leggja kristinfræðikennslu niður í grunnskólum og taka upp trúarbragðakennslu í staðinn.”

Fulltrúar Siðmenntar hafa, bæði í ræðu og riti, bent á að það sé ofureðlilegt að börn læri um kristna trú í skólum. Einnig hefur verið bent á að eðlilegt sé að börn læri meira um kristna trú en önnur trúarbrögð, einfaldlega vegna þess að kristni hefur verið ríkjandi hér um aldir og hefur haft gífurleg áhrif á land og þjóð. Það eina sem Siðmennt hefur gert athugasemdir við er þegar trúboð og bænahald er stundað í skólum. Hlutlæg fræðsla um kristni er ekki bara eðlileg heldur nauðsynleg. Jafnframt er nauðsynlegt að börn læri um önnur trúarbrögð og aðra menningarheima. Umburðarlyndi byggist á þekkingu. Þar sem Siðmennt hefur alltaf verið þessarar skoðunar fæ ég ómögulega skilið hvers vegna þú skrifar eins og félagið sé á móti því að börnum sé kennt um kristni.

“Sjálfstæðismenn í Menntaráði bentu hins vegar á að Aðalnámsskrá sé á höndum menntamálaráðuneytisins en ekki sveitarfélaganna.”

Auðvitað sér menntamálaráðuneytið um aðalnámsskrá. Starfshættir skóla í Reykjavík eru hins vegar, að einhverju leiti, á ábyrgð sveitarfélagsins. Ef trúboð og bænahald fer fram í skólum í Reykjavík (sem allir virðast vera sammála um að sé óeðlilegt) þá er það í ykkar verkahring að sjá til þess rétt sé staðið að málum. Koma starfshættir skóla i Reykjavík ekki Menntaráði við?

Trúboð “að sjálfsögðu” ekki hlutverk almenna grunnskóla
“Að sjálfsögðu er það ekki hlutverk hins almenna grunnskóla að boða nemendum sínum tiltekin trúarbrögð, enda hefur hann ekki gert það um áratuga skeið og enginn haldið því fram að svo eigi að vera. Í þeim efnum berst Siðmennt við vindmyllur.”

Horfir þú ekki á fréttir? Fyrir utan öll þau ótal dæmi sem Siðmennt hefur bent á hefur það komið skýrt fram í fjölmiðlum að bænahald fer skipulega fram í sumum skólum. Er bænahald kannski ekki trúboð? Fjölmargir kristnir einstaklingar hafa haft samband við félagið vegna þess að opinberir skólar láta börn þeirra fara með bænir og trúarjátningar sem samræmist ekki þeirra túlkun á kristni. Þar sem ég treysti því að þú hafir kynnt þér málflutning Siðmenntar áður en þú lagðist í þessi skrif undrast ég hvers vegna þú telur þig þurfa að fara með rangt mál. Dæmin um trúboð í opinberum skólum eru mörg, skýr og óvefengjanleg.

“Þeir sem mæla með því að grunnskólarnir leggi af kristinfræðikennslu og taki í hennar stað upp trúarbragðafræðslu ættu að kynna sér málið betur því trúarbragaðkennsla fer fram í öllum grunnskólum í 8. bekk þar sem nemendur fá fræðslu um öll helstu trúarbrögð heims. Hingað til hefur verið talið eðlilegt og rökrétt að börn fræðist fyrst um sögu og sérkenni síns eigin lands og þjóðar áður en hugað er að fjarlægum löndum, mannkynssögu og framandi menningu í öðrum heimsálfum. Virðing fyrir öðrum byggir á sjálfsvirðingu og sá sem ekkert veit um eigin menningararfleifð er ekki líklegur til að meta eða umbera framandi menningareinkenni. Kristinfræðikennslan er því hluti þeirrar kennslu sem veitt er um íslenskan menningararf. Þannig t.d. læra grunnskólanemar fyrst um sitt eigið tungumál, áður en þeir fá kennslu í erlendum tungumálum.“

Hér er Siðmennt sammála þér í öllum atriðum, nema þegar þú heldur því ranglega fram að Siðmennt sé á móti kennslu um kristna trú. Þú talar máli Siðmenntar en gagnrýnir félagið fyrir að hafa skoðun sem þú veist (eða í það minnsta ættir að vita) að það hefur ekki. Siðmennt fagnar hlutlægri fræðslu um trúarbrögð en mótmælir þeim trúaráróðri og þeirri boðun sem vissulega á sér stað í mörgum skólum í dag. Taktu eftir kjarna málsins. Við viljum fræðslu en ekki trúboð og ástundun í opinberum skólum. Siðmennt hefur aldrei haldið öðru fram.

