Erindi flutt á málþingi Kristilegra skólasamtaka í húsi KFUM & K þann 21. febrúar 2004 um hvort kristin trú sé úrelt.
Fundarstjóri, kæru fundarmenn.
Ég vil byrja á því að þakka Jóni Magnúsi og KSS fyrir að bjóða mér að taka þátt í þessum fundi. Opnar og yfirvegaðar umræður um trúmál og lífsviðhorf geta ekki aðeins verið áhugaverðar heldur einnig lífsnauðsynlegar til að draga úr fordómum og koma í veg fyrir átök ólíkra hópa. Ekki það að ég telji að miklir fordómar séu við lýði hér á landi enn sem komið er þá vitum við öll hættan er fyrir hendi. Átök ólíkra trúarhópa víðs vegar um heiminn ættu að vera okkur sterk viðvörun um nauðsyn umburðarlyndis og opinnar umræðu.
Áður en ég hefst handa við að fjalla um spurningar málþingsins langar mig til að kynna sjálfan mig í stuttu máli svo fundargestir geti áttað sig á því frá hvaða sjónarhóli sá sem hér stendur sér trúarbrögð í nútímasamfélagi.
Ég heiti Sigurður Hólm Gunnarsson og eins og fram hefur komið er ég varaformaður Siðmenntar, félags um borgaralegar athafnir, og er jafnframt trúleysingi.
Hvað felst í því að vera trúleysingi? Kann einhver að spyrja. Trúleysi táknar í flestum tilfellum það sama og enska orðið atheism sem í beinni þýðingu merkir guðleysi. Í þessari merkingu má því segja að sá sem er trúlaus sé vantrúaður á tilveru Guðs, guða eða á tilveru annarra óskilgreindra æðri máttarvalda. Í þessum skilningi er ég trúlaus.
Íslenska orðið trúleysi er einnig oft notað um afstöðu efahyggjumanna. Efahyggjumenn eru þeir sem meðvitað trúa engu því sem ekki verður sannað eða sýnt fram á að sé til með viðunandi rökum eða vísindalegum aðferðum. Í þessum skilningi er ég einnig trúlaus.
Ég hef hins vegar ekki alltaf verið trúlaus, heldur var ég þvert á móti afar trúaður á mínum yngri árum. Frá unga aldri ólst ég upp hjá móður minni á heimili ömmu minnar og afa, en afi minn var og er mjög trúaður en ekki síður einstaklega góðhjartaður maður.
Afi minn hafði án efa mest áhrif á trúarskoðanir mínar framan af. Þegar ég hugsa til baka man ég einna skýrast eftir því að hafa setið upp í sófa með honum og hlustað á hann lesa upp úr myndabiblíunni. Hann ræddi við mig tímunum saman um Guð og Jesú og ekki síður um mikilvægi þess að vera heiðarlegur og góður einstaklingur. Eins og svo margir ólst ég því upp við þá trú að órjúfanleg tengsl væri á milli góðmennsku og siðferði annars vegar og trúna á Guð hins vegar.
Það var ekki fyrr en nokkru eftir að ég hafði fermdist kirkjulegri fermingu sem ég fór að efast um trú mína. Forvitni mín um vísindi, heimspeki og ekki síður trúarbrögð varð þess valdandi að ég las ótæpilega mikið af bókum. Eftir lestur fjölmargra fræðibóka komst ég smátt og smátt að því að útskýringar trúarinnar á lífinu og tilverunni pössuðu ekki við reynsluheim mannsins og vísindalegar niðurstöður. Heimurinn var ekki skapaður á sex dögum og ekki er hann 6000 ára gamall. Núverandi líf á jörðinni varð til eftir geysiflókna þróun sem tók milljónir ára. Maðurinn á sameiginlega forfeður með öpum en var ekki skapaður í skyndingu af Guði, í hans eigin mynd.
