Er trúfrelsi á Íslandi? Hvers vegna er trúfrelsi mikilvægt?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

19/02/2005

19. 2. 2005

Erindi flutt á opnu málþingi um trúfrelsi í tengslum við flokksráðsfund Vinstri Grænna á Grand Hótel Reykjavík laugardaginn 19. febrúar 2005. Fundarstjóri, kæru fundarmenn. Ég vil þakka fyrir að fá tækifæri til að ræða við ykkur um trúfrelsi og umburðarlyndi í trúmálum. Eins og fram hefur komið sit ég bæði í stjórn SARK – Samtaka […]

Erindi flutt á opnu málþingi um trúfrelsi í tengslum við flokksráðsfund Vinstri Grænna á Grand Hótel Reykjavík laugardaginn 19. febrúar 2005.

Fundarstjóri, kæru fundarmenn. Ég vil þakka fyrir að fá tækifæri til að ræða við ykkur um trúfrelsi og umburðarlyndi í trúmálum. Eins og fram hefur komið sit ég bæði í stjórn SARK – Samtaka um aðskilnað ríkis og kirkju, og Siðmenntar, félagi siðrænna húmanista á Íslandi. Bæði þessi félög hafa um árabil barist fyrir fullu trúfrelsi á Íslandi.


Mig langar að segja ykkur í stuttu máli frá hugmyndum þessara samtaka um trúfrelsi og hvers vegna ég tel mikilvægt að fullt trúfrelsi manna sé tryggt.

Til að byrja með vill ég fjalla örstutt um stefnu SARK og Siðmenntar

Í stefnuskrá SARK segir meðal annars að:

“Samtökin skulu beita sér fyrir jafnrétti og lýðræði í trúmálum með afnámi 62. greinar stjórnarskrárinnar, en þar segir: „Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.” Auk þess beiti samtökin sér fyrir afnámi allra sérréttinda þjóðkirkjunnar í stjórnarskránni og lögum.”

Í stefnuskrá SARK segir einnig:

“Samtökin eru andvíg einhliða trúfræðslu í grunnskólum. Trúfræðikennsla kynni nemendum helstu trúarbrögð heims án hlutdrægni.”

Að sama skapi segir í trúfrelsisstefnu Siðmenntar:

“Stjórn Siðmenntar telur að markmið stjórnvalda eigi að vera að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur. Þess vegna verður að aðskilja ríki og kirkju. Aðskilnaður ríkis og kirkju felur m.a. í sér að jafna lagalega, fjárhagslega og félagslega stöðu þeirra hópa sem aðhyllast ólíkar lífsskoðanir. Öðruvísi verður trúfrelsi ekki tryggt.”

– tilvitnun lýkur.

Er trúfrelsi á Íslandi?
Áður en lengra er haldið er ekki úr vegi að velta fyrir sér þeirri grundvallarspurningu hvort trúfrelsi sé á Íslandi. Í ljósi tilveru og stefnu samtaka á borð við SARK og Siðmenntar kann þetta að hljóma sem undarleg spurning en þegar nánar er skoðað er hún það í raun ekki. Ýmsir ráðamenn og embættismenn hafa margsinnis haldið því fram að á Íslandi ríki fullt trúfrelsi þrátt fyrir tengsl ríkis og kirkju. Bent er á að þó ríki og kirkja séu formlega samtengd halli það ekki á trúfrelsi einstaklinga. Hér á landi sé öllum frjálst að trúa hverju sem er og Þjóðkirkjan ráði sér í öllum helstu málum sjálf.

Þessi málflutningur er í besta falli villandi. Þó það sé rétt að engin lög banni almenningi beinlínis að trúa því sem hann vill þá reynir ríkisvaldið með margvíslegum hætti að hafa áhrif á trúarskoðanir fólks, hvort sem það er nú gert viljandi eður ei. Vil ég hér nefna stuttlega átta augljós dæmi máli mínu til stuðnings.

