Breytingum á lögum um útlendinga mótmælt

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

06/04/2004

6. 4. 2004

  Tökum öll þátt í þverpólitískri undirskriftasöfnun gegn þingmáli nr. 749 áhttp://www.deiglan.com/undirskrift/     Fjölmenningarráð og Félag kvenna af erlendum uppruna á Íslandi(W.O.M.E.N. – Women Of Multicultural Ethnicity Network) hafa harðlega gagnrýnt nýtt frumvarp til laga um breyting á lögum um útlendinga. Hafa þessi félög réttilega bent á að verði það samþykkt er verið að […]

 

Tökum öll þátt í þverpólitískri undirskriftasöfnun gegn þingmáli nr. 749 á
http://www.deiglan.com/undirskrift/

 

 

Fjölmenningarráð og Félag kvenna af erlendum uppruna á Íslandi
(W.O.M.E.N. – Women Of Multicultural Ethnicity Network) hafa harðlega gagnrýnt nýtt frumvarp til laga um breyting á lögum um útlendinga. Hafa þessi félög réttilega bent á að verði það samþykkt er verið að skerða mannréttindi innflytjenda verulega.

Sendu eftirfarandi skeyti á þingmenn*:

Kæri alþingismaður
Ég mótmæli harðlega væntanlegum breytingum á Lögum um útlendinga og tek undir gagnrýni Fjölmenningarráðs og W.O.M.E.N.

NAFN: Jón Jónsson (þitt nafn)

KENNITALA: 01020304-7899 (þín kennitala)

Smelltu hér til að senda tilbúinn póst (fer á alla alþingismenn og á utlendingalog@skodun.is**)

(Ef ofangreindur tengill virkar ekki í þínum vafra getur notað þennan tengil. Þá þarftu að afrita ofagreindan texta og setja sjálf/ur inn í meginmál póstsins)

Hvetjið vini og kunningja til að taka þátt!
Sendið eftirfarandi tölvupóst á þá sem þið teljið að hafi áhuga:

Mótmælum breytingum á lögum um útlendinga.

Ef breytingarnar verða samþykktar er verið að skerða mannréttindi innflytjenda verulega.

Spyrnum gegn aðför að borgararéttindum á Íslandi.

Mótmælum frumvarpi til nýrra útlendingalaga!

Kíkið á https://skodun.is/utlendingalog.html og kynnið ykkur málin!

Umsögn Fjölmenningarráðs og W.O.M.E.N. sem var send á Allsherjarnefnd Alþingis:

Til Allsherjanefndar Alþingis Íslendinga

Umsögn um frumvarp til laga
um breytingu á Lögum um útlendinga,
nr. 96 15. maí 2002, með síðari breytingu
(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003-2004. 749.mál)

Við undirrituð viljum gera eftirfarandi athugasemdir við frumvarp til laga um breytingu á Lögum um útlendinga, nr.96 15. maí 2002, með síðari breytingu, sem lagt hefur verið fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003 – 2004.

Fjölmörg atriði í frumvarpinu stangast á við jafnréttissjónarmið. Sumar breytingarnar í frumvarpinu fela í sér hættu á því að fólki af erlendum uppruna sem búsett er hér á landi eða hefur í hyggju að flytja til landsins verði mismunað á grundvelli uppruna ýmist á grundvelli sjálfra laganna eða við túlkun þeirra í hinum ýmsu stofnunum á vegum framkvæmdavaldsins. Athugasemd er gerð við að hvorki skuli hafi verið haft samband við fulltrúa innflytjenda né samtök sem vinna að málefnum þeirra við undirbúning frumvarpsins.

Við drögum ekki í efa að útlendingum rétt eins og Íslendingum beri að hlýða lögum í landinu. Hinsvegar finnst okkur fráleitt að setja þurfi sérstök lög um þætti eins og fjölskylduhagi útlendinga umfram aðra íbúa íslensks samfélags eins og gert er í frumvarpinu.

Maki þurfi að vera eldri en 24 ára til að teljast náinn aðstandandi.

2. grein a.
Frumvarpið gerir að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli hjónabands, sambúðar eða samvistar að erlendur maki, sambúðar- eða samvistarmaki hafi náð 24 ára aldri. Íslensk hjúskaparlög heimila fólki að ganga í hjónaband við 18 ára aldur. Hér er fólki af erlendum uppruna því greinilega mismunað á grundvelli uppruna.

Aldurstakmark ættmenna að feðgatali.