“En, hvað á Siðmennt við með því að breyta námsskrá „í átt til fjölmenningar og trúfrelsi“? Mættu kennarar þá ekki kveikja á kerti á kennaraborðinu á aðventunni? Mættu skólabörn þá ekki syngja „Bráðum koma blessuð jólin“ á litlu jólunum fyrir jólafríið? Mætti kannski ekki halda litlu jólin í skólanum, – eða gefa jólafrí í skólanum? Yrði kannski kennt á jóladag? Og hvað með páskana og páskafríið?”

Enginn hefur lagt til að jólafrí og páskafrí verði lögð af í skólum. Ef þú hefur kynnt þér málflutning Siðmenntar (ég geri ráð fyrir því þar sem þú ert að gagnrýna stefnu félagsins) veistu að hvergi er neitt slíkt lagt til. Börn eiga einfaldlega ekki að þurfa að fara með trúarlegar játningar í opinberum skólum. Það er ekkert að því að hafa gaman um jól og páska (til gamans má líka taka fram að hvoru tveggja eru heiðnar hátíðir) svo lengi sem trúboð á sér ekki stað. Nú, ef börn koma frá heimilum þar sem það er beinlínis talið guðlast að halda upp á jól (t.d. vegna þess að það er heiðin hátíð) þá á það aðvitað að vera sjálfsagt að bera virðingu fyrir því.

“Trú er lífsviðhorf. Trúleysi er einnig lífsviðhorf. Og það lífsviðhorf Siðmenntar er alls ekkert merkilegra, eðlilegra, skynsamlegra en lífsviðhorf hinna trúuðu Þessu þurfa málsvarar Siðmenntar að huga að.”

Ég er málsvari Siðmenntar og hef aldrei haldið því fram að mitt lífsviðhorf sé rétthærra en lífsviðhorf trúaðra! Enda berst ég ekki fyrir sérréttindum trúlausra, heldur trúfrelsi allra. Siðmennt berst ekki fyrir því að sungnir verði trúleysissöngvar og að börn verði látin fara með trúleysisjátningar í skólum. Þvert á mót berst Siðmennt gegn afskiptum yfirvalda af lífsskoðunum fólks. Yfirvöld eiga að tryggja trúfrelsi manna, ekki boða trú. Þessi afstaða Siðmenntar er einnig skýr og óumdeild. Fullyrðingar um annað geta ekki verið á rökum reistar.

“Þeir þurfa einnig að gera sér grein fyrir þeirri staðreynd að umfjöllun þeirra og kröfur síðustu daga eru ekki einungis aðför að kristinni trú, heldur einnig að íslenskum menningararfi, að sögu þjóðarinnar.”

Hvernig í ósköpunum er krafan um trúfrelsi og umburðarlyndi aðför að kristinni trú og sögu þjóðarinnar? Það er vægast sagt óviðeigandi að gera öðru fólki upp hugmyndir með þessum hætti. Þú byggir grein þína á röngum forsendum og dregur því eðlilega af þeim rangar ályktanir. Sá sem þetta skrifar berst með kjafti og klóm fyrir því að virðing sé borin fyrir öllum lífsskoðunum og að allir hafi rétt til þess að ástunda sína trú í friði fyrir afskiptum hins opinbera.

Nú þegar þú ættir að vita fyrir hvað Siðmennt stendur og hvers vegna, vænti ég þess að þú leiðréttir málflutning þinn um félagið á sama vettvangi.

Með vinsemd og virðingu
Sigurður Hólm Gunnarsson
Varaformaður Siðmenntar

Ítarefni:
Hugum að menningararfleifð þjóðarinnar
grein eftir Mörtu Guðjónsdóttur á www.betriborg.is.

Stefna Siðmenntar í trúfrelsismálum á www.sidmennt.is.

Deildu