Þekkingarfræðin
Mér varð fljótlega ljóst að hlutverk trúarbragða var fyrst og fremst að reyna að útskýra fyrirbrigði sem menn skildu ekki. Mikilvægt hlutverk flestra trúarbragða er þekkingarfræði þeirra, það er útskýringar þeirra á veröldinni. Hvernig varð heimurinn til? Hvernig varð maðurinn til? Hvað veldur jarðskjálftum? Rigningu? Þrumum og eldingum? Regnboganum? Og svona má lengi telja. Niðurstaða flestra trúarbragða, og þar með kristinnar, er svipuð: Hún er Guð. Guð er svarið við leyndardómum heimsins. Það er Guð sem orsakar allt sem við skiljum ekki.
Eftir því sem þekking manna hefur aukist hefur vald Guðs hins vegar sífellt farið minnkandi. Nákvæmar vísindalegar niðurstöður útskýra fimlega tilvist áður óútskýranlegra náttúrufyrirbrigða en hvergi bólar á Guði og afskiptum hans.
Í yfirskrift þessa málþings er spurt: „Er kristin trú úrelt?“ Svar mitt við þeirri spurningu er já. Í það minnsta þegar við lítum til þess hluta kristinnar trúar sem snýr að þekkingarfræði. Útskýringar trúarinnar á veröldinni hafa ekki staðist tímans tönn, þær hafa einfaldlega ekki reynst sannar. Skipulögð þekkingaröflun og vísindalegar vinnuaðferðir hafa reynst manninum margfalt betur í leit sinni að sannleikanum heldur en nokkurn tímann trúin á Guð og sannleiksgildi Biblíunnar. Um þetta geta fáir deilt í dag.
Siðfræðin
Kristin trú gengur hins vegar ekki aðeins út á að útskýra undur heimsins. Annar mikilvægur hluti trúarbragða hefur alltaf verið sá að fjalla um siðferðileg efni. Kristin trú inniheldur gífurlega mikinn siðferðisboðskap, boð og bönn um það hvernig menn eiga að haga lífi sínu, gagnvart sjálfum sér og náunganum. Í biblíunni er að finna boðorðin tíu og fjölmargar aðrar leiðbeiningar um hvernig menn eiga að koma fram við hvor annan. Það var líklegast þetta hlutverk kristinnar trúar sem hafði hvað mest áhrif á mig í æsku og sama má eflaust segja um flesta þá sem alast upp á kristnum heimilum. Orðasambandið „kristilegt siðgæði“ er notað í daglegu tali sem samnefnari yfir allt gott siðferði. Maður sem er uppfullur af „kristilegum kærleik“ hlýtur að teljast góður maður. Um það eru flestir sammála.
Það kann því að koma ykkur á óvart að ég tel kristna trú sem leiðarvísi í siðfræðilegum efnum einnig vera úrelta. Hvers vegna? Jú, vegna þess að trúarrit kristinna, Biblían, inniheldur mikið af boðskap sem stangast á við almennt siðferði. Það siðferði sem flest vestræn lýðræðisríki lifa við í dag.
