Fordómafull umræða

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

11/08/2003

11. 8. 2003

Því miður virðist umræðan um borgaralegar fermingar oft byggjast á fordómum. Af þeim ástæðum ákvað ég að skrifa enn einn pistilinn um borgaralegar fermingar. Stundum eru það jafnvel valdamiklir menn í samfélaginu sem breiða út þessa fordóma. Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra og núverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur þar verið einna fremstur í flokki. Í ræðu […]

Því miður virðist umræðan um borgaralegar fermingar oft byggjast á fordómum. Af þeim ástæðum ákvað ég að skrifa enn einn pistilinn um borgaralegar fermingar. Stundum eru það jafnvel valdamiklir menn í samfélaginu sem breiða út þessa fordóma.

Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra og núverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur þar verið einna fremstur í flokki.

Í ræðu sinni á kirkjuþing í Bústaðarkirkju þann 17. október 1995 sagði hann t.d.:

,,Ljóst er, að sú tíska gengur einnig yfir Ísland, sem mælir gegn kristnum áhrifum á ungt fólk. Birtist hún í ýmsum myndum og fær liðsinni úr ólíkum áttum. Hér í Reykjavík hafa til dæmis orðið umræður um hlut borgaryfirvalda að borgaralegri fermingu, sem segja má að stefnt sé gegn gildum kristninnar. Þegar um þessi gildi er að ræða eiga stjórnmálamenn ekki að hika við að taka afstöðu með þeim sjónarmiðum, sem reifuð eru í aðalnámskrá grunnskólans. Síst á það við í þessu efni að hlaupa á eftir tískustraumum. Þeir, sem bjóða sig fram til forystu, eiga að hafa þrek til að taka skýra afstöðu í málum, er lúta að rótum lýðræðislegra stjórnarhátta okkar og snerta auk þess kjarna hinna siðferðilegu gilda og byggjast á kristinni trú.“

Björn gagnrýndi Ingibjörgu Sólrúnu, þáverandi borgarstjóra, harðlega fyrir það eitt að leyfa Siðmennt að halda athöfn sína í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þegar Björn var síðar gagnrýndur í fjölmiðlum fyrir þessa afstöðu sína svaraði hann því með eftirfarandi orðum á heimasíðu sinni þann 21.10.1995:

,,Borgarstjóri gerði meira en að opna Ráðhúsið, Ingibjörg Sólrún flutti siðapredikun yfir ungmennunum og lagði þeim lífsreglur, eins og hún virðist telja sig eiga að gera gagnvart öllum. Athöfnin í Ráðhúsinu bar allt yfirbragð þess, að til hennar væri stofnað með sérstökum velvilja borgarstjóra.“

Björn hafði greinilega áhyggjur að því að Siðmennt nyti velvilja stjórnvalda. Af hverju? Jú vegna þess að hann trúir því að Siðmennt sé af einhverjum ástæðum að berjast gegn ,,kristnum áhrifum á ungt fólk“ og hann taldi það skyldu sína að vernda siðferðileg gildi sem byggjast á kristinni trú, eins og hann orðar það.

Við búum í lýðræðislegu og fjölmenningarlegu samfélagi og því er umburðarlyndi gagnvart ólíkum lífsskoðunum nauðsynlegt. Vonandi geta ráðamenn sýnt þann þroska og það siðferðisþrek í framtíðinni sem felst í því að losa sig við eigin fordóma og vera þannig heilbrigð fyrirmynd þjóðarinnar.

Sjá nánar:
Ranghugmyndir um borgaralegar fermingar

Deildu