Fordómar gagnvart menningu múslima

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

12/10/2002

12. 10. 2002

Þessa dagana berast fréttir af fordómum Íslendinga í garð menningu múslima. Nokkrir vegfarendur hafa hellt úr reiði sinni og kvartað sáran yfir því að Listasafn Reykjavíkur spili bænakall múslima þrisvar á dag til að auglýsa sýningu um menningu araba. Einhvernvegin efast ég um að þetta fólk fái sambærileg geðköst þegar allar kirkjuklukkur landsins glymja, ekki […]

Þessa dagana berast fréttir af fordómum Íslendinga í garð menningu múslima. Nokkrir vegfarendur hafa hellt úr reiði sinni og kvartað sáran yfir því að Listasafn Reykjavíkur spili bænakall múslima þrisvar á dag til að auglýsa sýningu um menningu araba. Einhvernvegin efast ég um að þetta fólk fái sambærileg geðköst þegar allar kirkjuklukkur landsins glymja, ekki síst eldsnemma á sunnudögum.


Þessi frétt birtist um málið á Vísi.is þann 7. desember:

Listasafn Reykjavíkur stendur þessa dagana fyrir sýningu í Hafnarhúsinu þar sem fjallað er um menningu araba. Spila þeir bænakall múslima þrisvar á dag til að vekja athygli á sýningunni. Hefur þetta bænakall farið fyrir brjóstið á mörgum sem telja menningu múslima ekki eiga heima á Íslandi.

Eiríkur Þorláksson, forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur, segir í viðtali í Morgunblaðinu í dag að sumt fólk ,,hafi tekið þessu illa og þá látið ýmsa fordóma og ókurteisi dynja á afgreiðslufólki.”

,,Við höfum hvatt fólk til að reyna að takast á við eigin fordóma og sýna þolinmæði. Fólk hefur verið að býsnast yfir hversu framandi þetta sé og spyr hvaða erindi þetta eigi hér á landi.”

Eiríkur segir að það hafi ekki komið til tals að hætta þessum bænaköllum enda segir hann að ,,það væri ótrúleg þröngsýni ef Íslendingar gætu ekki þolað það aðkynnast öðrum menningarheimum með jafn saklausum hætti og þarna er.” Morgunblaðið greindi frá.

Siðferðisreglur eru algildar
Umburðarlyndisskortur er ein helsta ástæða ofbeldis og átaka mismunandi lífsskoðanahópa um allan heim. Er þessi skortur á umburðarlyndi einna algengastur meðal trúarhópa. Þá sérstaklega meðal þeirra sem eru hvað harðastir í trúarafstöðu sinni. Að telja upp öll þau átök í heiminum vegna átaka trúarhópa væri að æra óstöðuga.

Algengt er að fólk í ákveðnum trúarreglum setji sig og sína á háan hest og telji allt siðferði manna frá sinni trú komið. Þeir sem hafa áhuga á siðferðilegum málum en standa utan trúarbragða vita vel að siðferði hefur gildi í sjálfu sér og skiptir þá engu máli hver uppruni þess er.

Oft virðist líka gleymast að siðferði er algilt. Með því á ég við að við eigum að koma eins fram við alla, óháð trú þeirra eða lífsskoðun. Þetta er nauðsynleg forsenda þess að siðfræði gangi upp. Trúarhópar vilja oft hafa eina reglu fyrir sig og fólk sem er sömu trúar og það sjálft en aðrar reglur um alla aðra. Þetta gengur vitaskuld ekki upp.

Að vera umburðarlyndur einungis gagnvart þeim sem eru sömu skoðana og maður sjálfur er ekki umburðalyndi. Umburðarlyndi felst í því að bera virðingu fyrir skoðunum og gjörðum annarra sem samræmast ekki manns eigin. Mikilvæg undantekning á þessu er auðvitað sú að ekki er hægt að ætlast til að fólk umberi gjörðir eða orð fólks sem beinlínis skaða aðra.

Arfur gamallar tíðar
Það er vitaskuld arfur gamallar tíðar að kalla fólk til bænahalds að sið múslima og skiljanlegt ef mörgum þykir ónæði fylgja slíku kalli. Það er ekki síður löngu úrelt að hringja stórum og háværum kirkjubjöllum eldsnemma á morgnanna, oft inn í íbúðarhverfum, til að kalla á fólk í kirkju. Það er löngu búið að finna upp símann, svo ekki sé minnst á fjölmiðla og internetið.

Deildu