Siðlaust trúboð

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

11/05/2004

11. 5. 2004

Sjónvarpsstöðin Ómega, sem er sögð í eigu Jesú Krists, er þekkt fyrir að sjónvarpa alls konar fordómum og vitleysu. Það er réttur þeirra sem standa að stöðinni enda ríkir málfrelsi enn hér á landi. Algerlega óverjandi er hins vegar hvernig aðstandendur stöðvarinnar nýta sér aftur og aftur varnarleysi fólks sem augljóslega á við erfið geðræn […]

Sjónvarpsstöðin Ómega, sem er sögð í eigu Jesú Krists, er þekkt fyrir að sjónvarpa alls konar fordómum og vitleysu. Það er réttur þeirra sem standa að stöðinni enda ríkir málfrelsi enn hér á landi. Algerlega óverjandi er hins vegar hvernig aðstandendur stöðvarinnar nýta sér aftur og aftur varnarleysi fólks sem augljóslega á við erfið geðræn vandamál að stríða. Það hljóta að vera einhver lög sem ná yfir þessa misnotkun? Eitt er víst, það er fátt eins siðlaust og að misnota veikt fólk, hvort sem sá gjörningur er löglegur eða ekki.

Geðfatlaðir misnotaðir
Ég hef líklegast sjaldan orðið eins reiður og þegar ég skipti fyrir tilviljun yfir á sjónvarpstöðina Ómega í fyrradag. Eins og svo oft áður var einhver þáttarstjórnandinn að taka viðtal við gest, sem í þetta sinn var ung kona. Þessi unga kona var að segja frá því hvernig hún „frelsaðist“ til trúar á Jesú Krist og hvað henni þætti Ómega frábær sjónvarpsstöð. Ekki óvenjulegt viðtal, enda fjalla næstum öll viðtöl á þessari stöð um „frelsun“ einstaklinga og um hvað Ómega er frábær stöð. Að sjálfsögðu var verið að safna fyrir einhverjum nýjum sjónvarpssendi og voru áhorfendur hvattir til þess að hjálpa „drottni“ með peningagjöfum á milli þess að unga konan sagði frá reynslu sinni af Jesú.

Það var þó ekki þessi gengdarlausi og barnalegi trúaráróður sem reitti mig til reiði. Heldur sú staðreynd að unga konan sem var að flytja „vitnisburð“ um „frelsun“ sína átti augljóslega við geðræn vandamál að stríða. Konan talaði um að hún hefði frá um tólf ára aldri átt fjöldamörg samtöl við „djöfla“ og aðrar verur og það sem meira er fullyrti hún að henni hefði margsinnis verið nauðgað af djöflinum sjálfum. Lýsti hún nauðgununum sem raunverulegum líkamlegum árásum. Skýrari merki um geðsjúkdóm eru vart til.

Augljós merki geðklofa
Það voru ekki bara þessar ítarlegu lýsingar konunnar á samskiptum sínum við djöfulinn sem gáfu það til kynna að hún ætti við geðræn vandamál að stríða. Fas hennar, líkamleg tjáning og talsmáti voru einnig augljós merki. Þar að auki minntist hún einnig á að hún hefði lengi átt erfitt með svefn og hefði á tímabili haft mikinn áhuga á dulspeki. Þessi frásögn gefur sterklega til kynna að konan þjáist af geðklofa, sem er mjög alvarlegur geðsjúkdómur. Sjúkdómur sem nauðsynlegt er að hún fái viðeigandi meðferð við sem allra fyrst.

Á vefsíðunni www.doktor.is segir meðal annars um geðklofa (schizophrenia):

Svefntruflanir, einbeitingarerfiðleikar, tvíbendni, truflanir á tilfinningasviðinu, vímuefnamisnotkun og mikill áhugi á dulspekilegum efnum geta einnig verið í sjúkdómsmyndinni. Hjá flestum koma tímabil með ofskynjunum, ranghugmyndir (oft með furðulegum hugmyndum eða ofsóknarhugmyndum) og/eða samhengislitlu tali.

[…]

Sjálfsvíg eru algeng meðal ungra geðklofasjúklinga.

Siðblinda á hæsta stigi
Geðklofi er eins og áður segir alvarlegur sjúkdómur og því er nauðsynlegt að þeir sem þjást af honum fái sem fyrst viðeigandi meðferð en séu ekki misnotaðir af fégráðugum og siðspilltum trúboðum. Ég fullyrði að þeir sem nýta sér veikindi fólks með þessum hætti eru bæði fégráðugir og siðspilltir. Aðstandendur stöðvarinnar misnota ekki aðeins geðfatlaða heldur taka þeir blygðunarlaust undir ranghugmyndir þeirra sem hlýtur að draga úr líkum þess sjúklingarnir leiti sér aðstoðar.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég verð vitni að því að alvarlega veik manneskja er notuð til að safna peningum „til dýrðar Jesú“ á þessari stöð. Aftur og aftur komast þessir menn upp með þennan ósóma og enginn virðist gera neitt.

Hvar eru hagsmunasamtök geðfatlaðra? Hvar er löggjafinn? Hvar eru fulltrúar trúfélaga sem setja sig upp á móti svona misnotkun? Styður Þjóðkirkjan þessa stöð? Þessa misnotkun þarf að stöðva og það strax!

Deildu