Tökum nokkur dæmi:
Í Biblíunni er þrælahald margsinnis réttlætt, ég fordæmi það. Enda voru margir baráttumenn gegn þrælahaldi annað hvort ókristnir eða voru trúleysingjar. Ágætt dæmi um þetta er Thomas Paine (1737-1809) sem var einn af þeim fyrstu sem barðist opinberlega gegn þrælahaldi í Bandaríkjunum og var fyrirlitinn af klerkum, trúmönnum og þrælahöldurum fyrir vikið. Kirkjan var á sínum tíma eitt helsta og öflugasta aflið sem barðist gegn því að þrælar yrðu frjálsir. Ekki af því að hinir trúuðu misskildu trúarbrögð sín heldur einfaldlega vegna þess að Biblían réttlætir og mælir með þrælahaldi. (sjá t.d.: 2. Mósebók: 21:2; 21:7; 21:20-21. 3. Mósebók: 22:11; 25:39; 25:44-46. Efesubréfið: 6:5. Kólossubréfið: 3:22. 1. Tímóteusarbréf: 6:1. Títusarbréfið: 2:9-10. 1. Pétursbréf: 2:18)
Í hinum kristna heimi er jafnrétti karla og kvenna sífellt að verða betra og betra. En það getur seint talist kristinni trú að þakka. Það tók hinn kristna heim næstum því 2000 ár að viðurkenna rétt kvenna til jafns við karla. Fyrir 50 árum síðan var staða konunnar átakanlega verri en hún er í dag og fyrir um 200 árum var í mörgum tilfellum farið með kvenfólk nánast eins og búfénað. Sorglegt en því miður satt. Á frægum kirkjuþingum fóru fram alvarlegar umræður um það konur hefðu yfirleitt sálir. Kirkjan hefur sjaldan verið fremst í baráttu fyrir jafnrétti og er það í raun mjög stutt síðan að konur fengu þann heiður að fá að starfa á jafnréttisgrundvelli í kirkjum. Enn í dag er staða konunnar slæm í mörgum svokölluðum bókstafstrúar samtökum. Kemur þetta varla á óvart þar sem réttlæting fyrir valdi karlmannsins yfir konunni er að finna á mörgum stöðum í Biblíunni. (sjá t.d.: 1. Korintubréf: 11:3; 14:34-36. Efesusbréfið: 5:22-24. Kólossubréfið: 3:18. 1. Tímóteusarbréf: 2:11-15. 1. Pétursbréf: 3:1)
Umburðarlyndi hefur stóraukist á undanförnum árum, sem betur fer. Það er heldur ekki kristinni trú að þakka. Þó að til að mynda samkynhneigðir þurfi ekki að skammast sín eins mikið fyrir kynhneigð sína í dag og áður þá er það síst vegna afskipta kirkjunnar. Afstaða kirkjunnar og hinna trúuðu þekkjum við öll. Samkynhneigð er synd og sumir ganga svo langt að segja að samkynhneigðir muni brenna í Helvíti. Eins og svo oft áður er kirkjan síðust til að aðlaga sig að breyttri heimsmynd þar sem frelsi, jafnrétti og umburðalyndi er meira áberandi en áður var. Rétt eins og var með réttindi kvenna eða þrælahald þá mun kirkjan verða síðust til að bera virðingu fyrir samkynhneigðum. Við búum í raun á nokkuð merkum tímamótum því fjölmargir kristnir fordæma enn samkynhneigð með tilvísunum í Biblíuna rétt eins og félagar þeirra gerðu til forna til að réttlæta þrælahald eða kúgun kvenna. (sjá t.d.: 1. Mósebók: 13:13; 19:4-5; 24-25; 3. Mósebók: 18:22; 20:13. 1. Samúelsbók: 18:1-4; 19:1-7; 20:30-42. 2. Samúelsbók: 1:26. 1. Konungsbók: 14:24; 22:43, 46; 15:11-12. Jesaja: 3:9. Rómverjabréfið: 1:26-27. 1. Tímóteusarbréf: 1:10. 1. Korintubréf: 6:9-10. Opinberunarbókin: 22:15)
Af ofangreindum dæmum má fundargestum vera ljóst að ég tel siðferðishugmyndir kristinnar trúar einnig vera úreltar, rétt eins og þekkingarfræðin. Með þessu er ég ekki að segja að öll þau siðferðisviðmið sem finnast í Biblíunni séu úrelt, heldur bendi ég aðeins á að gallarnir eru það margir og augljósir að ekki verður hægt að byggja gott siðferði á kristinni trú einni saman. Uppskriftina að réttlæti og góðu siðferði er ekki að finna í trú kristinna manna.
Það er skoðun undirritaðs að siðferði byggist ekki upp á reglum sem menn eiga að læra utanbókar og tileinka sér umhugsunarlaust. Siðferðisreglur verði til vegna reynslu og skilnings manna á því hvernig best sé að lifa. Góðar siðferðisreglur gera líf okkar hamingjusamara og lengra. Siðferði byggist því fyrst og fremst á skynsemi en ekki boðum og bönnum. Gullna reglan, sem meðal annars er að finna í Biblíunni, er t.d. ágæt því hún segir að maður eigi að koma fram við aðra eins og maður vill að aðrir komi fram við mann sjálfan. Þessi regla á mjög oft við vegna þess einmitt að hún er byggð á skynsemi. (Enda sagði Confúsíus þetta u.þ.b. 500 árum fyrir okkar tímatal).