EITT: Stjórnarskráin
Fyrst ber að nefna að hin evangelíska lúterska kirkja nýtur, eins og þið vitið, sérstakrar verndar í stjórnarskrá Íslands.

Eins og áður segir stendur í 1. málsgrein 62. greinar sjónarskrárinnar:

„Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“

Ljóst er að þessi málsgrein er bersýnilega í mótsögn við 1. málsgrein 65. greinar sömu stjórnarskrár þar sem segir að:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða,[og svo framvegis] (skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.)“

Til að uppfylla kröfur um hlutleysi yfirvalda gagnvart ólíkum lífsskoðunum verður að fella niður sérstaka vernd eins trúfélags umfram önnur í stjórnarskrá.

TVÖ: Fjárhagsleg mismunun
Fjárhagsleg tengsl eru milli ríkisins og Þjóðkirkjunnar annars vegar og ríkisins og trúarbragða hins vegar sem hljóta að teljast óeðlileg ef trúfrelsi á að ríkja.

Í þessu sambandi má nefna að ríkisvaldið greiðir enn laun presta og annarra starfsmanna Þjóðkirkjunnar.

Ríkisvaldið sér einnig um að rukka sóknargjöld fyrir trúfélög. Hver einn og einasti þegn landsins er rukkaður um ca. 6000 krónur á ári í gegnum skattkerfið sem renna beint í þá sókn eða það trúfélag sem viðkomandi er skráður í. Ef viðkomandi einstaklingur er ekki í skráðu trúfélagi eða er trúlaus ber honum samt að borga þessar 6000 krónur sem renna þá til Háskóla Íslands. Því má segja að þeim sem standa utan trúfélaga sé refsað fyrir það því þeim er gert að borga aukalega um 50 milljónir á ári til Háskólamenntunar. Þeir sem aðhyllast húmanískar lífsskoðanir eins og þær sem Siðmennt boðar geta enn sem komið er ekki valið að láta sóknargjöld sín renna til þesskonar félaga. Þetta er ólíkt því sem gerist í Noregi, en þar geta einstaklingar látið sóknargjöld sín renna til Human Etisk Forbund, sem er norskt systurfélag Siðmenntar.

ÞRJÚ: Trúboð og hlutdræg kennsla
Trúboð er stundað í mörgum opinberum skólum. Það fer eftir kennurum og skólastjórnendum hversu mikið og augljóst trúboðið er en námsskrár skólanna gera reyndar ráð fyrir því að skólar boði kristilegt uppeldi. Ef kennarar fara eftir námsskrá neyðast þeir til að stunda trúboð.

Í námskrá grunnskóla stendur m.a. að:

„Kristilegt siðgæði [eigi] að móta starfshætti skólans…“

og að nemendur eigi að gera sér:

„…grein fyrir því hvaða þýðingu krossdauði Jesú og upprisutrúin hefur fyrir kristna einstaklinga andspænis dauðanum og þá von sem henni tengist“.

Tilgangur kristin“fræðslunnar“ er svo samkvæmt námsskrá að:

„[efla] trúarlegan… þroska [nemenda]“

Og að

“[Nemendur] öðlist þekkingu á kristinni trú á Guð, föður, son og heilagan anda, einkum Jesú Krist og kenningu hans, og skilji áhrif fagnaðarerindisins á einstaklinga og samfélög.”

Í fjölmörgum kennslubókum í kristnum fræðum er fjallað um goðsögur og kenningar kristinnar trúar eins og um sagnfræðilegar staðreyndir séu um að ræða. Yfirleitt er ekki tekið fram að um sé að ræða goðsögur eins og þær sem eru sagðar um Óðinn og Þór svo dæmi sé tekið.