2. grein a.
Frumvarpið útilokar yngri ættmenni útlendings að feðgatali en 66 ára frá því að fá dvalarleyfi í landinu sem nánustu aðstandendur. Röksemd frumvarpsins er að með breytingunni sé verið að koma í veg fyrir að ungum ættmönnum takist að fara hjáleið inn á íslenskan vinnumarkað og tekið er fram að viðkomandi geti ætíð sótt um dvalarleyfi á Íslandi á eigin forsendum.

Ákvæðið er óþarft því núgildandi lög kveða á um að ættmenni innflytjenda þurfi hvort er eð að sækja um atvinnuleyfi ef þeir hyggjast fá sér vinnu. Hinsvegar hindrar ákvæðið fólk í að flytjast til landsins til að njóta samvista við börn og barnabörn sín. Í fjölskylduvænu samfélagi eins og Íslandi ætti ekki þurfa að útskýra sérstaklega hversu jákvæð áhrif nærvera ættingja hefur á líðan fjölskyldna og alveg sérstaklega barna.

“Málamyndahjónabönd.”

2 grein b.
Ákvæðið er alvarleg ógnun fyrir mörg tilvonandi hjónabönd sem byggð eru á sömu forsendum og hjónabönd milli tveggja Íslendinga. Hjúskapur er skilgreindur í hjúskaparlögum og ákvæði hjúskapalaganna eiga að gilda fyrir alla, óháð ríkisfangi eða uppruna. Ekki er heldur að finna skilgreiningu á hugtakinu “málamyndahjónaband” í íslenskum lögum. Sú skilgreining á heima i hjúskaparlögum.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að “þegar metið er hvort grunur sé á málamyndahjónabandi sé m.a. litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þau tali tungumál hvors annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars.”

Að okkar mati felur þessi lýsing í sér algjöra vanþekkingu og vanvirðingu við aðra menningaheima. Víða um heim tíðkast ekki og varðar jafnvel við lög að fólk búi saman fyrir hjónaband. Ekki er heldur hægt að meta á hlutlausan hátt hversu mikill aldursmunur sé eðlilegur í hjónabandi eða hvaða tungumál eigi að tala á heimili.

Ekki er eðlilegt að Útlendingastofnun í hlutverki siðgæðisvarðar byggi stjórnvaldsákvörðun sína gagnvart útlendingi á mati stofnunarinnar á því hvernig rétt sé að fólk kynnist og stofni til fjölskyldu.

Brottvísun heimiluð ef útlendingur dvelur ólöglega í landinu.

5.grein
Oft skortir talsvert á að útlendingum séu veittar nægilegar upplýsingar um hvernig beri að fara að endurnýjun dvalar- og atvinnuleyfa. Dæmi eru um að fólk búi og vinni í landinu í góðri trú um að pappírar þeirra séu í lagi þegar annað kemur á daginn.

Ekki má heldur gleyma því að algengt er að atvinnurekendur taki að sér að sjá um dvalar- og atvinnuleyfi erlendra starfsmanna sinna.

Á meðan enn skortir talsvert á að grundvallarupplýsingum sé komið til útlendinga og lög kveða á um að atvinnuleyfi útlendinga sé í höndum atvinnurekanda er ekki eðlilegt að sækja útlendinga til saka vegna mistaka í tengslum við veitingu dvalar- og atvinnuleyfa.

Refsivert að stofna til “málamynda”- eða nauðungarhjónabanda.
Lögreglu veitt heimild að efna til húsleitar í tengslum við slíkan grun.

7.grein a.
Ekki er að okkar mati óeðlilegt að lögregla hafi heimild til húsleitar ef um er að ræða grun um refsivert brot. Hinsvegar segir í ákvæðinu “… má lögregla leita á útlendingnum, á heimili hans, herbergi eða hirslum samkvæmt reglum laga um meðferð opinbera mála, eftir því sem við á.”

Hér er orðalagið “eftir því sem við á” gagnrýnt. Lög um meðferð opinbera mála eiga að gilda undantekningarlaust enda eru þau sett til að tryggja borgarana gagnvart rannsóknar- og ákæruvaldi. Jafn teygjanlegt orðalag býður upp á mismunun gagnvart útlendingum í túlkun laganna.