„Er kristin trú úrelt?“
Svar mitt verður að vera já. Eins og fram hefur komið er ljóst að hvorki þekkingarfræði trúarinnar né siðferðisboðskapur hennar á við í dag. Reynsla mannkyns og staðreyndir segja okkur einfaldlega annað.
Að lokum vil ég fá að svara seinni spurningunni í stuttu máli.
Spurt er: „Er kirkjan dauð?“
Ef spurt er um íslensku Þjóðkirkjuna, þá er erfitt fyrir mann sem stendur fyrir utan hana að svara spurningunni og satt best að segja þá hefur sá sem hér stendur lítinn áhuga á spurningunni því hún varðar hann lítið. Ég freistast til að breyta spurningunni í: „Er kristin trú dauð, eða er hún að deyja?“
Svar mitt við þeirri spurningu er afdráttarlaust nei. Kristin trú lifir góðu lífi víðs vegar um heiminn og mun án efa gera það um ókomin ár. Um tveir milljarðar manna, eða þriðjungur mannkyns, kenna sig við kristna trú. Í öflugasta lýðræðisríki heims skiptir kristin trú meira máli en nokkru sinni fyrr. Forseti Bandaríkjanna er afar trúaður og sama má segja um helstu lykilmenn í stjórnkerfi og hæstarétti landsins. Kristnir trúarhópar nánast stjórna stærsta stjórnamálaflokki landsins, Repúblíkanaflokkinn, og trúin hefur áhrif á næstum alla þætti mannlífsins. Um helmingur Bandaríkjamanna fer í kirkju í hverri viku sem hlýtur að teljast ótrúlega mikið miðað við að aðeins um 2% Íslendinga gera hið sama (8% segjast fara mánaðarlega).
Þó kristin trú eigi varla undir högg að sækja þegar litið er til alls heimsins þá bendir ýmislegt til að trúarlíf Íslendinga hafi dalað töluvert á undanförnum áratugum. Það að skipuleggjendur þessa málþings skuli yfirleitt telja sig þurfa spyrja þeirrar spurningar hvort „kirkjan sé dauð“ gefur reyndar vísbendingar um að ég sé ekki einn á þessari skoðun.
Trú Íslendinga hefur óneitanlega breyst mikið í gegnum tíðina, svo mikið reyndar að efast má um að Íslendingar séu yfirleitt kristnir. Í bók Björns Björnssonar og Péturs Péturssonar, Trúarlíf Íslendinga frá árinu 1990, kemur glögglega í ljós að Íslendingar eru ekki sérstaklega trúaðir, og fæstir kristnir í hefðbundinni skilgreiningu. Í bókinni er birt könnun sem sýnir að einungis 10-30% Íslendinga tileinka sér skilyrðislaust grundvallarkenningar og játningar kirkjunnar og aðeins um þriðjungur þjóðarinnar telur Jesú krist vera frelsara sinn. Er það mun lægri tala en búast mætti við þar sem meira en 95% landsmanna eru skráð í kristinn söfnuð. Litlu færri, eða fjórðungur landsmanna, trúir statt og stöðugt á tilvist álfa og huldufólks. Meira en helmingur Íslendinga, mun fleiri en þeir sem trúa að Jesú sé frelsari þeirra, er sannfærður um að hægt sé að ná sambandi við framliðið fólk á miðilsfundum. Sú trú er vitaskuld andstæð hefðbundnum kristnum kenningum.
Athygli vekur að 58% Íslendinga lesa aldrei Biblíuna. Aldrei! Og aðeins um 5% glugga í trúarbók sína í hverjum mánuði.
