Meira lýðræði, ekki minna

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

21/07/2004

21. 7. 2004

Nú þegar fulltrúar forsjárhyggjunnar á þingi hafa tapað baráttunni við þjóðina og neyðst til að draga öll fjölmiðlafrumvörpin sín til baka hafa þeir nær samstundis lagt til að stjórnarskrá landsins verði breytt. Markmiðið er að skerða lýðræðisréttindi landsmanna svo almenningur geti ekki lengur truflað hið háa alþingi óþarflega mikið með skoðunum sínum og kosningarétti. Frjálslyndir […]

Nú þegar fulltrúar forsjárhyggjunnar á þingi hafa tapað baráttunni við þjóðina og neyðst til að draga öll fjölmiðlafrumvörpin sín til baka hafa þeir nær samstundis lagt til að stjórnarskrá landsins verði breytt. Markmiðið er að skerða lýðræðisréttindi landsmanna svo almenningur geti ekki lengur truflað hið háa alþingi óþarflega mikið með skoðunum sínum og kosningarétti.

Frjálslyndir menn telja að það sé fyrst og fremst hlutverk hins almenna borgara að veita yfirvöldum aðhald en ekki öfugt. Þeir sem aðhyllast forsjárhyggju telja hins vegar að yfirvöld eigi sífellt að hafa vit fyrir almenningi. Fulltrúar forsjárhyggjunnar telja að örfáir alþingismenn eigi að geta tekið afar óvinsælar ákvarðanir. Ákvarðanir sem “vitrir stjórnmálamenn” skilja en sauðsvartur almúginn skilur ekki fyrr en kannski seinna. Kjörorð forsjárhyggjunnar eru: “Við vitum betur”.

Vald eins yfir öðrum er í eðli sínu vont en reynist þó stundum nauðsynlegt til að tryggja frelsið, hversu þversagnakennt sem það kann nú að hljóma. Þess vegna styðja frjálslyndir lýðræðissinnar ákveðna tegund af ríkisafskiptum til að koma í veg fyrir að menn brjóti hver á öðrum. Ágætt dæmi um slík ríkisafskipti eru einhverjar reglur um fjölmiðla til að tryggja tjáningarfrelsið. Völd eru hins vegar þess eðlis að þau eru hægt að nota bæði til góðs og ills. Því hlýtur það að teljast skynsamlegt að dreifa völdum eins og kostur er. Því ber að hafna öllum hugmyndum um aukið vald þings og ríkis á kostnað hins almenna borgara. Er því ástæða til að hvetja ráðamenn til að auka rétt almennings til að hafa áhrif á stjórnvaldsaðgerðir. Frelsisunnendur vilja meira lýðræði, ekki minna.

Þeir stjórnmálamenn sem nú eru tapsárir eftir baráttuna um fjölmiðlalögin ættu því að hugsa sig tvisvar um áður en þeir ákveða að reyna að skerða rétt almenning til að hafa áhrif sitt eigið umhverfi. Er þessum orðum sérstaklega beint til þeirra þingmanna sem telja sig standa vörð um lýðræðið og frelsi einstaklingsins.

Deildu