Það er alltaf gaman að sjá þegar Frjálslyndi flokkurinn stendur undir merkjum og berst fyrir frjálslyndi. Þingsályktunartillaga þingmanna Frjálslynda flokksins um alþýðlegan klæðaburð alþingismanna í þingsal og ávarpsvenjur er frábær. Ekkert er eins kjánalegt og að þingmenn, sem venjulega eru hvattir til að sýna sjálfstæði og einstaklingseðli, séu síðan neyddir til að klæðast búningi hjarð- og stofnannamennsku í þingsal.
Alþingismenn eru kosnir til starfa af þjóðinni vegna þeirra hugsjóna sem þeir standa fyrir. Því er eðlilegt að þingmenn séu með fjölbreyttan bakgrunn, aðhyllist ólíkar hugsjónir og séu ekki allir í viðskiptum við sama klæðskerann. Það er eitthvað verulega óeðlilegt við það allir þeir sem kosnir eru á þing geti ekki mætt í vinnuna nema vera klæddir í einkennisbúning briddsfélaga lögmannafélagsins og KB banka. Væri ekki hressandi að fá fleiri pönkara, rokkara og blómabörn inn á þing sem eru í meiri tengslum við þorra almennings enn sá lögfræðingaskari sem nú safnar eftirlaunum á þingi?
Smáborgaraleg rök hafa heyrst í kjölfar tillögu Frjálslynda flokksins þar sem því er haldið fram að með tillögunni sé vegið að virðingu Alþingis. Hvernig í ósköpunum? Eru þeir sem ekki ganga um með bindi strekkt um hálsinn alla daga ekki jafn virðulegir og bindiskallarnir? Þvílíkur hroki.
Frjálslyndi flokkurinn leggur einnig til að dregið verði úr stífum ávarpsvenjum á Alþingi. Þeirri tillögu ber einnig að fagna. Það er ekkert eins aumt og óvirðulegt þegar þingmenn eru kurteisir og “virðulegir” af því þeir eru neyddir til þess. Hvers vegna eiga alþingismenn að ávarpa alla þingmenn og ráðherra sem “hæstvirta” ef þeir bera í raun enga eða litla virðingu fyrir þeim sem þeir eru að ávarpa? Persónulega kann ég vel að meta fólk sem er kurteist og yfirvegað í málflutningi sínum. Ekki vegna þess að það er neytt til þess, heldur vegna þess að það veit að kurteisi og virðing fyrir náunganum er skynsamleg og margborgar sig.