Það kemur því varla á óvart að tæpur fjórðungur Íslendinga segist efast eða vera trúlaust og það sem áhugaverðara er þá segist 50%, eða helmingur allra Íslendinga, vera „einkatrúar“. Það þýðir einfaldlega að annar hver maður í landinu trúir á líf eftir dauðann og óskilgreindan „æðri mátt“ en býr sér til kennisetningar eftir hendinni hverju sinni.
Mikill meirihluti landsmanna, eða um 80%, trúir á einhverskonar líf eftir dauðann en aðeins rúmlega 14 af hundraði telja að eftir dauðann risi maðurinn upp til samfélags við Guð. En eins og þið vitið er það einmitt hin klassíska kenning kristinnar kirkju. Í sömu heimild kemur fram að ekki nema 8% landsmanna trúir á tilvist djöfulsins og enn færri, eða 6% á tilvist helvítis.
Niðurstaða bókarhöfunda er í raun sú að mikill meirihluti þjóðarinnar eða 60-70 af hundraði lítur á lúthersku kirkjuna sem sjálfsagðan þátt í íslensku samfélagi og menningarhefð. Skiptir þá litlu þótt fólk líti svo á að það eigi litla samleið með kirkjunni og telji boðskap hennar sér óviðkomandi með öllu.
Ef marka má niðurstöður þessara bókar eru Íslendingar, flestir hverjir, ekki kristnir nema að nafninu til.
Til samanburðar sýnir nýleg bandarísk könnun að langstærstur hluti Bandaríkjamanna telur Jesú krist vera frelsara sinn og meira en helmingur Bandaríkjamanna trúir á tilvist djöfulsins. Sama könnun sýnir einnig að ekki nema 9% Bandaríkjamanna trúir meginniðurstöðum þróunarkenningarinnar. Fyrir þeim er sköpunarsagan líklegri skýring á tilurð lífs á jörðinni, þvert á allar vísindalegar niðurstöður. Á Íslandi er þessu þveröfugt farið. Nánast allir líta á sköpunarsögu biblíunnar sem skemmtilega goðsögu en ekki sem staðreynd. Á þessu má sjá að staða kristinnar trúar er afar misjöfn eftir heimshlutum.
Að lokum
Á 17., 18. og 19. öld voru ýmsir lærðir menn og spekingar sannfærðir um að skipulögð trúarbrögð myndu leggjast af innan örfárra ára. Ástæðan var sú, eins og ég hef fjallað um hér, að boðskapur trúarinnar er í andstöðu við sífellt bætta þekkingu mannsins. Spádómar þessara manna um komandi öld skynseminnar þar sem vísindaleg vinnubrögð og rökhugsun stjórna gjörðum manna en ekki trú, hafa hins vegar ekki ræst.
Trúin er ennþá útbreidd og ekkert lát virðist vera á vinsældum helstu trúarbragða heims. Svo mun eflaust áfram vera um ófyrirséða framtíð. Eins og áður mun trúin áfram taka miklum breytingum þegar trúarleiðtogar reyna að aðlaga hugmyndakerfi trúarinnar að aukinni þekkingu mannsins og breyttum tímum. Því er ólíklegt að kristin trú í þeirri mynd sem við þekkjum hana verði áfram til um ókomna tíð, en einhver útgáfa af trúnni verður til lengi vel enn.
Ef ég á að leyfa mér að spá um framtíðina þá spái ég því að trúarhugmyndir muni halda áfram að þróast. Smá saman mun draga úr bókstafstrú og tel ég líklegra að trú Bandaríkjamanna muni þegar fram líða stundir líkjast meir og meir trú Íslendinga, fremur en öfugt. Það er mín spá.
Annars þakka ég gott hljóð og hlakka til að fá að taka þátt í skemmtilegum umræðum.
Nokkrar heimildir:
Biblían
Ímynd á nýrri öld
Viðbrögð við íslenskum kirkjuveruleika við upphaf 21. aldar – Hjalti Hugason
The Demon-Haunted World – Carl Sagan
Trúarlíf Íslendinga á ofanverðri 20. öld
Könnun guðfræðiprófessoranna Björns Björnssonar og Péturs Péturssonar