Þessi einhliða boðskapur er predikaður yfir öllum börnum nema að foreldrar og forráðamenn óski sérstaklega eftir því að börnum þeirra verði hlíft. Þetta veigra forráðamenn sér eðlilega við að gera því þá lenda börn þeirra jafnvel í því að þurfa að hanga ein fram á gangi á meðan kristinfræðslan á sér stað. Mörg dæmi eru um að börnin sjálf óski eftir því að vera í kristinfræði einfaldlega vegna þess að þau óttast að annars verði þeim strítt. Einelti þekki ég sjálfur af eigin raun og ég fullyrði að það er ekki auðvelt að vera öðruvísi í grunnskóla.

Ég er með í höndunum mörg nýleg dæmi um að heilu skóladögum sé eytt í að kenna börnum að semja og fara með kristnar bænir og stundum kemur fyrir að farið er með börn í messur á skólatíma og þá jafnvel án leyfis foreldra. Til eru kennarar sem láta nemendur sínar fara með bænir um Jesú Krist á hverjum morgni. Í sumum tilfellum með vitund og stuðning skólastjórnenda.

Þar að auki er það regla fremur en undantekning að fermingarfræðslu Þjóðkirkjunnar er komið fyrir inn í miðri stundaskrá nemenda þannig að ferming lítur út fyrir að vera hluti af eðlilegu skólastarfi. “Fæ ég skróp ef ég mæti ekki í fermingarfræðslu?” spyrja sumir krakkarnir eðlilega. Í sumum tilfellið er svarið sem þeir fá “JÁ”.

Trúfélög fá að koma inn í kennslutíma til að boða trú og gefa Biblíur á meðan félögum eins og Siðmennt er bannað að kynna afstöðu sína. Á göngum grunnskóla er víðs vegar að finna auglýsingar frá trúfélögum, þá aðallega Þjóðkirkjunni. Siðmennt fær ekki leyfi til slíkra kynninga. Siðmennt hefur reyndar ekki óskað eftir því að kynna starfsemi sína í grunnskólum, eða haft mikinn áhuga á því. Nokkrir kennarar hafa hins vegar óskað eftir slíkri kynningu en þá hafa skólastjórnendur alltaf brugðist hart við og lagt blátt bann við því að börnin fái að kynnast stefnumálum Siðmenntar eða borgaralegri fermingu.

FJÖGUR: Alþingi Íslendinga
Það kemur trúlausum og þeim sem ekki eru kristnir spánskt fyrir sjónir að alþingi allra Íslendinga skuli hefjast hvert ár með messu og bænagjörð. Það er tæpast hlutverk alþingismanna að hlusta á predikanir um gildi kristninnar og fara með bænir. Alþingi á að vera veraldleg stofnun en ekki kirkjuleg. Hvað ef múslimi sæti á Alþingi, eða trúleysingi? Færi hann í kirkju eða fengi hann að sitja einn út á gangi eins og sum þeirra barna sem vilja ekki fara í kristinfræðslu í skólum?

FIMM: Helgidagalöggjöfin
Almenningi er bannað samkvæmt lögum að vinna á helgidögum kristintrúarmanna.

Vegna óeðlilegra tengsla ríkis og kirkju eru atvinnulífinu settar skorður af trúarlegum ástæðum. Einu sinni máttu menn ekki vinna á sunnudögum og enn mega menn ekki vinna á hinum ýmsu hátíðisdögum kristninnar. Hvenær fólk vinnur eða tekur sitt frí ætti að vera samningsatriði á milli launþega og atvinnuveitenda, ekki launþega og kirkjuyfirvalda. Í Bandaríkjunum var hin svokallaða sunnudagslöggjöf, sem bannaði mönnum að vinna á sunnudögum, felld úr gildi vegna þrýstings þeirra sem ekki voru kristnir, einna helst gyðinga. Bókstafstrúaðir gyðingar gátu ekki, trúar sinnar vegna, unnið á laugardögum (sem er helgidagur þeirra) og var bannað af ríkinu að vinna á sunnudögum (helgidegi kristinna). Gyðingar og aðrir þeir sem héldu laugardaginn heilagan voru því neyddir til að taka sér frí í tvo daga í staðinn fyrir einn. Þetta þýddi augljóslega mikið óréttlátt fjárhagslegt tap sem menn gátu ekki sætt sig við til lengdar. Sama gildir um íslensk lög sem banna mönnum að vinna á jólum og páskum.

