Ný skoðanakönnun Gallup staðfestir að mikill meirihluti þjóðarinnar er á móti stuðningi íslenskra stjórnvalda við stríðið í Írak. Meira en 80% vilja að Ísland verði tekið af lista “hinna viljugu”. Þótt flestir andstæðingar stríðsins byggi afstöðu sína á siðferðilegum og hugmyndafræðilegum forsendum verður ekki sagt það sama um talsmenn stjórnvalda. Sólveig Pétursdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í fréttum í dag að stuðningur stjórnvalda við stríðið væri réttlætanlegur á þeim forsendum að það væri í samræmi við utanríkisstefnu Íslands að “standa með sínum bandamönnum”. Hvernig getur nokkur maður réttlætt mannskæð stríð með þessum rökum? Hversu mörg mannréttindi þurfa “bandamenn okkar” að brjóta til þess að við hættum að standa með þeim? Stöndum við með “okkar liði” hvað sem á gengur? Það er fátt eins ömurlegt og stjórnmálamenn sem kjósa að haga sér eins og klappstýrur.
Innrásin í Írak – Ekki í okkar nafni!
Hringið í síma 90 20000 og leggið þannig fram 1.000 kr. (eitt þúsund krónur) til að kosta birtingu yfirlýsingarinnar.
Einnig má leggja frjáls framlög á bankareikning 1150-26-833 í SPRON (Þjóðarhreyfingin: kt. 640604-2390).
Verði afgangur af söfnunarfénu, rennur hann óskiptur til Rauða kross Íslands til hjálpar stríðshrjáðum borgurum í Írak.