Heimild veitt til rannsóknar á erfðaefni þegar sótt er um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

7. grein b.
Þegar sótt er um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar getur Útlendingarstofnun farið fram á rannsókn á erfðaefni og krafist lífsýnis samkvæmt frumvarpinu. Í mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur staðfest og gerst aðili að, svo og Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, er friðhelgi einkalífsins meðal helstu mannréttinda. Það er viðurkennt jafnt á alþjóðavettvangi og íslenskum lögum að þessa friðhelgi megi rjúfa ef rökstuddur grunur er á að einstaklingur hafi framið refsiverðan verknað. Ströng skilyrði eru þá lögð á stjórnvöld sem tryggja eiga einstaklinginn og að meðalhófs sé gætt af hálfu stjórnvalda. Engin dæmi eru í íslenskum lögum þar sem stjórnvaldi er heimilt að krefjast lífsýnis við rannsókn mála, að undanskilinni heimild lögreglunnar til blóðsýnis ef grunur er um ölvunarakstur. Ekki er aðeins um að ræða heimild til að þvinga fram samþykki fyrir slíkri sýnatöku, heldur er það án dómsúrskurðar og Útlendingastofnun, sem – burtséð frá staðreyndum er í eðli sínu stofnun sem útlendingar/innflytjendur bera ekki mikið traust til, fær slíka heimild án dómsúrskurðar.

Auk ofangreinds fela íslensk lög eins og lög ýmissa annarra ríkja í sér að fæðist barn í hjónabandi er eiginmaður móðurinnar lagalegur faðir barnsins. Mjög alvarlegar afleiðingar sem vitneskjan um erfðaefni einstaklinga gæti skapast t.d. í tilfellum þar sem börn vita ekki hverjir eru raunverulegir blóðforeldrar sem getur komið til af ýmsum ástæðum, börn sem verða til á átakasvæðum vegna nauðgana, ættleiðingum o.fl.

Refsivert að bera fölsuð vegabréf eða önnur ferðaskilríki.

16. grein h.
Við viljum benda á 31. gr. Flóttamannasáttmála SÞ, auk leiðbeiningarreglna UNHCR þar sem aðildarríkjum er fyrirlagt að leggja ekki refsingar við því að flóttamenn komi ólöglega til ríkjanna. Einnig má benda á að fórnarlömb mansals eru oft með fölsuð ferðaskilríki – rétt eins og kom fram á ráðstefnu um mansal í Norræna húsinu 19. mars sl.

Þessi tillaga að lagaskyldu virðist án undantekninga brjóta einnig í bága við skyldu ríkja sbr. Palermo-samninginn, sem Ísland hefur staðfest en ekki fullgilt, til að vernda fórnarlömb mansals en skv. viðauka við samninginn skulu aðildarríkin ekki beita slíka aðila refsingum fyrir að koma ólöglega yfir landamæri.

Lokaorð
“Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna,” segir í 65. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands frá árinu 1944. Íslendingar eru stoltir af stjórnarskránni og treysta því að í henni hafi grundvallar mannréttindi í íslensku samfélagi verið tryggð. Með frumvarpi til laga um breytingu á Lögum um útlendinga er vegið að þessari helstu stoð réttláts samfélags á Íslandi. Sum ákvæðin brjóta beinlínis í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar um að allir séu jafnir fyrir lögum án tillits til þjóðernisuppruna o.s.frv.

Eins og hvað eftir annað kemur fram í greinargerð með lögum hefur verið farið að fordæmi Dana í veigamiklum atriðum við gerð frumvarpsins. Danska útlendingalöggjöfin er einhver strangasta útlendingalöggjöfin á Norðurlöndunum. Umhugsunarvert er að íslensk stjórnvöld skuli hafa valið að gera þessa ströngu útlendingalöggjöf danskra hægrimanna að fyrirmynd sinni. Ekki hvað síst með tilliti til þess að löggjöfin hefur sætt gagnrýni fyrir að brjóti gegn ákvæðum bæði í Mannréttinda- og Flóttmannasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Við mælum með að stjórnvöld endurskoði vandlega frumvarpið með hliðsjón af athugasemdum sem borist hafa og breyti því með tilliti til jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, alþjóðlegra sáttmála og reglna um mannréttindi og einstaklingsfrelsi.

Fleiri eru þessar athugasemdir ekki.

Virðingarfyllst,

Reykjavík, 29. mars 2004.

*Ábyrgðarmenn: Kolbeinn Stefánsson og Sigurður Hólm Gunnarsson
**Svo að hægt sé að fylgjast með hve margir mótmæla.

Deildu