Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingar, flutti fyrirspurn á Alþingi í dag til menntamálaráðherra þar sem hún spurði meðal annars hvort ráðherrann hygðist styrkja gerð heimildarþáttarins ,,Einelti – helvíti á jörð”. Framleiðendur þáttarins hafa sótt um styrki til hins opinbera, en hingað til án árangurs. Ráðherra virtist taka vel í málið.
Fyrirspurn Ástu Ragnheiðar:
,,Tveir félagar, ungir menn, Sigurður Hólm Gunnarsson og Kristbjörn Björnsson hafa einnig gert, nánast algerlega á eigin kostnað mjög átakalegan og áhrifaríkan heimildarþátt um einelti, sem þeir nefna Einelti – helvíti á jörð. Reyndar fengu þeir smá styrk frá Kvikmyndasjóði til gerðarinnar. Einnig hafa þeir haldið úti heimasíðu en þeir hafa ekki fengið neinn frekari fjárstuðning frá hinu opinbera, og reyndar verið synjað um fjárstuðning a.m.k. frá félagsmálaráðuneytinu.”
,,Þeir einstaklingar sem hafa reynslu af þessu böli sem hafa vakið umræðuna um einelti og hafa hafið þessa baráttu án stuðning frá hinu opinbera.”
,,Ég vil spyrja hæstvirtan menntamálaráðherra, vegna þess að ekki hefur komið stuðningur til þessarar vinnu allrar frá hinu opinbera hvort hann muni leggja þessu þarfa framtaki lið með fjárveitingu eða á annan hátt…”
,,Þessir menn sem eru að vinna að þessu úti samfélaginu, þeir eru að bjarga mannslífum og þessi vinna sem þeir eru að sinna er dýr… Ég spyr því hæstvirtan ráðherra, hyggst hann styðja þá vinnu sem hefur þegar farið af stað hjá þessum sem hafa tekið það upp hjá sjálfum sér og hafa liðið fyrir einelti sjálfir og eru að reyna að hjálpa þeim sem eru í sömu sporum. Mun hann leggja þeim lið, mun hann setja fjármagn í þetta. Ég sé að það er ekkert á fjárlögum sem kemur til þessara hópa.
Ráðherra hefur auðvitað yfir ákveðnu fjármagni að ráða sem ráðherra, ráðstöfunarfé sínu til dæmis og ég spyr hæstvirtan ráðherra, mun hann leggja þessu lið með fjármagni, því þarna er verið að vinna mjög mikilvæga vinnu ekki síður en aðgerðaráætlun ráðherra sem er af hinu góða einnig en það þarf að leggja einnig lið sjálfsprottnu starfi eins og þeir vinna hér og ég hef nefnt hér fyrr í ræðu minni.“
Tómas Ingi Olrich sagði meðal annars í svari sínu:
,,Það má segja herra forseti að viðbrögð við þessum vanda, sem er alvarlegur vandi og snertir sjálfar undirstöður lýðræðisins, þurfi að vera á tvenns konar sviði. Annars vegar þurfum við að hafa kerfi innan skólanna sem kann að bregðast við þessum vanda og bregst rétt við honum… Það skiptir miklu máli að snúa sér til foreldranna og barnanna sjálfra.
Til þess þurfum við fólk sem hefur hæfileika til að sannfæra fólk um, bæði foreldra og nemendur, hvert sé vandamálið í hnotskurn og það sé mikilvægt fyrir alla aðila, ekki síst þá sem að stunda eineltið að brjótast út úr þessum vanda. Þá eru það einmitt einstaklingar eins og þeir sem hafa verið nefndir hér sem hafa mikla hæfileika til að ná til fólks og sannfæra það og vinna gott verk þar…
Ég mun ýta undir samstarf að þessu tagi og ég mun styrkja það. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við virkjum á þessu sviði… einstaklinga sem eru reiðubúnir til að láta gott af sér leiða. Það þarf að vinna þetta mál á tvennum vígsstöðum og hinir áhugasömu einstaklingar eru hluti af þessu liði, þessu sjálffróða liði sem vill láta gott af sér leiða í þessum efnum. Ég vil vinna með þeim.“