Ekki vil ég leggja til að almennum frídögum verði fækkað en mér þykir undarlegt að ég, sem er trúleysingi, megi ekki vinna fyrir mér á jóladag ef ég kýs að gera svo.

SEX: Börn eru skráð sjálfkrafa í trúfélag móður
Eins og staðan er í dag eru ómálga börn skráð sjálfkrafa í trúfélag móður sinnar. Ríkið á ekki að hafa milligöngu í því að skrá börn í trúfélög frekar en önnur félög. Foreldrar ættu sjálfir að sjá um skrá börn sín í trúfélög ef þeim finnst eðlilegt að börn séu yfirleitt skráð í slík félög.

SJÖ: Grafreitir eru undir stjórn kirkjunnar
Eðlilegt er að grafreitir séu kallaðir grafreitir en ekki kirkjugarðar og séu undir stjórn sveitarfélaga en ekki eins ákveðins trúsöfnuðar.

ÁTTA: Guðfræðideild Háskóla Íslands
Óeðlilegt hlýtur að teljast að ríkisvaldið kosti og sjái um þjálfun prestastéttar eins trúfélags. Annað hvort þarf að fjölga trúfræðideildum við HÍ sem nemur þeim fjölda trúarbragða sem hér eru stunduð, eða það sem eðlilegra er, að leggja Guðfræðideild HÍ niður og leyfa kirkjunni sjálfri að reka sinn trúarbragðaskóla.

Þessi upptalning á því sem ég kalla óeðlileg tengsl ríkis og trúar er ekki tæmandi en ætti að gefa ykkur ágæta hugmynd um helstu baráttumál SARK og Siðmenntar og því umhverfi sem við búum við í trúfrelsismálum hér á landi.

Hvers vegna er trúfrelsi mikilvægt?
Að lokum vil ég fá að ræða í stuttu máli hvers vegna það er mikilvægt að trúfrelsi manna og hlutleysi stjórnvalda sé tryggt.

Krafan um fullt trúfrelsi og aðskilnað ríkis og kirkju er siðferðileg krafa um frelsi og jafnrétti. Þeir sem eru fylgjandi frelsi og jafnrétti manna hljóta að vera fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju og að ólík staða mismunandi lífsskoðanahópa verði jöfnuð. Trúfrelsi er einnig það sem gullna reglan boðar. Menn eiga að koma fram við aðra rétt eins og þeir vilja að aðrir komi fram við sig. Ólíklegt er að kristnum stæði á sama ef að þeir byggju í samfélagi þar sem múslímar hefðu þau forréttindi sem Þjóðkirkjan hefur hér í dag.

Að styðja fullt trúfrelsi er að styðja umburðarlyndi og réttlæti. Stuðningur við trúfrelsi er stuðningsyfirlýsing við frelsi manna til að stunda þá lífsskoðun sem þeir sjálfir kjósa svo lengi sem þeir ganga ekki á hlut annarra. Trúfrelsi er það ástand þegar við viljum styðja mannréttindi og friðhelgi einkalífsins fremur en vald meirihlutans til að stjórna lífi þeirra sem eru í minnihluta.
___

Að endingu vek ég athygli á því hér eiga að liggja frammi nokkur eintök af Trúfrelsisstefnu Siðmenntar, Stefnuskrá SARK og niðurstöðu Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í máli er snertir kennslu í kristnifræði í Noregi. Athyglisvert er að Mannréttindanefndin tekur undir fyrrgreind sjónarmið SARK og Siðmenntar í öllum meginatriðum.

Annars þakka ég gott hljóð og hlakka til að fá að taka þátt í góðum umræðum hér á eftir.

Takk fyrir.

Deildu